Húnavaka - 01.01.2019, Side 40
H Ú N A V A K A 38
norðan og halda gólfinu uppi.
Eru þeir um 35-40 cm á
þykkt. Var brúargólfið og
burðarbitarnir steypt í einu
lagi en síðar var slegið upp
fyrir handriðunum og þau
steypt sérstaklega. Mölin var
tekin úr malarnámunni hjá
Skinnastöðum.
Þegar kom að því að steypa
var notuð sérstök hræritunna
úr tré og skal nú vikið um sinn
að tækni við að hræra steypu.
Þegar Íslendingar hófu að
nota steypu til bygginga um
og upp úr aldamótunum 1900 var hún handhrærð á palli og var það erfitt
verk, sérstaklega áður en farið var að nota léttblendi sem gerir steypu þjálli í
meðförum. Mikill erfiðisléttir var þegar vélknúnar hrærivélar komu til
sögunnar, sem mun hafa verið árið 1914 hér á landi, og breiddust þær nokkuð
hratt út um þéttbýlisstaðina en bændur og íbúar í strjálbýlinu höfðu sjaldnast
efni á svo dýrum tækjum.
Í ritgerð Guðmundar Hannessonar um Húsagerð á Íslandi frá 1943 segir
að bændur hafi smíðað einfaldan búnað til að hræra steypu: „Þeir notuðu
eikartunnur, sem snerust um möndul, er festur var á botnana eða gekk í
gegnum tunnuna, og var þeim fyrst snúið með handafli, en síðar með hestafli,
og voru þá 2 kaðlar festir á tunnuna, sem vöfðust á víxl á hana eða af henni,
er hesturinn tók í. Þá gerðu Þingeyingar hræritunnur, sem troða mátti með
fótunum. Þeir Giljárbræður, Sigurður og Jóhannes Erlendssynir, munu hafa
fundið þessa aðferð upp, er þeir byggðu steypuhús á Beinakeldu í Húnavatns-
sýslu 1914. ... Þeim kom þá til hugar að blanda í tunnu og láta vatnsmyllu snúa
henni; höfðu áður látið hana mala sauðatað. Þeir settu kerruöxul gegnum
tunnuna og hrærðu með vatnsafli, en hurfu frá því, vegna þess, hve langt var
milli hússins og myllunnar, fluttu tunnuna að húsinu og hrærðu síðan með
handafli. Hræritunnur munu vera sjálfstæð, íslenzk uppfynding.“ Guðmundur
Hannesson var Húnvetningur, sem kunnugt er, og hefur m.a. þess vegna þekkt
vel til Giljárbræðra.
Hræritunnan, sem notuð var við brúarsteypuna, hékk í tveimur sverum
stoðum og voru þær tengdar saman að ofan með þverslá. Í stoðunum voru
gróp sem öxullinn, sem gekk í gegnum tunnuna, féll í og voru málmþynnur
felldar í grópið svo tréð jagaðist ekki niður. Skástífur voru til beggja átta til að
skorða útbúnaðinn og voru sérstaklega öflugar þeim megin sem togað var í
tunnuna. Undir tunnunni var pallur með lágum skjólborðum. Þeim megin
sem var togað var upphækkað þrep eða lítill pallur sem hægt var að standa á.
Möl og sementi var mokað í fötur og síðan var staðið á þessu þrepi, þegar hellt
Hræritunna úr járni á Vigur 1958.