Húnavaka - 01.01.2019, Side 52
H Ú N A V A K A 50
Jeg hefi svo ósegjanlega oft fundið tómleikann í lífi mínu. Þó starf mitt sem kennari hafi
fært mjer óspiltan unað og glætt bestu kendir sálar minnar: fórnfýsina og al-kærleikann, þá
hefi jeg þó fundið þrána eftir öðru meiru, eftir veru, sem jeg gæti gefið alt, ást mína – líf
mitt. Þó kennarastarfið sje að mínu áliti, háleitt og dýrlegt, þá hefir mjer fundist, að jeg ekki
hafa nóg til að lifa fyrir. Mig hefir vantað vininn, sem tæki þátt í sorgum mínum og gleði,
vonum mínum og þrám. ...
Anna! Viltu verða konan mín? Heldurðu að þú getir elskað mig? Jeg bið ekki einungis um
hönd þína, jeg bið um hjarta þitt. Eigi jeg ekki enn hug þinn, vonast jeg eftir að geta unnið
hann, því ástinni er ekkert ómáttugt.
Jeg býð þjer ekki „gull og græna skóga“. Jeg er ekkert mikilmenni, og jeg er heldur enginn
auðmaður, en jeg hefi einlægan vilja að verða að einhverju gagni í lífinu, í kyrðinni meðal
alþýðunnar, og mjer finst, að ef þú stæðir við hlið mjer, þá myndi mjer geta orðið miklu
meira ágengt, og jeg vona að jeg geti gert þig hamingjusama. ...
Víst þekkjumst við fremur lítið. Við höfum eiginlega ekkert ræðst við um alvarleg efni. En
jeg hefi tekið vel eftir þjer. Jeg hefi athugað svip þinn margsinnis, og jeg hefi horft í augu
þjer. Jeg er ánægður með það, sem jeg hefi sjeð. Jeg veit að þú ert góð stúlka. Mjer finst jeg
finna hjá þjer það sem jeg þrái, og því elska jeg þig. ...
Á sunnudaginn kemur fer jeg hjeðan. Ó! Ef þú værir þá orðin heitmey mín. –
Þinn Bjarni Jónasson. –
ÚR BRÉFI, 8. FEBRÚAR 1920:
Ástfanginn maður missir ekki vonina strax. Jeg ætla mjer að reyna að vinna ást þína. Þar
sem enginn á enn hug þinn, finst mjer jeg geta haft von eins og hver annar.
Jeg ætla ekki að fara að endurtaka ástarjátningu mína nú. Jeg verð að tala við þig. Jeg verð
að fá að heyra svarið af þínum eigin vörum! Ó!, hvað mjer sárnaði að svarið skyldi einungis
vera skilaboð, þó það væri með föður þínum. En jeg veit að þú hefir ekki ætlað að særa mig.
...
Bréf Bjarna til Önnu.