Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.12.2018, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.12.2018, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16.12. 2018 ÚTTEKT I ngólfur Sigurðsson knattspyrnumaður upplýsti á dögunum að hann hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna 25 ára að aldri. Ástæðan er sú að honum þykir fortíðin vinna gegn honum en árið 2014 steig Ingólfur fram og viðurkenndi opin- berlega, í viðtali við Sunnudagsblað Morgun- blaðsins, að hann hefði glímt við kvíðaröskun frá unglingsaldri. Hann kveðst í pistli á Twit- ter hafa lagt mikið á sig til að láta drauminn um að leika knattspyrnu í efstu deild á Íslandi rætast, innan vallar sem utan, og beðið um tækifæri til að sýna sig og sanna en alls staðar komið að luktum dyrum. Út frá þessu máli má velta fyrir sér hvort knattspyrnumenn sem glímt hafa eða glíma við kvíðaröskun, þunglyndi eða andleg veikindi af öðrum toga sitji almennt ekki við sama borð og aðrir leikmenn hér á landi. Fá þeir ekki sömu tækifæri til að láta ljós sitt skína á vell- inum? Orðsporið fylgir mönnum „Almennt séð er það þannig að orðsporið fylgir knattspyrnumönnum og íþróttamönnum yfir höfuð. Það á ekki síst við í litlu samfélagi eins og því sem við búum í,“ segir Viðar Hall- dórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Ís- lands en hann hefur mikið fengist við íþróttir í sínu fræðastarfi. „Þetta gildir auðvitað ekki bara um andleg veikindi, heldur ýmislegt ann- að líka, til dæmis ef leikmaður þykir vera lat- ur, rekast illa í hópi og svo framvegis. Það er einfaldlega erfiðara að fá tækifæri ef leik- maður hefur af einhverjum ástæðum fengið stimplun; er álitinn vera „vandræðagemsi“. Þetta á svo sem við í stærra samhengi; fólk sem glímir við andleg veikindi á almennt erf- iðara með að fá vinnu en aðrir. Veikindin virð- ast gera það óverðugra í augum vinnuveit- enda. Það er gömul saga og ný.“ Fyrir liggur að afreksíþróttamenn þurfa að búa yfir miklum andlegum styrk. Leiðin á toppinn er löng og fólk þarf að leggja gríð- arlega mikið á sig og oft og tíðum færa miklar fórnir. Í hópíþróttum bætist við að aðrir þurfa að stóla á mann. Þetta fær aukna vigt í knatt- spyrnunni enda eru flestir sammála um að það sé óvenjulega harður heimur. Samkeppnin er gríðarleg og dragist menn af einhverjum ástæðum aftur úr, til dæmis vegna veikinda eða meiðsla, eru fjölmargir aðrir reiðubúnir að taka sætið þeirra. Að sögn Viðars fylgir þessu mikið álag sem auðvelt er að kikna undan. Koma ekki út úr skápnum „Það er erfitt að fullyrða um það, ég hef ekki sett mig inn í mál Ingólfs sérstaklega,“ svarar Viðar spurður hvort það hafi unnið gegn Ing- ólfi Sigurðssyni að hann hafi tjáð sig op- inberlega um veikindi sín. „Það gæti þó alveg verið. Fyrir liggur til dæmis að samkyn- hneigðir knattspyrnumenn koma ekki út úr skápnum fyrr en ferillinn er búinn og sama máli gegnir um andleg veikindi; menn hafa forðast að ræða þau af ótta við að verða stimpl- aðir. Sumir líta á veikindi af þessu tagi sem veikleikamerki og hafi þau leitt til vandamála hjá fyrri félögum getur verið á brattann að sækja. Þarna komum við aftur að þessu með orðsporið – það fylgir mönnum, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Það getur verið erfitt að skilja fortíðina við sig. Sumir leik- menn eru ekki eftirsóttir vegna þess að þeir hafa einhverja sögu á bakinu og standa fyrir vikið ekki jafnfætis öðrum leikmönnum þegar kemur að því að sanna sig og vinna traust sam- herjanna og þjálfarans. Auðvelt er að tengja þetta við kenningar í félagsfræðinni um fólk sem verður fyrir smánun eða lendir í vanda- málum af einhverju tagi.