Morgunblaðið - 31.12.2018, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12. 2018
„Þetta áttir þú,“ tilkynnti móðir mín. Hún hélt
á bláum skólabúningi fyrir stelpur útréttum
örmum.
Hún er nú 82 ára og kemur mér enn á óvart
með hlutunum sem hún tók með til minja frá
Kúbu og hefur haft í geymslu frá sjöunda ára-
tugnum.
Stjarna var saumuð framan á hann og fald-
urinn langur svo hægt væri að síkka hann þeg-
ar ég stækkaði.
„Manstu ekki?“
Ég hristi höfuðið.
„Þú varst í honum þegar þú varst fjögurra
ára gömul. Þú fórst í sama gyðingaleikskóla í
Havana og ég. Tímarnir voru á spænsku og
jiddísku. Var það ekki ótrúlegt? Svo kom
Castro.“
Ég óx úr grasi eins og svo mörg börn kúb-
anskra útlaga í áfalli vegna þess sem foreldrar
mínir misstu í byltingunni sem Fidel Castro
leiddi 1959. Þau trúðu á þær félagslegu umbæt-
ur sem Castro hafði séð fyrir sér – jafnrétti fyr-
ir konur og Kúbana af afrískum uppruna,
ókeypis leikskóla, land fyrir bændur, húsnæði
fyrir fátæka, heilbrigðisþjónustu fyrir alla og
menntun fyrir öll börn – og fannst þau hafa
verið svikin þegar hann snerist til alræðis-
hyggju og kommúnisma.
Eins og aðrir útlagar sinnar kynslóðar neita
foreldrar mínir að snúa aftur til eyjarinnar.
Þau vilja frekar halda í minningar sínar um
horfna Kúbu. Í næstum 30 ár hef ég farið aftur
upp á eigin spýtur og reynt að skilja hvað orðið
er um Kúbu.
Svo eru einnig börnin sem voru um kyrrt,
kynslóð uppalin af byltingarmönnum sem
reyndu að koma á réttlátu samfélagi með sjálf-
boðavinnu og fórnum fyrir samfélagið. Þau
börðust í gegnum tímabil djúpstæðs skorts og
horfa nú upp á hnignun velferðarkerfis Kúbu.
Vinkona mín, sem heldur foreldrum sínum
uppi með íbúðaleigu fyrir ferðamenn, velti fyrir
sér hver hún hefði verið, hvað hún hefði getað
orðið, hefðu þau farið.
„Þú ert heppin að foreldrar þínir fóru með
þig burt þegar þú varst lítil,“ sagði hún við mig.
En nú þegar Kúba nálgast 60 ára afmæli
byltingarinnar er ný kynslóð bæði á Kúbu og
utan að hrista af sér áföll fortíðarinnar.
Ungir Kúbanar í dag eru einstaklings-
hyggjumenn, stimplaðir „hugmyndafræðilegir
frávillingar“ af hinum eldri, sem hjuggu syk-
urreyr í þágu þjóðarinnar. Þótt þau hafi alist
upp undir síbylju um hrylling bandarískrar
heimsvaldastefnu og viðvarandi viðskipta-
hindranir eru þau með húðflúr þar sem stendur
„All You Need is Love“ eða „Live Hard“.
Og þau elska merkjavöru. Chanel kom til
Havana til að halda tískusýningu í maí 2016.
Munurinn á kynslóðunum kom fram með slá-
andi hætti þegar barnabarn Fidels Castros,
Tony Castro (Antonio Castro Ulloa), upprenn-
andi 19 ára fyrirsæta, kom fram á Paseo del
Prado.
Hin 37 ára gamla Idania del Río er sjálf-
sköpuð stjarna af hinni nýju kynslóð. Hún
sneri aftur til Havana eftir að hafa starfað er-
lendis þegar einkafyrirtæki urðu lögleg undir
stjórn Raúls Castros. Hún rekur verslun með
grafíska hönnun, Clandestina, og þar eru til
sölu silkiprentaðir stuttermabolir, sem náðu
athygli Baracks Obama Bandaríkjaforseta í
sögulegri heimsókn hans til Kúbu í mars 2016
og eru nú seldir á Amazon.
Það kemur á óvart hvað margir ungir Kúb-
anar hafa efni á að verja 28 dollurum – hátt í
meðalmánaðartekjur á eynni – í stuttermaboli
frá Clandestina, en það eru takmörk fyrir hvað
metnaður þeirra kemur þeim langt. Þau vinna
á einkareknum veitingastöðum, gera upp her-
bergi til að leigja ferðamönnum, gefa gömlum
Letta annað líf sem hvellbleikum leigubíl. Á
sama tíma fara nánast öll viðskipti enn fram
með reiðufé, enginn á greiðslukort og peningar
eru geymdir undir rúminu.
Vaxandi ójöfnuður hefur einnig fylgt opnun
landsins fyrir hinum kapítalíska heimi.
Snemma á tíunda áratugnum þegar ég sneri
fyrst aftur til Kúbu tók ég eftir að vörur í ferða-
mannabúðum voru faldar með dökkum glugga-
tjöldum til að koma í veg fyrir að Kúbanar
þráðu hluti sem þeir hefðu ekki efni á. Nú blas-
ir allt við – þar á meðal Chanel.
Áður var hægt að sleppa með því að forða
sér úr landi. En lönd víða um heim loka nú
landamærum sínum og Bandaríkin bjóða Kú-
bönum ekki lengur hraðleið að ríkisborgara-
rétti.
Nú dreymir unga Kúbana ekki um að flytja
burt heldur að ferðast.
