Húnavaka - 01.01.2019, Blaðsíða 81
H Ú N A V A K A 79
Liverpool,9 en þegar hann skrifar Konrad Maurer frá Edinborg tæpum
mánuði síðar virðist tvísýnt um árangurinn. Minnisleysið er þó heldur á
undanhaldi en biskupsskrifari er „ærður af vagnaskrölti og reykjarmóður af
steinkolasvælu“ í hinni skosku höfuðborg. Hann er engu að síður vongóður um
að förin verði að gagni „ef höfuð mitt batnar við ferðina og hringlandinn
hristist úr því, sem í því hefur verið síðan í fyrra“ ritar hann hinum þýska
hollvini sínum.10
Það er um þessar mundir sem Jón Árnason þiggur heimboð vinar síns,
Lindsay læknis, og heldur til bæjarins Perth á bökkum Tay-fljóts þar sem
Lindsay býr og starfar. Þar hlýtur hann hollráð og leiðbeiningar sem hann
fylgir dyggilega síðan og temur sér upp frá þessu lífshætti sem einkenna hann
og verða samferðafólki minnisstæðir.
Læknisráð Lindsays
Meðal ferðalanganna sem komu til Reykjavíkur með Arcturusi um miðjan júní
1860 voru James Lindsay, málafærslumaður í Edinborg, og sonur hans William
Lauder Lindsay, læknir við Murray Royal Asylum geðsjúkrahúsið í Perth.11
Þrátt fyrir að Lindsay læknir væri aðeins á 31. aldursári hafði hann þegar getið
sér góðan orðstír sem læknir og aflað sér doktorsnafnbótar í þeirri grein við
Edinborgarháskóla. Lindsay var einnig fullur áhuga á grasafræði, einkum lét
hann sér títt um mosa og skófir, og það var ekki síst forvitni um gróðurríki
Íslands sem hafði att hinum unga lækni í Íslandsförina.
Lindsay læknir dvaldi átta daga í Reykjavík sumarið 1860, sótti Stifts-
bókasafnið heim og lá í ritum um gróðurríki Íslands sem þar voru tiltæk og Jón
Árnason bókavörður léði honum. Þegar læknirinn var ekki með nefið ofan í
grasafræðiritum Stiftsbókasafnsins kannaði hann gróðurfar í nágrenni bæjarins,
rannsakaði þvottalaugarnar í Laugardal, dáðist að þvottakonunum, rak lúk-
una niður í sjóðheitt hveravatnið og brenndi sig á fingri.12
Enda þótt grasafræðin væri lækninum hugleikin og hann hlyti ýmsan sóma
fyrir störf sín á því sviði var hann vitaskuld fyrst og fremst læknir og þegar
vinur hans, Jón Árnason, heims ótti hann haustið 1863, og glímdi enn við
eftirköst illvígra veikinda, lét hann ekki á sér standa að veita honum holl ráð
gegn heilsubrestinum. Nokkrum árum eftir heimsókn Jóns til Perth birti
Lindsay grein um helstu orsakir geð sjúkdóma í heimskautalöndum13 sem að
hluta til var byggð á eigin athugunum hans á Íslandi og í Noregi og fjallar
miklu fremur um orsakir lasleika, depurðar og vansældar sem stafað geta af
9 Þjóðólfur, XV. árg. 41.–42. tbl. (1863), bls. 165.
10 Úr fórum Jóns Árnasonar II, bls. 34.
11 Íslendingur, I. árg. 6. tbl. (1860), bls. 48.
12 Lindsay; Lauder W.: „The Flora of Iceland.“ Edinburgh New Philosophical Journal XIV,
júlí–október (1861), bls. 65, 85.
13 Lindsay, Lauder W.: „The Causes of Insanity in Arctic Countries.“ The British and
Foreign Medio-Chirurgical Review XXXXV. árg. 89. tbl. (1870), bls. 211–229.