Húnavaka - 01.01.2019, Blaðsíða 46
H Ú N A V A K A 44
ANNA HINRIKSDÓTTIR, Reykjavík:
Ástin á tímum ömmu og afa
Árið 2000, árið sem amma mín, Anna Sigurjónsdóttir frá Blöndudalshólum, hefði orðið
hundrað ára, komu afkomendur hennar saman í Blöndudalshólum og tóku til hendinni í
skógarreitnum sem hún græddi upp þar. Við Bjarni bróðir minn útbjuggum lítinn bækling í
hennar minningu og af því tilefni dró hann fram bréfasafn sem amma hafði afhent honum
nokkrum árum áður en hún dó og beðið hann að fara með eins og hann teldi best. Þar voru
komin bréf sem afi, Bjarni Jónasson, skrifaði ömmu þegar hann var að biðla til hennar og
á fyrstu hjúskaparárunum. Bréfin eru full af einlægni, ást og þrá, skrifuð af ástríðufullum,
stílfærum ungum manni sem beitir töfrum tungumálsins til að fá ástina sína á sitt band.
Lestur bréfanna hafði mikil áhrif á mig. Ekki aðeins stíllinn, orðfærið, samfélagslýsingarnar
og tilfinningarnar að baki heldur sú mynd sem þau gefa af ömmu minni og afa.
Ég þekkti afa minn og ömmu af góðu einu en ég kynntist þeim aðeins á síðustu áratugum
langs æviskeiðs og hafði aldrei hugsað til þeirra sem ungs fólks logandi af heitum ástríðum.
Ég man hvað þau voru ótrúlega létt á fæti og snör í snúningum þó svo gigtin væri þeim
báðum til ama. Ég man líka að þau voru alltaf að, amma að sýsla við plöntur eða hann-
yrðir, afi að grúska í bókum og blöðum eða hamra á ritvélina sína.
Ég átti ljósmyndir af þeim ungum en þetta unga fólk var svo fjarri mér að ég skynjaði
myndirnar kannski frekar sem fremur ópersónulegar táknmyndir „gamla tímans“, tíma
brúnleitra harðspjaldaljósmynda, fornfálegra búskaparhátta og harðræðis.
Hin tilfinningaþrungnu skrif afa míns færði unga, fallega fólkið á myndunum
skyndilega nær mér. Einlæg og persónuleg tjáning gæddi brúnu harðspjaldamyndirnar lífi og
fyllti mig löngun til að kynnast því betur.
Anna Hinriksdóttir er fædd í Reykjavík, 9. júní 1965. Hún
er dótturdóttir Önnu Margrétar Sigurjónsdóttur og Bjarna
Jónassonar frá Blöndudalshólum í Blöndudal, dóttir
Kolfinnu (f. 30.05. 1937, d. 18. 07. 2016). Anna nam
kvikmynda- og fjölmiðlafræði í Stirlingháskóla í Skotlandi,
margmiðlun við Margmiðlunarskóla Íslands og lauk síðar
meistaranámi í hagnýtri fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands.
Lokaverkefni hennar þar var bókin Ástin á tímum ömmu
og afa sem gefin var út af Háskólaútgáf unni í ritröðinni
Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Bók in byggði á
sendibréfum sem Bjarni skrifaði Önnu á þriðja áratug
síðustu aldar og dagbókum hans frá 1909 til 1926.
Anna hefur unnið við miðlun af ýmsum toga; ritstörf, þýðingar, dagskrárgerð í
sjónvarpi og útvarpi, vefmiðlun og hönnun sögusýninga. Hún gegnir nú stöðu
yfirþýðanda RÚV.