Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.03.2019, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.03.2019, Blaðsíða 11
þurfti að þjálfa mig aftur til að anda en ég var alveg að fríka út. Það endaði með að þeir þurftu að setja mig aftur í öndunarvél en í það skipti var hún tengd gegnum gat á hálsi en ekki í gegnum munn. Ég gat þá talað í gegnum tæki. Þetta reyndi á þolinmæðina, sérstaklega þarna í lokin,“ segir hann. „Ég man sérstaklega vel eftir einum degi. Ég fór í myndatöku sem var mjög erfið fyrir mig og ég var svo þreyttur og átti erfitt með að anda. Ég brotnaði niður. Þá hugsaði ég bara, þetta er vonlaust, ég nenni þessu ekki. Ég var bara að gefast upp. Svo kom konan mín og ég sagði við hana; „ég vil þetta ekki lengur“. Hún fór til læknanna og sagði þeim frá þessum hugsunum mínum. Þeir sögðu þetta gott; ég væri farinn að anda og sýna tilfinningar, þetta væri alveg eins og þeir vildu hafa þetta. Þenn- an dag var sú ákvörðun tekin að flytja mig yfir á almenna deild; daginn sem ég var að brotna niður,“ segir hann og brosir út í annað. Þakklæti efst í huga Spurður út í andlegu hliðina eftir slysið svarar Arnar Már: „Svona breytir manni.“ Hann hugsar sig um og segir svo: „Það sem mér er efst í huga er þakklæti. Ég er mjög þakklátur einstaklingur í dag. Ég nýt lífsins og ég upplifi sterkar að vera til. Ég nýt alls betur, hvort sem það er fjölskyldan, vinir, vinnan eða áhugamálin. Maður tekur til hjá sér ósjálfrátt, forgangsraðar á annan hátt. Fyrir slysið var ég mjög mikið í mörgu en nú einbeiti ég mér að færri atriðum en það er meiri dýpt. Það er eins og lífið hafi sprungið í loft upp og þegar bit- arnir féllu niður, féllu þeir á nýja staði. Ég fyll- ist þakklæti á hverjum degi. Augnablikin verða kraftmeiri. Börnin, fjölskyldan, róman- tíkin og vinskapurinn er allt kraftmeira, og í raun allt sem ég tek mér fyrir hendur. Það er erfitt að lýsa því en það er allt skýrara,“ segir hann. „Vandamál og áhyggjur bíta mun minna á mig í dag. Mér finnst ég vera heilsteyptari ein- staklingur eftir þetta. Sumir segja að ég sé að- eins hægari en ég held að ég sé aðeins yfirveg- aðri,“ segir hann. Hugsarðu um slysið á hverjum degi? „Já, svona nánast. Það kemur þá í mig gleði- hnútur yfir því hvað það sé gaman að vera til. Og ekki bara að vera til heldur að geta gengið beinn. Þetta var rosalega mikið slys og heppni að vera á lífi. Ég er rosalega heppinn,“ segir Arnar Már en nefnir að hann hafi þurft að breyta ýmsu því hann geti ekki allt sem hann áður gat. „Ég get ekki klifrað lengur og get ekki unn- ið þar sem ég þarf að lyfta höndum upp fyrir höfuð. Þar af leiðandi get ég ekki synt og ég get ekki hlaupið að neinu ráði. En ég get hjól- að, þótt ég sé heftur. Rifjaboginn minn er þrengri en áður þannig að það eru færri lítrar af súrefni sem koma inn í lungum,“ segir hann og útskýrir að ekkert sé hægt að gera við því. „Þegar ég er að hjóla með strákunum er ég ágætur í keyrslunni og fínn í brekkunum en þegar kemur að alvöru átökum þá finn ég að mig vantar síðasta lítrann af lofti.