Húnavaka - 01.01.2019, Page 164
H Ú N A V A K A 162
Mannalát árið 2018
Ingibjörg Björgvinsdóttir,
Skagaströnd
Fædd 21. júlí 1946 – Dáin 14. febrúar 2018
Ingibjörg Björgvinsdóttir, Inga eins og hún var kölluð, fæddist í Borgarnesi.
Foreldrar hennar voru Björgvin Jörgensson (1915-1999), fæddur í Merkigerði
á Akranesi og Bryndís Böðvarsdóttir (1923-1964), fædd á Hrafnseyri við
Arnarfjörð. Systkini Ingibjargar eru þau Böðvar, f. 1947 og Margrét, f. 1949.
Inga ólst upp á Akureyri og tók hlutverk sitt sem stóra systir alvarlega. Á
árunum 1959-1960 dvaldi fjölskyldan í Noregi á biblíuskólanum Fjellhaug í
Osló, þangað höfðu foreldrarnir farið til náms.
Inga vann í biblíuskólanum og síðar á sjúkrahúsinu Diakonhjemmet í Osló.
Þar eignaðist hún góða vini, suma hverja sem hún
hélt ævilöngu sambandi við, líkt og við margar
bernskuvinkonur sínar. Hún var trygglynd og
ættrækin. Hún var 18 ára þegar móðir hennar lést
og tók hún þá við heimilinu. Hún fylgdi föður
sínum á Hólavatn í sumarbúðir KFUM/K sem
vígðar voru 1965 en faðir hennar hafði áður
stofnað KFUM á Akureyri. Þar sinnti hún ráðs-
konuhlutverki með sóma og sýndi ungviðinu
móðurlega umhyggju.
Inga starfaði á Hótel KEA eftir Noregsdvölina
og þar felldu þau hugi saman, hún og starfsfélagi
hennar, Steindór Rúniberg Haraldsson, f. 1949,
frá Skagaströnd. Þau gengu í heilagt hjónaband
26. desember 1970. Hjónabandið var byggt á föstum rótum. Inga og Steindór
voru alla tíð náin og miklir vinir, sérstaklega barngóð og umhugað um aðra.
Þau hófu búskap á höfuðborgarsvæðinu og Inga vann í fatahreinsuninni
Úðafossi. Þau eignuðust tvær dætur; Bryndísi Halldóru (1972-1990) og
Aðalheiði Mörtu, f. 1974. Maki hennar er Stefán Halldórsson og eiga þau tvö
börn.