Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.12.2018, Qupperneq 14
VIÐTAL
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16.12. 2018
Á
miðjum vegg í stofunni heima
hjá Valdimari Sverrissyni í Há-
túni í Reykjavík hangir ljós-
mynd eftir Braga Þór Jósefsson
sem tekin er í herstöðinni á
Miðnesheiði eftir að bandaríski herinn yfirgaf
landið. Látlaus mynd en sterk. Sjálfur tengist
Valdimar hvorki Miðnesheiði né hernum en
téð mynd hefur eigi að síður mikið tilfinn-
ingalegt gildi fyrir hann – hún var á síðustu
ljósmyndasýningunni sem hann sá áður en
hann missti sjónina árið 2015.
„Ég hreifst af sýningunni og langaði strax
að eignast þessa mynd,“ útskýrir Valdimar,
þar sem við stöndum saman fyrir framan
myndina í stofunni. Þetta er merkilegt augna-
blik því ég finn að hann, blindur maðurinn, sér
myndina þrátt fyrir allt betur en ég. Góður
ljósmyndari glatar líklega aldrei tilfinning-
unni. „Skömmu síðar veiktist ég hins vegar og
líf mitt tók í framhaldinu miklum breyt-
ingum,“ heldur Valdimar áfram. „Þá hætti ég
að hugsa um þetta. Það var síðan þegar ég
flutti hingað í Hátúnið að ég mundi aftur eftir
þessari mynd; þetta var síðasta sýningin sem
ég sá og ég mun ekki sjá fleiri í þessu lífi. Þess
vegna hringdi ég í Braga og fékk myndina hjá
honum. Það er virkilega gaman að hafa hana
hérna uppi á vegg; ég sé hana auðvitað ekki
lengur en man nákvæmlega hvernig hún er.“
Var orðinn „kexruglaður“
Allt byrjaði það með persónuleikabreytingum,
geðsveiflum, sinnuleysi, framtaksleysi, fjar-
veru frá vinnu, óhóflegum svefni, bjöguðu
lyktar- og bragðskyni og versnandi sjón. Þetta
var vorið 2015 og Valdimar var farinn að
hegða sér mjög undarlega, eiginlega orðinn
„kexruglaður“, eins og hann orðar það sjálfur,
og varla í húsum hæfur. Alltént gafst sam-
býliskona hans upp og vísaði honum út af
heimilinu, þar sem þau bjuggu ásamt tveimur
ungum dætrum sínum, Hildi Önnu og Láru
Margréti. Fyrir átti hann uppkomna dóttur
frá fyrra sambandi, Valdísi Ingunni hjúkr-
unarfræðing. „Eftir á að hyggja skil ég af-
stöðu hennar mjög vel,“ segir Valdimar, þegar
við höfum komið okkur makindalega fyrir í
stofunni. „Ég var orðinn virkilega erfiður í
samskiptum; farinn að öskra og æpa og steyta
hnefann af minnsta tilefni á heimilinu, allt
áreiti lagðist á sálina á mér. Sambýliskonu
minni var því nauðugur einn kostur – að vísa
mér út. Hún hafði miklar áhyggjur af mér,
hélt að ég væri þunglyndur og hvatti mig ein-
dregið til að fara til læknis.“
Valdimar flutti inn til móður sinnar, Önnu
Valdimarsdóttur sálfræðings og rithöfundar,
og sama mynstrið hélt áfram. Vinnufélagar
hans hjá prentsmiðjunni Prentmeti furðuðu
sig á háttalagi Valdimars og tíðri fjarveru úr
vinnu og ráðlögðu honum einnig að leita til
læknis. „Ég hlustaði ekkert á það enda pældi
ég lítið í þessu sjálfur; fannst ekkert ama að
mér. Að því kom að fyrrverandi sambýliskona
mín tók frumkvæðið og pantaði tíma fyrir mig
hjá heimilislækni og ég fór þangað. Ekkert
kom hins vegar út úr þeirri heimsókn; til stóð
að taka blóðprufu en af einhverjum ástæðum
var það ekki hægt. Ég man ekki hvort verkfall
var í gangi eða eitthvað annað.“
Seinkaði um sólarhring
Enn seig á ógæfuhliðina. Hringt var í Valdi-
mar að morgni vegna verkefnis í vinnunni og
hann kvaðst koma eftir hádegi. Leið nú og beið
og hann skilaði sér ekki fyrr en eftir hádegi
daginn eftir. Starfsmannastjóri Prentmets
kallaði Valdimar í framhaldinu á sinn fund og
spurði beint út hvort hann vildi láta reka sig.
