Húnavaka - 01.01.2019, Qupperneq 39
H Ú N A V A K A 37
Að vestanverðu þurfti hins vegar að byggja upp öflugan brúarstólpa. Þverþil
snýr að læknum og tveir vængir skáhallt til hliðanna, aftur frá þverþilinu, til að
halda að jarðvegi sem síðar var rutt að brúnni og hún þannig tengd við veginn.
Teikningar frá Vegagerðinni eru undirritaðar: Ólafur Pálsson og Árni Pálsson
og segir þar að hafið sé 5 metrar en breiddin 4,2 metrar.
Heiðar á Hæli lýsir gerð grunnsins undir brúarstólpann: „Þar var grasbali
það breiður að ekki þurfti að opna fram í lækjarfarveginn þegar grafið var fyrir
stöplinum. Þar var jarðvegur sem hægt var að stinga upp að mestu leyti. Lögð
var áhersla á að komast niður á fast og tókst það eftir 80-100 cm gröft.
Stórgrýti var sett neðst í þessa gröf, síðan þurr steypa í strigapokum. Eitthvað
þurfti að ausa vatni úr gröfinni meðan verkið var unnið.“ Grjótið til að púkka
undir stólpann var sótt í Hvammsskriður í Vatnsdal. Hilmar Snorrason
bifreiðastjóri á Blönduósi flutti grjótið og er Heiðari minnistætt hve léttilega
hann þeytti steinunum í gryfjuna. Óskar minnist þess ekki að lækurinn hafi
verið til trafala við brúarsmíðina enda er hann ekki ýkja vatnsmikill að
sumarlagi, þótt hann geti orðið stórfljót í vatnavöxtum og segir síðar af því.
Fólk af Miðásabæjunum vann við brúarsmíðina, mismikið þó, en þegar
steypt var komu nær allir sem vettlingi gátu valdið. Þeir sem að smíðinni unnu
voru þessir: Sigurfinnur Jakobsson á Hurðarbaki og börn hans, Óskar sem
raunar var þá þegar heimilisfastur í Meðalheimi, Björn, f. 1933, Jakob, f. 1935,
og Sigurlaug, f. 1929. Helgi Sveinbjörnsson í Meðalheimi, Kristján Benediktsson
á Hæli, Elísabet (Lilla) dóttir hans, f. 1931 og Heiðar Kristjánsson. Verkstjóri
var ráðinn Torfi Jónsson á Torfalæk. Yfirumsjón með verkinu hafði Steingrímur
Davíðsson skólastjóri á Blönduósi sem jafnframt var vegaverkstjóri sýslunnar
um langt árabil. Torfi var ekki byggingarlærður maður en hafði byggt mikið úr
steypu á Torfalæk og unnið við byggingar á Blönduósi og væntanlega þess
vegna fenginn til verksins.
Unnið var í nokkrum lotum, fyrst voru brúarstöplarnir steyptir. Þann 13.
september fór Torfi upp að brú, skv. dagbókum hans, og var við smíðina alla
virka daga til 23. september. Þá var hlé á verkinu vegna gangna og réttastúss
en síðan hafist handa í lok september (29.) og verið að til 9. október. Þá var
slegið upp fyrir brúnni sjálfri og brúargólf og handrið steypt. Næst eru tilteknir
í dagbókum Torfa dagarnir 15. og 16. október og loks 3. nóvember sem virðist
síðasti vinnudagurinn og hefur þá verið unnið við frágang og að tengja brúna
við veginn sjálfan. Torfi hafði fæði á Hæli þá daga sem hann vann að
brúarsmíðinni en fór heim á kvöldin. Heiðar á Hæli minnir að hann hafi
yfirleitt komið á dráttarvél en aðrir hafa líklega komið gangandi.
Um vinnutímann dag hvern minnir Óskar að byrjað hafi verið um tíuleytið
því menn þurftu að ljúka mjöltum og ýmsum morgunverkum áður en
brúarvinnan hófst. Hins vegar hafi oft verið unnið alllangt fram eftir degi.
Þegar steypt var hafa vinnuloturnar verið enn lengri en endranær.
Þegar stöpullinn á vesturbakkanum var risinn var slegið upp fyrir dekki
brúarinnar. Voru stólpar settir undir bjálka sem þiljað var á fyrir brúargólfið
og alltraustlega um það búið. Tveir sverir burðarbitar, vel járnum bundnir,
liggja langsum undir brúnni milli brúarstólpans að sunnan og klettsins að