Húnavaka - 01.01.2019, Síða 87
H Ú N A V A K A 85
einhverskonar óskiljanlegum töfrakrapti“ og lætur í veðri vaka að sitthvað hafi
vantað upp á ráðdeildarsemina hjá Bitter. Úr ræðustól þingsins rifjar Grímur
upp hina raunalegu handvömm sem blasti við bæjarbúum þegar
umsjónarmaðurinn lét bika suðurgafl hins Lærða skóla og mála síðan yfir með
þeim árangri að „farfinn flagnaði allur frá“.31 Það er ekki að sökum að spyrja.
Tillaga fjárlaganefndarinnar um að leggja starf Jóns Árnasonar niður er
samþykkt.
Ekkert stoðar þótt 20 fyrrum skólapiltar sem komnir eru til náms í
Kaupmannahöfn skrifi bréf honum til stuðnings og fái það birt í Þjóðólfi. Í
þeim hópi eru auðvitað dálætisdrengir Jóns og systursynir Katrínar, Þorvaldur
og Skúli Thoroddsen.32
Theodora Friðrika Guðmundsdóttir, frænka Katrínar, sem síðar verður
Thoroddsen er hún gengur að eiga Skúla sem hún hittir fyrst yfir baunadiski
á heimili bókavarðarhjónanna,33 kemur vestan úr Dölum haustið 1879 til að
nema við Kvennaskólann. Hún er 16 ára og dvelur tíðum hjá Jóni og
Katrínu sem eru flutt úr skólanum og búa með Þorvaldi sínum í þröngri
íbúð við Hafnarstræti. Jón Árnason er alveg óbugaður. Honum hafði auð-
vitað verið raun að aðförinni sem að honum var gerð þegar umsjónar-
mannsstarfið var lagt niður en staðan var ávallt illa launuð og sá ókostur
fylgdi starfinu að inspector þurfti að vaka fram um kl. 11 á hverju kvöldi og
raga í piltum. Það hafði aldrei hentað hinum kvöldsvæfa og árrisula Jóni
Árnasyni.34
Jón og Katrín láta reisa sér lítið steinhlaðið hús við Laufásveg og fjölskyldan
flytur þangað árið 1880. Alþingishúsið er í byggingu þessi árin og stendur
fullgert árið 1881. Það er einnig safnahús og þangað á fyrstu hæðina fer
Stiftsbókasafnið sem upp frá þessu heitir Landsbókasafn. Jón Árnason
bókavörður fylgir með og upplifir hin miklu og góðu umskipti sem verða á
húsakosti þess vinnustaðar sem lengst nýtur starfskrafta hans og laun hans fyrir
bókavarðarstarfið hækka talsvert.35
Þegar skólastelpan Theodora fer að hafa samgang með þeim Jóni, Katrínu
og Þorvaldi er karlinn sjálfum sér líkur, glaðlyndur, spaugsamur og orðheppinn
og bara skemmtilegur, þykir henni, þótt hann eigi það dálítið til að staglast á
sömu bröndurunum. Hann er enn á höttunum eftir þjóðsögum, þulum og
gátum og uppveðrast ef hann heyrir eitthvað nýtt af því tagi. Það er gestkvæmt
á heimili þeirra hjóna en síður vill bókavörðurinn sitja með gestum síðla
kvölds. Það hentar honum best að fara snemma í háttinn, þá nostrar hann við
að búa vel um rúmið sitt og svefnstyggur er hann ekki. Það kemur sér vel því
tónlist er töluvert iðkuð á heimilinu. Guð rún Knudsen, uppeldisdóttir
31 Alþingistíðindi 1877 I. Reykjavík 1877–1878, bls. 53, 139, 144–150.
32 Þjóðólfur, XXXI. árg., 27. tbl. (1879), bls. 108.
33 Sigurður Nordal: „Theodora Thoroddsen“. Í Theodora Thoroddsen: Ritsafn. Reykja
vík 1960, bls. 9–10.
34 Úr fórum Jóns Árnasonar II, bls. 244.
35 Árbók Landsbókasafn Íslands I.
árg. (1945), bls. 60–61.