Hann var þá farinn að sofa reglulega til hádeg-
is og jafnvel lengur. „Nei, þá segi ég frekar
upp,“ svaraði Valdimar keikur um hæl. „Þarna
var ég orðinn alveg svakalega ruglaður og
brúkaði bara munn.“
Sjónin fór líka versnandi; Valdimar var að
mestu hættur að geta lesið og farinn að keyra
mjög hægt. Þá var farið að leka mikið úr aug-
unum á honum; tær vökvi. Það varð til þess að
Valdimar fór í mælingu til vinar síns, Jóhann-
esar Ingimundarsonar, en hann er optíker. Jó-
hannes ráðlagði Valdimari strax að fara til
augnlæknis og pantaði raunar sjálfur fyrir
hann tíma hjá manni í sama húsi. Fékk hann
tíma þremur dögum síðar en oftar en ekki er
biðin eftir slíkri þjónustu nokkrar vikur.
Valdimar mætti til augnlæknisins sem í ljósi
aðstæðna var alls ekki sjálfgefið. Sá síð-
arnefndi sá þegar í stað að ekki var allt með
felldu; útbjó bréf með Valdimari og sendi hann
beinustu leið á bráðamóttökuna í Fossvogi.
Eftir að hafa verið skoðaður í bak og fyrir
var Valdimar sendur í höfuðskanna og þar
kom meinið í ljós – góðkynja æxli á stærð við
sítrónu, menignoma á fagmáli. Aron Björns-
son, heila- og taugaskurðlæknir, færði Valdi-
mari fréttirnar og hnýtti við að greiningin
kæmi svolítið á óvart, mein sem þetta væri al-
gengast hjá eldri konum.
„Tja, þið hafið ekki skoðað mig fyrir neðan
mitti!“ svaraði þá sjúklingurinn. Á þeirri
stundu stökk lækninum víst ekki bros.
Bæði sjokk og léttir
Valdimar fékk að fara af spítalanum daginn
eftir en sterameðferð hófst þegar í stað í því
augnamiði að draga úr bólgum og bjúg í kring-
um æxlið, svo það yrði betur skurðtækt.
„Það var bæði sjokk og léttir að fá grein-
ingu,“ segir Valdimar. „Sjokk vegna þess að
það er sláandi að vera með æxli á stærð við sí-
trónu í höfðinu og léttir vegna þess að búið var
að finna hvað amaði að mér.“
Læknar töldu að æxlið hefði vaxið í tíu til
fimmtán ár og smám saman farið að hafa áhrif
á persónuleika Valdimars og atgervi.
Hann kveðst á köflum hafa verið hátt uppi á
sterunum og átt til að bresta í söng af öllu og
engu tilefni á sjúkrabeðinum. Ekki síst þegar
kvenkyns læknir nokkur kom að vitja um
hann. „Doctor Doctor, gimme the news. I got a
bad case of lovin’ you,“ söng þá Valdimar að
hætti Roberts Palmers. „Hún tók þessu bara
vel – enda aðstæður þannig,“ rifjar hann upp.
Valdimar fór undir hnífinn 15. júní 2015, þar
sem æxlið var fjarlægt. Aðgerðin þótti heppn-
ast vel en læknirinn hafði á orði að hann hefði
aldrei lent í eins hörðu höfði. Fyrir vikið tók
aðgerðin aðeins lengri tíma en reiknað hafði
verið með.
Valdimar var á gjörgæslu í um sólarhring en
var þá fluttur á almenna deild, þvert á vilja
móður hans og fyrrverandi sambýliskonu. Að
þeirra dómi var hann ekki í nokkru standi til
þess. Þær voru þó fullvissaðar um að öllu væri
óhætt. „Fljótlega eftir að ég kom niður á al-
menna deild fór eitthvað að gerast; það var
eins og höfuðið á mér væri að springa. Ég var
því fluttur með hraði aftur upp á gjörgæslu; í
minningunni var ég þarna milli svefns og
vöku.“
Eftir það sá ég ekki neitt
Valdimar jafnaði sig fljótlega en var illa átt-
aður. Hann minnist þess að læknirinn hafi gert
svokallað „puttapróf“ á honum; haldið tveimur
fingrum á lofti og Valdimar stóðst það próf.
