Húnavaka - 01.01.2019, Page 188
H Ú N A V A K A 186
rósemi og íhugunar og blóm, rósir og runnar voru áfram lífsfylling og áhuga-
mál þar til heilsa hennar brast.
Ardís Ólöf lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Sæborg. Útför hennar fór
fram í Hólaneskirkju 5. október. Jarðsett var í Spákonufellskirkjugarði.
Sr. Bryndís Valbjarnardóttir.
Aðalheiður Hrefna Björnsdóttir,
Skagaströnd
Fædd 1. nóvember 1931 – Dáin 8. október 2018
Hrefna fæddist að Skinnastöðum í A-Hún. Foreldrar hennar voru Björn Teits-
son (1887-1945), bóndi og verkamaður frá Kringlu og Steinunn Jónsdóttir
(1895-1982) frá Hnífsdal. Eldri systur Hrefnu eru: Elínborg Teitný (1917-
1971) og Margrét Jónfríður (1927-2005).
Um tíma bjó fjölskyldan á Geirastöðum í Þingi sem var hjáleiga Þingeyra.
Einn vetur fór Hrefna í vist hjá systur Björns, Guðrúnu Teitsdóttur, ljósmóður
í Árnesi á Skagaströnd, sem í dag er safn og elsta hús Skagastrandar.
Fjölskyldan flutti að Felli á Skagaströnd og síðan í Þórsmörk. Eftir að Stein-
unn varð ekkja með tvö börn byggði hún af
dugnaði í félagi með öðrum húsið Stórholt.
Hrefna starfaði á símstöðinni með hléum frá
1946-1950. Hún vann hjá Kaupfélagi Skag-
strendinga, í frystihúsinu, á Hótel Blönduósi, á
saumastofunni Violu og Dvalarheimilinu Sæborg
síðustu starfsárin.
Þann 29. mars 1959 gengu Hrefna og Gunnar
Albertsson, f. 1933 á Keldulandi í Skagahreppi, í
hjónaband. Þau eignuðust tvo drengi sem eru:
Egill Bjarki, f. 1961, sambýliskona Hrönn
Bergþórsdóttir. Hann var kvæntur Kolbrúnu
Björgu Viggósdóttur og eiga þau tvo syni. Þráinn
Bessi, f. 1969, kona hans er Jóhanna Guðrún
Karlsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn, eitt er látið.
Fyrir átti Hrefna soninn Björn Braga Sigmundsson, f. 1951, kvæntur
Ingibjörgu Guðrúnu Magnúsdóttur. Þau eiga þrjú börn. Björn Bragi var áður
kvæntur Steinunni Sigurðardóttur sem er látin, börn þeirra eru tvö. Gunnar
átti fyrir Svein Odd (1957-2011), sambýliskona var Anna Rósantsdóttir. Áður
var hann kvæntur Andreu Björnsdóttur, börn þeirra eru tvö.
Hrefna og Gunnar fluttu frá Stórholti 1969 í nýbyggt hús sitt á Oddagötu 5.
Hrefna hafði unun af ræktun og litríkum blómum, garðurinn bar þess fagurt
merki, grasflötin slegin eins og flottasti golfvöllur. Fimmarma jólastjarna með
blikkandi rauðum og grænum perum var hengd á þakið fyrir jól. Þegar kveikt
var á jólastjörnunni fannst mörgum Skagstrendingnum að jólin væru komin.