Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.09.2018, Síða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16.9. 2018
LESBÓK
Við Íslendingar eigum okkur enganþjóðarfugl, en ef blásið væri til at-kvæðagreiðslu um málið myndi ég
greiða krumma mitt atkvæði. Reyndar er hann
þjóðarfugl Grænlendinga, en hérlendis er
hann bæði vinsælastur og óvinsælastur. Ef þú
mælir í línubilum hefur ekki verið ort meira
um einn einasta fugl á Íslandi né sagðir fleiri
málshættir, en helmingur allra fuglamálshátta
er um krumma,“ segir Hjörleifur Hjartarson,
annar tveggja höfunda fjölskyldukabarettsins
Krúnk, krúnk og dirrindí í leikstjórn Agnesar
Wild sem sýndur verður í menningarhúsinu
Hofi á Akureyri á morgun, sunnudag, kl. 16.
Hjörleifur samdi texta sýningarinnar, sem all-
ir eru í bundnu máli, en tónlistin kemur úr
smiðju Daníels Þorsteinssonar píanóleikara.
Sýningin er samstarfsverkefni allra sviða
Menningarfélags Akureyrar og fjallar „um líf-
ið í mýrinni þar sem krummi kynnir helstu far-
fugla, spéfugla og spáfugla og segir frá ferða-
lögum þeirra á sinn einstaka og gamansama
hátt,“ eins og segir í tilkynningu frá MAk.
Veislustjóri í Fenjamýri
„Krummi, sem Jóhann Axel Ingólfsson túlkar,
er veislustjóri á skemmtistaðnum Fenjamýri
og kynnir hina fuglana til leiks. Hann er að
undirbúa hina miklu veislu sem er sumarið á
norðurslóðum,“ segir Hjörleifur og tekur fram
að einboðið hafi verið að hafa krumma í hlut-
verki gestgjafans eða kabarettstjórans í ljósi
þess að hann „er eins og við og hangir hér á
þessu skeri allan ársins hring meðan hinir
fuglarnir fara suður yfir vetrartímann. Í byrj-
un sýningar er krummi einn með snjótittling-
unum sem stytta honum stundirnar á veturna.
Það er því eðlilegt að krummi taki á móti far-
fuglunum,“ segir Hjörleifur og bendir á að
krummi sé býsna fordómafullur í garð hinna
fuglanna og stundum tvöfaldur í roðinu. „Hann
skilur auk þess ekki stressið í hinum fuglunum
sem eru ekki fyrr komnir til Íslands en þeir
fara að undirbúa brottför sína aftur,“ segir
Hjörleifur kíminn.
Umfangsmesta útgáfan til þessa
Spurður um tilurð verksins segir Hjörleifur að
það eigi sér langan aðdraganda og hafi ratað á
svið í ólíkum myndum áður en sú útgáfa sem
sýnd verður í Hofi leit dagsins ljós. „Fyrir
nokkrum árum hafði Sigrún Magna Þórsteins-
dóttir, sem er organisti við Akureyrarkirkju
og stjórnar barnakór Akureyrarkirkju, sam-
band við okkur Daníel og bað okkur að skrifa
söngleik fyrir barnakórinn. Á þeim tíma var ég
dottinn inn í fuglabransann og nýbúinn að gera
sýningu um fugla á Húsabakka í Svarfaðardal
og datt ekkert annað betra umfjöllunarefni í
hug,“ segir Hjörleifur, sem um tíma var í verk-
efnastjórn fyrir Friðland Svarfdæla.
„Það leiddi mig á slóðir fuglanna sem flogið
hafa með mig í ýmsar óvæntar áttir,“ segir
Hjörleifur og nefnir í því samhengi fyrrnefnda
fuglasýningu, fuglakabarettinn og bók um
íslenska fugla sem út kom í fyrra. „Heimur
fuglanna er bæði heillandi og hressandi og þar
gerist margt sem kemur á óvart.“
Að sögn Hjörleifs var upphaflegi fuglasöng-
leikurinn frumfluttur af barnakór Akureyrar-
kirkju við rafmagnaðan undirleik á Kirkju-
listahátíð á Akureyri 2013. „Efnið lá í láginni í
nokkur ár þar til við Hilmar Örn [Agnarsson],
stjórnandi Söngfjelagsins, þar sem ég syng,
ræddum það einhvern tímann að gaman gæti
verið að útsetja söngleikinn fyrir blandaðan
kór. Það varð úr og við Daníel bættum við
nokkrum lögum, en hlutverki krumma var þá
sleppt,“ segir Hjörleifur og rifjar upp að bæði
Söngfjelagið og Kór Grundarkirkju í Eyjafirði
sem Daníel stjórnar hafi flutt efnið við nokkur
tækifæri undir yfirskriftinni Fuglakabarett.