“ Viðar segir Gróu gömlu á Leiti einnig spila þarna inn í; alltaf verði til fólk sem þrífist á kjaftasögum um náungann og hafi ekki fyrir því að sannreyna slíkar sögur. Ingólfur átti stóran þátt í að opna um- ræðuna um andleg veikindi í knattspyrnu hér á landi og í kjölfarið stigu fleiri leikmenn fram, sem rætt hafa um kvíða, þunglyndi og fleira. „Þetta fólk er brautryðjendur,“ segir Viðar, „og allir brautryðjendur fara á móti straumn- um og ýta við ríkjandi ástandi. Höggva í stoð- irnar. Oftar en ekki vinna þeir sigur að lokum en eins og með allt slíkt starf þá tekur það tíma. Það var gríðarlega mikilvægt að fá þetta fram, leggja spilin á borðið. Umræðan er hins vegar ennþá að slíta barnsskónum hér á landi og ekki komin nægilega langt enda þótt við stöndum betur að vígi en við gerðum fyrir fimm árum. Það er ennþá margt sem við eigum eftir að meðtaka og vinna úr. Það er kvíði og andleg vandamál í íþróttum eins og annars staðar í samfélaginu og löngu tímabært að tak- ast á við þá staðreynd.“ Biður ekki um vorkunn ,,Aldrei nokkurn tímann mun ég biðja um vor- kunn – en ég vona innilega að næsti leikmaður, sem fær það verðuga verkefni að vera ekki eins og allir hinir, fái tækifæri og lið sjái það sem heillandi áskorun að ná því besta fram í honum,“ segir Ingólfur í pistli sínum. Að dómi Viðars er ekki ósennilegt að þessi sýn verði að veruleika. „Þróunin á eftir að verða hröð á næstu árum. Það er klárt mál. Í fyrsta lagi vitum við nú að margir íþróttamenn glíma við kvíða og aðrar andlegar raskanir og í annan stað er fagmennskan í íþróttum alltaf að verða meiri, bæði hjá þjálfurum og hjá félög- unum sjálfum. Fyrir vikið er þekkingin smátt og smátt að aukast, það sjáum við bæði hér heima og erlendis. KSÍ hefur til dæmis verið að taka þessi mál meira inn í grunninn hjá sér en áður, auk þess sem félags- og hugvís- indaþekking er að koma í meiri mæli inn í íþróttirnar. Auðvitað vildum við að þetta gengi hraðar fyrir sig en breytingar taka yfirleitt tíma. Hvað varðar stráka eins og Ingólf, sem stigið hafa fram, þá getur litið út fyrir það núna að þeir séu píslarvottar en þegar fram líða stundir verður þeirra minnst sem braut- ryðjenda. Það voru þeir sem hrintu um- ræðunni af stað og breyttu viðhorfi íþróttanna til andlegra veikinda til lengri tíma.“ Ekki nýtt í sögunni Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, seg- ir andleg veikindi knattspyrnumanna og íþróttamanna al- mennt ekkert nýmæli í sög- unni, hins vegar hafi orðið ákveð- in vitundarvakn- ing á síðustu ár- um innan íþróttahreyfing- arinnar hér á landi. „Hjá KSÍ höfum við reynt að bregðast við þessari þróun, til dæmis með því að bæta umfjöllun um and- lega heilsu inn í fræðslustarf okkar; í dag er hún orðin hluti af þjálfaranámskeiðunum hjá okkur. Þjálfarar verða auðvitað ekki sérfræð- ingar í andlegri heilsu eftir eitt námskeið en vonandi eykur þetta skilning þeirra upp að einhverju marki og kveikir einhvern neista. Þetta er að sjálfsögðu ekkert sérverkefni knattspyrnuhreyfingarinnar heldur snertir það íþróttahreyfinguna í heild og ég veit að ÍSÍ hefur verið að velta þessum málum upp í mál- stofum hjá sér. Eins og við vitum þá er íþrótta- hreyfingin þverskurður af samfélaginu og því mikilvægt að um þessi mál sé fjallað á vett- vangi hennar.