Náttúrufræðingurinn - 2019, Qupperneq 39
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
39
inu. Þau eru um 4.700 km2 að flatarmáli
og dreifast nokkuð jafnt á milli rof-
einkunna. Hraunin hafa gríðarlega getu
til að binda sand og koma í veg fyrir að
hann berist lengra.
sANdöldur. Rétt er að geta hér um
það fyrirbrigði sem margir tengja einna
helst við eyðimerkursanda, sem eru
sandöldur (e. dunes). Þær eru fremur óal-
gengar hérlendis, en finnast þó til dæmis
á vesturhluta Hafnarsands við Þorláks-
höfn. Austan við eldgíginn Kvensöðul,
skammt austan við Dettifoss, eru einna
myndarlegustu sandöldur landsins.
SANDFLÆÐI – MAGN
Þeir sem hafa fest bíl í skafbyl furða
sig margir á því hve mikill snjór safnast
fljótt að bílnum. Það er margt líkt með
skafrenningi og sandfoki, sömu lögmál
gilda. Áhrif skafbyljarins eru þó smá-
vægileg í samanburði við að festast í
sandbyl. Hreyfiorka sandkorna er miklu
meiri en snjókorna. Málningin skrapast
af bílnum og gluggar verða ógagnsæir.
En hvað er mikið efni á ferðinni í sand-
byljum? Það er háð efnisgerð, framboði
efna, vindstyrk, rakastigi, yfirborðs-
hrjúfleika og fleiri þáttum.7
mæliAðferðir
Allmargar tilraunir hafa verið gerðar
til þess að mæla hve mikið sandfok er á
margvíslegum yfirborðsgerðum lands-
ins. Tvær meginaðferðir hafa verið
notaðar í þessu skyni. Annars vegar eru
svokallaðar Fryrear-gripgildrur,22 sem
einnig eru nefndar BSNE-gildrur (3.
mynd). Gildrunum er komið fyrir í mis-
munandi hæð, 3–5 gildrum á stöng. Mest
fýkur neðan 30 cm hæðar (skokkefni).
Það sem safnast í gildrurnar er síðan
notað til þess að reikna út fokið í heild,
þ.e. magn sem fýkur yfir 1 m breiða línu
(kg/m). Einnig hafa verið notaðir svo-
kallaðir fokstautar, sem á er festur nemi,
málmpjatla sem gefur frá sér rafpúls
þegar sandkorn lendir á henni. Þessir
púlsar eru magnaðir upp og sendir í
tölvu sem komið er fyrir á staðnum.
Stautarnir gefa ekki eins miklar upplýs-
ingar um heildarmagn fokefna og grip-
gildrurnar, en með því að koma fyrir
vindmælum og rakamæli á staðnum
fást miklar upplýsingar um þröskulds-
vindhraða og tengsl fokmagns við vind-
hraða, rakastig og aðra umhverfisþætti.
mAgN sANds sem berst
eftir yfirborði
Niðurstöður mælinga á sandfoki
sýndu mun meiri efnisflutning en rann-
sakendur höfðu gert ráð fyrir. Í 2. töflu
eru dæmi úr nokkrum rannsóknum
þar sem flæðið hefur verið mælt. Þær
gefa skýrt til kynna að þar sem sandur
er óstöðugur á yfirborði getur heildar-
flutningur efna numið nokkrum tonnum
yfir eins metra breiða línu á einu ári. Svo
mikill verður flutningurinn ekki nema
við aðstæður þar sem nýr sandur bætist
stöðugt við, annars minnkar fokið fljótt
með minnkandi framboði sandefna.
Víða er sandflæðið þó hundruð kg/m
á ári á dæmigerðum sandmelum og
sandhraunum, sem vitaskuld er einnig
mikið flæði.
Neðst í töflunni er getið um sandbyl
haustið eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010
og er hann meðal hinna öflugustu sem
mældir hafa verið á jörðinni.26,27 Bún-
aður var settur upp á Skógaheiði, sem
þakin var nýrri gjósku úr gosinu. Um
miðjan september gerði bálviðri og var
meðalvindhraði 22,5 m/s (í 2 m hæð) í
nokkra klukkutíma með hviðum upp
í 38,7 m/s. Þá mældist efnisflutningur
allt að 6.000 kg/m/klst í hviðum þegar
stormurinn var sem ákafastur, og skil-
uðu þær meginhluta efnisins (um 9.000
kg/m á um 6 tímum).
Fok eykst stigvaxandi með vindhraða
og því ráða nokkrir miklir stormar mun
meiru en margir meðalstormar. Þetta
sést vel á gögnum sem fengin eru með
mælingum með fokstautum og sýnd
eru á 4. mynd. Hér eru gögn frá tveimur
svæðum; frá Hólsfjöllum24 og sand-
bylnum mikla á Skógaheiði.26 Fyrst ber
að líta á þröskuldsvindhraðann sem sést
þegar kúrfurnar taka að lyftast. Hann
er um 9 m/s (2 m hæð) fyrir moldirnar
á Hólsfjöllum en heldur hærri (um 13)
fyrir gjóskuna í Skógaheiði. Kúrfurnar
stíga mjög ört með vaxandi vindhraða.
Kvarðinn fyrir gröfin er nokkuð mis-
munandi, því Skógastormurinn er
öflugur, en ekki náðust mjög hvassir
stormar við mælingar á moldunum á
Hólsfjöllum. Neðri gröfin sýna tvenns
3. mynd. Tækjabúnaður til fokmælinga á
moldum á Hólsfjöllum. Þrír fokstautar eru fest-
ir á lárétta slá fyrir miðri mynd. Til vinstri eru
fimm Fryrear-gripgildrur í mismunandi hæð.
Vindhraði er mældur í þremur hæðum og upp-
lýsingunum safnað í tölvu í hvíta kassanum.
Þessi rannsóknastaður á Hólsfjöllum er mjög
afskekktur og voru gögn reglulega send með
símabúnaði. Hér er verið að safna gögnum til
að meta uppfoks- og áfokshættu við Hálslón
vegna Kárahnúkavirkjunar árið 2000. – Equip-
ment for measuring wind erosion. Three Sensit
instruments are near the surface which count
moving grains that hit them. Wind speed, wind
direction, temperature and relative humidity
are measured simultaneously, the data stored
in a data logger and the data sent from this
remote location via telephone. Five Fryrear
(BSNE) traps mounted on a pole to the left.
Ljósm./Photo: Ólafur Arnalds.