„Útgáfan sem frumsýnd verður í Hofi er öllu
umfangsmeiri, enda tekur þátt hluti af Sinfón-
íuhljómsveit Norðurlands, tvöfaldur kvartett
atvinnusöngvara sem Daníel setti saman, einn
leikari og fjórir dansarar auk þess sem mikið
fer fyrir slagverkinu,“ segir Hjörleifur. Dans-
höfundur er Katrín Mist Haraldsdóttir, leik-
mynd og búninga hannar Eva Björg Harðar-
dóttir og Agnes Wild leikstýrir. „Áhorfendur
mega búast við litríkri og fjörugri uppfærslu
með frábærum búningum, enda gefur við-
fangsefnið tilefni til heilmikillar skrautsýn-
ingar. Þetta er alveg ný uppfærsla, þannig að
þeir sem heyrt hafa fyrri útgáfur efniviðsins
eiga von á góðu. Við stækkuðum hlutverk
krumma umtalsvert fyrir þessa sýningu, þann-
ig að Jóhann Axel hefur úr miklu að moða og
getur látið ljós sitt skína á sviðinu. Ég myndi
ekki vilja missa af þessu fyrir nokkurn pen-
ing,“ segir Hjörleifur. Sýningin er rúmur
klukkutími og flutt án hlés.
Enginn syngur um sílamávinn
Spurður hvers konar hljóðheim Daníel skapi í
verkinu segir Hjörleifur hann vera margskon-
ar. „Hluti af upplegginu er að fuglarnir eru að
koma víðs vegar að úr veröldinni. Sumir koma
frá Evrópu og aðrir frá Afríku. Þeir bera með
sér mjög ólíka tónlistarstrauma þaðan sem
þeir koma. Tónlistin er því mjög fjölbreytileg
og skemmtileg. Í þessari nýjustu útgáfu hafa
síðan bæst við svolítið loðnari karakterar, eins
og sílamávurinn – sem er fulltrúi óvelkomnu
gestanna í partíinu. Það syngur enginn um
sílamávinn og hann er alls ekki sáttur við það
og kvartan sáran undan því með því að rappa í
sýningunni.
Einnig bættist við fugl sem er ekki í dýra-
fræðinni, en það er hverafuglinn. Menn eru
ekki alveg sammála um hver uppruni hvera-
fuglsins er. Sumir telja að hann sé kominn frá
helvíti gegnum hveri,“ segir Hjörleifur og tek-
ur fram að eðlilega verði tónninn drungalegri
þegar hverafuglarnir birtast algjörlega óboðn-
ir. „Hverafuglar eru aðallega sunnlenskir og
steypa sér í sjóðandi heita hveri,“ segir Hjör-
leifur og bendir á að hverafugla sé víða getið í
þjóðsögum. „Þetta eru einu almennilegu þjóð-
sagnafuglarnir. Snorri á Húsafelli segir frá
hverafuglum og segist meira að segja hafa
smakkað þá. En eðli málsins samkvæmt er erf-
itt að sjóða þá, en ef þeir eru látnir liggja í
köldu vatni eldast þeir, en Snorri segir vera
kuldabragð af þeim.“
Spurður hvort viðbúið sé að uppfærslan rati
víðar á svið en í Hofi segir Hjörleifur það vera
til skoðunar og því aldrei að vita. „En þeir sem
vilja upplifa þetta ævintýri með allri sinni lita-
dýrð og fjöri verða að mæta í Hof.“
Jóhann Axel Ingólfsson
í hlutverki krumma
tekur á móti lóunni.
Ljósmynd/Agnes Wild
Krummi fær mitt atkvæði
Krúnk, krúnk og dirrindí nefnist nýr fjölskyldusöngleikur eftir Daníel Þorsteinsson og Hjörleif Hjartarson sem frumsýndur
verður í Hofi á morgun, sunnudag. Þar eru kynntir til leiks helstu farfuglar, spéfuglar og spáfuglar landsins.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is
„Heimur fuglanna er bæði heillandi og hress-
andi,“ segir Hjörleifur Hjartarson sem hér
er í góðum félagsskap spóa og uglu.
Morgunblaðið/Hari