Hann minnist þess líka að hafa séð klukku á
veggnum án þess að muna nákvæmlega hve-
nær það var. „En eftir það sá ég ekki neitt.“
Valdimar kveðst hafa verið rólegur yfir
þessu til að byrja með enda að jafna sig eftir
stórt inngrip; sjónin hlyti að „kikka inn“ á
hverri stundu. „En sjónin lét ekki sjá sig. Dag-
arnir liðu án þess að neitt gerðist. Ég man ekki
hvað læknirinn sagði við mig á þessum tíma en
fljótlega gerði ég mér grein fyrir stöðunni – að
sjónin kæmi ekki aftur. Það var mér auðvitað
þungbært og allskonar hugsanir bærðust með
mér. Ég var lærður ljósmyndari með ung börn
og gat ekki orðið blindur. Mín fyrstu viðbrögð
voru að leggjast í þunglyndi, harma minn hlut,
en fljótlega tók ég ákvörðun um að fara hina
leiðina; takast á við þetta með húmornum og
jákvæðninni. Það hlyti að gefast betur.“
Valdimar hefur ekki fengið fullnægjandi
skýringu á því hvers vegna hann tapaði sjón-
inni en fyrir liggur að æxlið þrýsti á augnbotn-
ana. „Mér skilst að ekkert bendi til mistaka af
neinu tagi í aðgerðinni. Ég veit ekki hvað gerð-
ist og er löngu hættur að velta því fyrir mér.
Þetta er búið og gert og lífið heldur áfram.“
Þurfti að læra að ganga á ný
Þegar Valdimar hafði heilsu til var hann flutt-
ur yfir á Grensás í endurhæfingu en fékk bakt-
eríusýkingu þar og þurfti að leggjast aftur inn
á spítala. Sýkingin reyndist vera kringum heil-
ann og var Valdimar settur á tvennskonar
sýklalyf; stífan kúr beint í æð í átta vikur.
Hann fékk raunar ofnæmi fyrir öðru lyfinu og
skipta þurfti um. Í varúðarskyni var hann á
sýklalyfjum í samtals heilt ár.
Endurhæfingin á Grensási hófst þegar
Valdimar var orðinn nægilega góður af sýking-
unni. Hann kveðst hafa verið á algjörum núll-
punkti. „Ég var eins og sprungin blaðra eftir
aðgerðina; það var margra mánaða ferli að
koma líkamanum af stað aftur. Ég þurfti meira
að segja að læra að ganga upp á nýtt.“
Hann er óendanlega þakklátur fyrir hjálp-
ina sem hann fékk á Grensási og nefnir Grétar
Halldórsson, sjúkraþjálfara frá Selfossi, sér-
staklega í því sambandi. „Hann kom mér aftur
á fætur.“
Eftir um þrjá mánuði á Grensási var Valdi-
mar útskrifaður og flutti þá aftur inn til móður
sinnar. Þar dvaldist hann uns hann fékk íbúð í
Sjálfsbjargarhúsinu í Hátúni í janúar 2016.
„Til að byrja með var ég á annarri hæð í stúd-
íóíbúð en flutti hingað upp á þriðju hæðina í
stærri íbúð í janúar á þessu ári. Ungur maður
á uppleið,“ segir hann hlæjandi.
Ég sé fólkið ekki lengur
Fyrir lá að líf Valdimars yrði aldrei eins og áð-
ur og strax í endurhæfingunni fór hann að
velta fyrir sér hvaða stefnu hann gæti tekið.
„Frá því að ég var unglingur hafði mig langað
til að vera með uppistand. Steinar Krist-
jánsson vinur minn tók þátt í uppistands-
keppni meðan við vorum í Verzló og ég fann að
það var eitthvað sem ég gæti hugsað mér. Lét
þó aldrei slag standa; í fyrsta lagi þorði ég ekki
að standa fyrir framan allt þetta fólk og í ann-
an stað fannst mér ég ekki vera með nægilega
Maður sér ekki vel
nema með hjartanu
Valdimar Sverrisson ljósmyndari greindist með góðkynja heilaæxli árið 2015 og
tapaði sjóninni eftir að hann gekkst undir aðgerð, þar sem æxlið var fjarlægt. Í stað
þess að harma sinn hlut hefur Valdimar tekist á við sitt nýja líf með jákvæðni og ekki
síst húmor að vopni. Og er farinn að gera ýmislegt sem hann aldrei þorði áður, svo
sem að vera með uppistand og syngja opinberlega við prýðilegan orðstír. „Ég sé
ekki fólkið lengur og þarf fyrir vikið ekki að hafa áhyggjur,“ segir hann.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is