Náttúrufræðingurinn - 2019, Side 16
Náttúrufræðingurinn
16
því að lágmarka muninn á reiknaðri og
mældri landhæð við útmörk flóðbylgj-
unnar. Það þýðir að þar sem landhalli
er lítill getur töluverður munur á
korti svarað til lítils misræmis í hæð.
Þetta er tilfellið á ströndinni við Víti
og Ólafsgíga.
Hermun flóðbylgjunnar sýnir að
flókið mynstur bylgjuhreyfinga mynd-
ast á vatninu. Bylgjurnar kastast fram og
til baka af bökkum vatnsins og magnast
eða dvína vegna samliðunar. Þetta þýðir
að fyrsti bylgjufaldurinn, sem myndast
rétt eftir að skriðan gengur út í vatnið,
er ekki endilega sá hæsti sem gengur á
land. Þvert á móti ná endurköstin oft
lengst. Á 14. mynd sést vatnshæðin á
ströndinni við Víti sem fall af tíma og
á henni kemur glöggt fram að seinni
bylgjufaldarnir eru hærri en sá fyrsti.
Annar faldurinn í röðinni er hæstur.
Hæð stærstu bylgjufaldanna hleypur
frá 4 upp í 8 m og er ljóst að illa hefði
farið hefðu ferðamenn staðið nærri
ströndinni. Viðbragðstíminn hefði orðið
stuttur, því að það tekur fyrstu bylgjuna
um eina og hálfa mínútu frá því hlaupið
fellur að ná ströndinni við Víti.
Athyglisvert er að bylgjan skolast
mun hærra á land við Víti en skammt
þar fyrir vestan þar sem greinilegt var
á snjósköflum við vatnsbakkann að
bylgjan hafði ekki náð mjög hátt. Höfðu
starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs á
orði að þessi munur væri eitt af mörgu
sem vakið hefði athygli þeirra þegar
þeir komu að Öskjuvatni eftir berg-
hlaupið og skoðuðu ummerkin. Þarna
sýna mælingar 3–4 sinnum meiri hæð
efsta bylgjufalds við Víti en á nokkrum
stöðum vestan Vítis þar sem bylgjan
náði skemmst á land, sbr. 12. mynd.
Líkanreikningarnir sýna verulegan
mismun milli þessara staða og reiknast
flóðbylgjan um tvöfalt hærri við Víti
en þar sem hún er lægst vestan Vítis.
Munurinn er þó ekki jafnmikill og mæl-
ingarnar gefa til kynna.
Hið flókna bylgjumynstur á vatn-
inu er sýnt á kortum á 15. mynd þar
sem reiknuð hæð flóðbylgjunnar á
mismunandi tímum eftir að skriðan
gengur út í vatnið er teiknuð.
HÆTTUMAT
Til þess að athuga hvar ferða-
mönnum stafar mest hætta af flóð-
bylgjum á Öskjuvatni voru afmörkuð
fjögur hugsanleg upptakasvæði skriðu-
falla úr hlíðunum umhverfis vatnið
sunnan- og suðaustanvert. Bylgjur af
völdum hlaupa af mismunandi stærð
voru reiknaðar með líkani (sjá nánar í
skýrslu um hættumatið3). Vegna óvissu
um stærð mögulegra berghlaupa var
farin sú leið að reikna í hverju tilviki
fyrir þrjár mismunandi stærðir, hálft
rúmmál berghlaupsins í júlí 2014
(V/2), sama rúmmál (V) og tvöfalt
rúmmál (2V).
Samandregnar niðurstöður þessara
líkanreikninga eru sýndar á 16. mynd
þar sem hámarksútbreiðsla flóðbylgju
fyrir hverja stærð skriðu er afmörkuð
með mismunandi litum. Helmingi
minna berghlaup en það sem átti sér
stað í júlí 2014 virðist geta valdið tölu-
verðum usla við strandlínuna umhverfis
vatnið og sums staðar er hugsanlegt að
útbreiðsla flóðbylgjunnar yrði jafnmikil
og þeirrar sem gekk yfir vatnið 2014
(svæði með rauðum lit á myndinni).
Bylgjan gengur að lágmarki upp í um
10 m hæð yfir yfirborð vatnsins og við
Vítisströndina nær hún hátt í 20 m hæð.
Það tekur bylgjuna um eina og hálfa
mínútu að ná Vítisströndinni og eftir
það ganga margir bylgjutoppar af svip-
aðri hæð á land.
15. mynd. Flóðbylgja á Öskjuvatni 60, 90, 180
og 270 sekúndum eftir að berghlaupið kast-
ast út í vatnið samkvæmt GeoClaw-reikn-
ing um (litir sýna hæð vatnsborðs í metrum).
– Tsunami waves in Lake Öskjuvatn, 60, 90,
180 and 270 s after the rockslide entered the
lake according to GeoClaw simulations (the
colours indicate water level in metres).