“ Klara tekur fram að hvorki KSÍ né íþrótta- hreyfingin í heild sé með lausnina en mik- ilvægt sé að halda samtalinu áfram, taka á hverju máli fyrir sig og leita úrræða fyrir við- komandi iðkanda. „Hvað gerist þegar iðkandi hefur verið greindur? Hvað á að gera og hvert á hann að snúa sér? Þessu er vitaskuld ekki auðvelt að svara enda engin tvö mál eins, geri ég ráð fyrir, og margir þættir geta fléttast þarna saman. Þetta er verðugt verkefni sem við munum halda áfram að vinna að.“ Spurð hvort umburðarlyndi gagnvart and- legum veikindum sé mögulega minna í knatt- spyrnu en öðrum greinum íþrótta svarar Klara því til að ekki sé hægt að útiloka það. „Þetta gæti verið meira feimnismál í knattspyrnunni en annars staðar en ég treysti mér þó ekki til að fullyrða um það,“ segir hún. Klara kveðst ekki hafa neinar forsendur til að tjá sig um það hvort andlega veikir knatt- spyrnumenn sitji ekki við sama borð og fullfrískir en bendir á að það sé varla tilviljun hversu fáir hafi tjáð sig opinber- lega um þessi mál gegnum tíðina. „Þetta hefur verið feimnismál, rétt eins og samkynhneigð í knattspyrnu, sér- staklega hjá körlunum. Kannski er það eitt- hvað að breytast núna?“ Þekkir ekki slík tilvik Þorgrímur Þráinsson rithöfundur hefur tengst íslenskri knattspyrnu órofa böndum um ára- tuga skeið, fyrst sem leikmaður í efstu deild og með landsliðinu og síðan sem starfsmaður karlalandsliðsins undanfarin tólf ár. Hann kveðst ekki þekkja persónulega til neins tilviks þar sem leikmaður hafi glímt við andleg veik- indi. „Sjálfur var ég oft stressaður fyrir leiki sem er alls ekki neikvætt, því það getur haldið spennustiginu réttu, og ég þekki nokkra leik- menn sem glímdu við stress. En það er bara partur af því að vera í afreksíþróttum. Ég man hins vegar ekki eftir nokkrum samherja, mót- herja eða leikmanni landsliðsins, eftir að ég kom til starfa þar, sem glímt hefur við kvíða, hvað þá að hann hafi verið greindur með kvíð- aröskun. Hafi menn átt í slíkum vanda hafa þeir haldið því fyrir sig og ég þekki heldur ekki neinn sem stigið hefur fram eftir að ferlinum lauk.“ Þorgrímur kveðst vera í góðu sambandi við flesta leikmenn landsliðsins en hann kannast ekki við að þeir glími við eitthvað af þessu tagi. Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði liðsins, segir frá því í nýútkominni ævisögu sinni að hann hafi leitað til sálfræðings og segir Þorgrímur hann mann að meiri. „Ég þekki nokkra leik- menn sem leitað hafa til sálfræðinga eða ann- arra fagmanna. Andlegi þátturinn skiptir gríð- arlegu máli í íþróttum og þess vegna er sjálfsagt hjá mönnum að leita sér hjálpar, Sjá sparkheimar ekki myrkrið? Umræða um andleg veikindi knattspyrnumanna og íþróttamanna almennt var lengi feimnismál en er komin á skrið hér í fásinninu eftir að nokkrir einstaklingar stigu fram og greindu opinberlega frá reynslu sinni. En hverju hefur sú umræða skilað? Sitja leikmenn sem glímt hafa við andleg veikindi við sama borð og fullfrískir félagar þeirra eða eiga þeir við ramman reip að draga? Hvað er til ráða og hver er afstaða knattspyrnuforystunnar í landinu? Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Viðar Halldórsson Þorgrímur Þráinsson Klara Bjartmarz

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.