“ Arnar Már fór að stunda hjólreiðar strax sumarið eftir slysið. „Ég er nokkuð sprækur hjólari,“ segir hann og heldur sér í góðu formi með hjólreiðum. Hann segist hjóla núna 150- 200 kílómetra á viku á þrekhjólinu heima og hlakkar mikið til vorsins svo hann komist út að hjóla. Góðar kveðjur næra viljann Samhugur fólks og batakveðjur áttu sinn þátt í að Arnar Már barðist eins og ljón á gjörgæsl- unni. Hann segir ótrúlegt hvað slíkt veiti mik- inn styrk. „Kona mín bjó til opinn Facebook- hóp þar sem hún lýsti framvindunni og bak- slögunum. Eins og þegar lungnabólgan kom og þetta leit illa út. Það voru fleiri hundruð manns sem fylgdust með og það rigndi inn kveðjum. Þegar ég lá í öndunarvélinni og gat ekki talað las Steinunn upp fyrir mig kveðj- urnar. Þetta gaf mér rosalegan kraft. Þetta nærir viljann. Að vita af öllu þessu fólki að hugsa til manns og senda orku. Þetta hjálpar til, það er ekki spurning,“ segir hann. „Ég man að þegar ég var kominn heim og á ról fórum við Steinunn eitt sinn í Kringluna. Ég gekk þar um væskilslegur og mjór og þá vatt ókunnug kona sér að mér og spurði: „Ert þú ekki Arnar Már?“ Ég játaði því og hún sagðist ekki þekkja mig en sagði mér frá því að hún tilheyrði bænahópi sem bað fyrir mér í mínu bataferli. Svo sagði hún hvað væri gaman að sjá mig og óskaði mér til hamingju með lífið. Alveg ótrúlegt. Svona lagað hjálpar til og gef- ur orku.“ Arnar Már segist vita að allt hjólasam- félagið fylgdist vel með honum í batanum. „Þetta var í miðri hjólasprengingu og það fylgdust allir með þessu. Þetta var kannski ekki fyrsta slysið en þetta var mjög sviplegt slys sem hafði áhrif á marga,“ segir Arnar Már og nefnir að bæði hjólreiðafólk sem og öku- menn hafi jafnvel farið að hugsa sinn gang. „Þetta er raunverulegt ástand sem myndast þegar svona margir einstaklingar fara á göt- urnar og hjólastíga. Það hafa allir rétt á að vera þarna og það þurfa allir að taka meira til- lit, hjólreiðafólk, gangandi vegfarendur og ökumenn. Fólk er óvant þessu og þetta tekur tíma, hjólreiðamenningin hér er enn ung. Er- lendis tekur fólk meira tillit,“ segir hann og leggur áherslu á orð sín. „Það er ekki nóg fyrir ökumenn að horfa eft- ir öðrum bílum, þeir þurfa líka að leita eftir hjólum.“ Ekki slakasti maðurinn Í júní 2016 tók Arnar Már aftur þátt í Wow- maraþoninu, aðeins um átta mánuðum eftir hina örlagaríku hjólreiðaferð. „Ég var ekki líklegur til afreka en ég tók þátt. Ég tók nokkra spretti. Strákarnir kröfð- ust þess að ég kæmi með og ég var nú ekki slakasti maðurinn í liðinu. Þetta sýndi hvað ég var fljótur á fætur,“ segir hann en viðurkennir að hann verði aldrei líkamlega eins og fyrir slys. Hann lætur það þó ekki stoppa sig og gerir allt sem hann getur og nýtur hverrar stundar. „Ég þarf að hugsa vel um skrokkinn og hjóla því mikið. Ég lifi eðlilegu lífi og höndla álagið í vinnunni en ég þreytist fyrr. Það hefur margt breyst en andlega hliðin hefur ekki breyst til hins verra.“ Arnar Már var sem betur fer með góðan hjálm sem varði höfuðið en hann fékk mikið höfuðhögg og stórsá á hjálminum. Arnar Már er farinn að stunda hjólreiðar aftur af fullu kappi þótt þrekið sé minna en áður. Morgunblaðið/Ásdís 17.3. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.