Húnavaka - 01.01.2019, Page 49
H Ú N A V A K A 47
rómantískum innblæstri þegar sólin skein svo glitraði á döggina í nýslegnu
grasi; sveitin sem hann trúði að með samstilltu átaki og bættum búskaparháttum
myndi færa þjóðinni aukna hagsæld; sveitin sem þreytti hann þegar náttúran
sýndi sitt versta, breytti búskap í barning, frelsi í fjötra og þrengdi að hug og
hjarta.
En vistin á Blönduósi hugnaðist afa ekki allskostar, honum fannst samfélagið
andlaust og kjör barnakennarans bágborin. Því greip hann tækifærið þegar
losnaði staða farkennara í Svínavatnshreppi og sneri aftur í heimahagana þar
sem hann fann fyrir meiri stórhug og metnaði til framsóknar og uppbyggingar
samfélagsins.
ÚR DAGBÓK, 12. FEBRÚAR 1912:
Skelfing er annars leiðinlegt hér á Blönduósi. – Fólkið sjálft er verst. Félagslíf hér alt í
molum; fæst þeirra gera annað en að fæðast og deyja. Hvers vegna? Hér vantar hugsandi
menn. Félagsskapur, sem er tómt „fjöll“ getur ekki átt neina framtíð. – Mér hálf leiðist.
Og hefði eg ekki svona mikið að starfa, þá veit eg ekki hvað yrði úr mér. – Ó!, hvað það er
þreytandi að eiga engan vin, vin sem maður getur trúað fyrir sínum heitustu og helgustu
hugsunum. Hér langar mig ekki til að gera neinn að vin, en bréfin eru ófullkominn túlkur
til vinanna fáu.
ÚR DAGBÓK, 25. DESEMBER 1912:
Messað á Svínavatni. – Eg fór til kirkju og var hálf dauður úr kulda í kirkjunni, og hefir
verið líkt ástatt fyrir fleirum. Organistinn skalf t.d. svo að hann átti fult í fangi með að
halda fingrunum við nóturnar. Slæmt að kirkjur skuli vera ofnlausar. Það getur verið
stórkostlega heilsuspillandi fyrir menn, er koma heitir af gangi að hlýða á messu í mjög
köldu húsi. –
Ég les úr skrifum afa míns að hann
hafi verið hrifnæmur og fremur við-
kvæmur maður sem hreifst af hug-
myndum um fagrar dyggðir, kærleika
og eflingu mannsandans. Hann þráir
uppbyggilegt samneyti við jafningja og
vini og þegar samferðafólkið uppfyllir
illa kröfur hans leitar hann í heims-
bókmenntirnar þar sem hann les
meðal annars um tilgang lífsins, leit
mannsins að hamingjunni – og um
ástina. Einmanaleiki og drungi togast á
við ástarþrá og leit að innri birtu og yl
– rómantíkin líður um fjöll og dali en
kennarinn ungi óttast á stundum að
hans bíði það hlutskipti að búa einn
með bókum sínum (og búfénaði).Bjarni Jónasson.