Dótturson afrísk-kúbönsku fóstrunnar sem
gætti mín í barnæsku langar að ferðast til
Guantánamo þaðan sem faðir hans kemur.
Hann þénar hins vegar jafngildi 12 dollara á
mánuði og honum finnst nánast óvinnandi veg-
ur að safna fyrir rútu frá Havana til Guantán-
amo, tæplega þúsund km leið.
Mágur hans blandaði sér í samtal okkar.
„Minn draumur er að ferðast um heiminn og
snúa síðan aftur til Kúbu.“ Hann hló, en samt
fékk ég ekki á tilfinninguna að hann þráði póli-
tískar breytingar. „Á Kúbu eru hvorki gengi né
byssur. Þetta er öruggt land.“
Efnahagsleg vandamál þessara tveggja
ungu afrísk-kúbönsku manna þarf að vega út
frá tilfinningu þeirra um öryggi. Kynþátta-
hyggja heyrir ekki sögunni til á Kúbu og mörg-
um finnst hún fara vaxandi með einkaframtak-
inu, sem fylgir greinileg slagsíða í þágu hvítra
Kúbana. En eitt af því, sem ávannst til fram-
búðar með byltingunni, var að skapa öflugt
þjóðarstolt fyrir afrískri arfleifð Kúbu, að gefa
svörtum Kúbönum rödd, sem heldur áfram að
þrýsta á um aukið jafnrétti og rétt svartra til
að tjá sig – meira að segja hreyfingin Svört líf
skipta máli á sér stuðningsmenn á eyjunni.
En Kúba er á þröskuldi óvissunnar þegar
hún stígur inn í framtíð eftir Castro. Þótt hún
geti verið stolt af stjórnarskrárbreytingum,
sem meðal annars hafa að geyma tillögur um
að lögleiða hjónaband samkynhneigðra, vofir
vandi yfir landinu sem snertir samsetningu
íbúanna.
Fæðingartíðni hefur dregist svo saman á
Kúbu að það er áhyggjuefni og íbúarnir eru
þeir elstu í allri Rómönsku Ameríku. „Ég mun
aldrei fæða barn fyrir Fidel Castro,“ var kona
sem ég þekkti einu sinni vön að segja. Aðrir
segja að efnahagslegar aðstæður og þá sér-
staklega sár skortur á húsnæði hafi valdið því
að það er sérstaklega flókin ákvörðun að eign-
ast börn.
Fyrrverandi nágrannar okkar í Havana búa
enn í sömu litlu tveggja herbergja íbúðinni
sinni. Barnabarn þeirra hefur allt sitt líf sofið í
sama svefnherbergi og amma þess og afi, sem
nú eru orðin níræð og eru auglýsing fyrir frá-
bæra heilbrigðisþjónustu Kúbu, á meðan for-
eldrar barnsins sofa í hinu svefnherberginu.
Hún er 37 ára og kærasti hennar í rúman ára-
tug hefur búið í íbúð afa síns og ömmu allt sitt
líf.
„Við getum ekki gifst vegna þess að við höf-
um engan stað til að búa á,“ sagði hún mér. „Ég
held ekki að við munum eignast börn. Ég er að
verða gömul. Við þénum heldur ekki nóg til að
halda uppi barni.“
Ég gerði mér í hugarlund hvernig dóttir
hennar gæti litið út í skólabúningnum með
rauðan klút ungu frumkvöðlanna og upp fyrir
mér rifjaðist búningurinn sem móðir mín
geymdi í viðleitni sinni til að halda í endur-
minninguna um endasleppa barnæsku mína á
Kúbu.
Amma hennar lagði við hlustir eins og ömm-
ur gera á Kúbu. Fyrir mörgum árum seldi hún
giftingarhringinn sinn til að kaupa rafmagns-
viftu, en hún sér ekki eftir neinu. Hún brosti til
dótturdóttur sinnar og sagði: „Þú veist aldrei
hvað gerist. Aquí vivimos de la esperanza.“
Hér lifum við í voninni.
Ég veit að barnabarn hennar trúir ekki leng-
ur á staðlausa drauma um það sem gæti orðið.
Hún er staðráðin í að lifa lífi sínu í núinu eins
og aðrir Kúbanar af hinni nýju kynslóð.
En hún brosti góðlátlega til ömmu sinnar og
sagði: „Ég veit, abuela.“
©2018 The New York Times and Ruth Behar
Yamil Lage/Agence France-Presse - Getty Images
Yamil Lage/Agence France-Presse - Getty Images
Hæg endurfæðing Kúbu
Eftir því sem áföll byltingar Fidels Castros fjara út sleppa ungir Kúbanar hendinni af fortíðinni og taka nýjum hnattrænum nú-
tíma opnum örmum. Einkafyrirtæki ryðja sér til rúms og 19 ára barnabarn Castros er upprennandi fyrirsæta.
RUTH BEHAR
er prófessor í mannfræði við Michigan-háskóla. Hún
er höfundur Lucky Broken Girl, skáldsögu fyrir unga
lesendur, og ljóðabókarinnar Everything I Kept.
TÍMAMÓT: RAÚL CASTRO SEGIR AF SÉR EMBÆTTI FORSETA KÚBU
Idania del Río, eigandi Clan-
destina í Havana. Frum-
kvöðlar hafa blómstrað á
Kúbu eftir að Raúl Castro
lögleiddi einkafyrirtæki 2016.
Ung, kúbönsk kona tekur sjálfu á strandgöt-
unni Malecón í Havana. Kúbanar á þrítugs- og
fertugsaldri eru staráðnir í að nútímavæða land
sitt og koma því í samband við umheiminn.