Húnavaka - 01.01.2019, Page 178
H Ú N A V A K A 176
son, járnsmiður frá Þverá í Norðurárdal (1918-1952). Systir Braga er Rakel
Kristín, f. 1951. Hálfsystkini Braga eru Kári Karlsson, f. 1955, Guðfinna
Aðalheiður Karlsdóttir, f. 1958 og Bryndís Karlsdóttir, f. 1962.
Eftir andlát Kára, föður Braga, flutti Sólveig með börnin að Þverá til
foreldra hans, þeirra Rakelar Þorleifar Bessadóttur (1880-1967) og Guðlaugs
Sveinssonar (1891-1977). Bragi ólst upp á Þverá og bjó þar alla tíð ásamt
föðurbróður sínum, Þorláki Húnfjörð (Lalla). Hann útskrifaðist sem bú-
fræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri (1966-1968). Hann eignaðist
dótturina Þórunni Helgu Kristjánsdóttur, f. 1977, með Sigríði Báru Her-
mannsdóttur og eru barnabörnin tvö.
Íþróttir voru áhugamál Braga og hann stundaði frjálsar á sínum yngri
árum. Hann var fimur og stæltur og þindarlaus að hlaupa upp um fjöll. Hann
þekkti öll kennileiti, örnefni í fjöllunum og staðhætti, eins og fingurna á sér.
Hann var ratvís, fróður um land sitt og náttúruna og næmur fyrir umhverfinu.
Sem ungur maður byrjaði Bragi með Einari föðurbróður sínum í
grenjavinnslu. Þótt hann væri hugfanginn af allri
veiði veiddi hann sér og sínum eingöngu til matar
eða þá til að halda í skefjum rándýrum sem
herjuðu á búfé og varpfugl.
Hann var handlaginn með afbrigðum hvort
sem var á tré, járn eða vélar og útsjónarsamur,
græjukarl, sem pældi í því hvernig hann gæti létt
undir verkin. Fyrir kom, ef ekki fengust varahlutir
í vélarnar, að þá smíðaði Bragi hlutina sjálfur.
Hann heimsótti bændur og snillinga víða um
land, þá oftast í þeim erindagjörðum að kynna sér
handbragð og eitthvað nýtt í tengslum við veiði
og vélar.
Bragi vann að mestu sjálfstætt. Hann var
eftirsóttur í vinnu, heiðarlegur og trúr því sem
honum var falið. Hann smíðaði réttir, innréttingar í hesthús og vann í
girðingavinnu fyrir vegagerðina. Hann vann á gröfu, síðan vann hann hjá
Léttitækni. Hann var einstaklega bóngóður en þrjóskur og fylginn sér ef svo
bar undir.
Margir strákar, skyldir og óskyldir voru í sveit á Þverá. Þar lærðu þeir að
vinna og að uppgjöf var ekki í boði sama hversu þungt verkið var, því sjálfur
var Bragi ósérhlífinn vinnuþjarkur.
Dagbók hélt Bragi nær alla ævi og skráði niður það helsta sem gerðist hvern
dag. Hann var fjölfróður maður, ekki mikið úti meðal fólks en tryggur þeim
sem hann umgekkst. Hann var hagmæltur og liggja eftir hann margar vísur.
Hann orti til að mynda Engihlíðar- og Vindhælingabrag, vísur um hvern bæ í
hreppunum. Hann var í hreppsnefnd í nokkur ár og tók þátt í sameiningu
Vindhælis- og Skagahrepps. Hann var hreinn og beinn til orðs og æðis og
það gat verið stutt í gamansemina og glettnina sem var honum svo eðlis-