Morgunblaðið - 24.08.2019, Side 18
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. ÁGÚST 2019
GRÆNT ALLA LEIÐ
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Viðskipta-Monica fór úr hælaháu
skónum og breyttist í sveitastelpu
þegar hún bauð mér heim til ní-
ræðrar ömmu sinnar sem bjó í litlu
sveitaþorpi. Ég var varla komin inn
úr dyrunum hjá ömmunni þegar ég
var sett í störfin, mér voru réttar
hjólbörur því það þurfti að sækja
möl. Síðan þurftum við að fara út á
akur að setja niður grænmeti, og
amma gamla óð yfir lækinn með
pálinn, því þarna eru engir traktor-
ar og enginn vegur heldur slóði. Ég
var aum í hnénu en ákvað að væla
ekkert í ljósi þess að við hlið mér
var níræð kona sem djöflaðist
áfram. Því næst þurftum við að
sækja kýrnar, en allir í þorpinu eiga
eina kú í hjörðinni og svo er skipst á
að sækja kýrnar upp í hlíðina. Svo
var farið beint í að handmjólka
kúna, Monica sá um það. Stutt hlé
var tekið til að borða, en á undan
öllum máltíðum er ævinlega sætur
snaps. Að lokinni máltíð var farið
aftur út á akur og unnið alveg fram
til klukkan tíu að kvöldi. Allir voru
að vinna allan daginn. Gestrisnin
var alveg ótrúleg, amman og
mamman kölluðu vegavinnuflokk
inn til sín, drulluskítuga karla, til að
bjóða þeim að borða með okkur.
Þarna á enginn pening en allir eiga
alltaf nóg af mat til að deila með
öðrum. Hvert sem ég kom var mér
boðið að gista eins marga daga og
ég vildi,“ segir Linda Ásdísardóttir
sem er alsæl eftir ferðalag til Rúm-
eníu í sumar þar sem hún fékk að
taka þátt í hversdagslífi fólks, eftir
að hafa verið á námskeiði í körfu-
gerð.
„Ég varð ástfangin af Rúmeníu
þegar ég fór þangað fyrir sex árum
með nokkrum Íslendingum og
dvaldi í litlu þorpi í Alba-héraði í
Transilvaníu, en þar tókum við þátt
í að reisa bjálkahús samkvæmt
gamalli hefð Rúmena. Þetta var
Evrópuverkefni sem sneri að því að
viðhalda menningararfi og þarna
kynntist ég Monicu, sem var verk-
efnisstjórinn. Þegar ég sá að hún
var með námskeið í körfugerð í
sumar fyrir nokkra breska hippa
fékk ég að svindla mér með. Sumir
voru nýgræðingar eins og ég en
aðrir voru listamenn í körfugerð.
Ég vildi í leiðinni athuga hvort ég
gæti búið til einhverskonar ferð fyr-
ir safnafólk á Íslandi til Rúmeníu
þar sem við færum inn í þessi héruð
og fengjum að vera innan um og
læra af heimafólki,“ segir Linda
sem er safnvörður í Húsinu á Eyr-
arbakka, Byggðasafni Árnessýslu.
„Körfugerð í Rúmeníu og öðru
handverki hefur verið haldið lifandi
af Rómafólki. Mér fannst stórkost-
legt að fá tækifæri til að kynnast
þessu fólki og því sem það er að
gera. Kennararnir á námskeiðinu
voru Rómafólk, þeir Stefan og Kala-
man, en þeir lærðu sem litlir dreng-
ir að flétta körfur af feðrum sínum,
sem lærðu af sínum feðrum og svo
framvegis. Þessi kunnátta hefur lif-
að frá manni til manns í karllegg
kynslóð fram af kynslóð. Stefan
vinnur einvörðungu við körfugerð
og brauðfæðir sína fjölskyldu á því
að selja körfurnar sem hann býr
til,“ segir Linda og bætir við að þau
hafi aðallega unnið með víði í körfu-
gerðinni.
„Við fórum út á akra að sækja
okkur efnivið og kennararnir voru
ekki vandlátir á hvaða efni þeir not-
uðu í körfurnar. Það var ótrúlegt
hvað þeir unnu hratt við að ríða
körfurnar, þeir eru einstaklega
flinkir og nota allskonar trikk, til að
fela misfellur til dæmis. Þeir nota
líka hendurnar til að gera margt
sem flestir gera með áhöldum, til
dæmis að kljúfa greinarnar, en þá
gera þeir skurð í toppinn og kljúfa
svo greinina með þumalputtanum.
Fyrir vikið eru þeir með breiða og
sterklega fingur. Allt leikur í hönd-
unum á þeim. Í lok dags þegar við
fórum á rúntinn fyrir utan þorpið,
þá opnaði Stefan skottið á bílnum,
dró fram sínar körfur og seldi.
Hann nýtti hverja stund til að koma
körfunum í verð. Þetta fólk er dug-
legt að bjarga sér.“
Kynjaskiptingin alveg skýr
Linda segir það hafa verið
virkilega áhugavert að kynnast lífi
Rómafólksins.
„Rómafólk verður örugglega
fyrir fordómum í Rúmeníu, en það
kom mér hins vegar á óvart hvað
þeirra menning lifir sterkt þarna
samhliða menningu hins almenna
Rúmena. Samheldnin er mikil með-
al Rómafólks og mörg þeirra eru
með fasta búsetu og vinna fyrir sér,
eru ekki á flakki eða stunda betl.
Fólk fæðist inn í fjölskyldu með
ákveðna kunnáttu sem nýtist því til
að sjá fyrir sér, eins og Stefan og
Kalaman sem fæddust inn í körfu-
gerðarfjölskyldu. Þeir tveir voru
frekar feimnir, horfðu á okkur úr
fjarlægð og brostu til okkar í laumi.
Þeir voru með okkur allan tímann
og Stefan tók dansspor fyrir okkur
á fjórða kvöldinu. Skrautgirni og
litagleði fylgir þessu fólki og kon-
urnar klæða sig í skrautleg pils,
svolítið eins og þær séu alltaf í þjóð-
búningi. En þó að Rúmenar sjái
alltaf muninn þá sá ég ekki endilega
mun á Rómafólki og öðrum Rúmen-
um,“ segir Linda og bætir við að í
fyrri Rúmeníuferðinni hafi Monica
farið með Íslendingahópinn á rúnt-
inn og staldrað við í götu Rómafólks
þar sem það bjó í stórum skreyttum
húsum og seldi utan við þau sinn
varning, koparpotta, textíl, körfur
og fleira sem þau búa til sjálf.
„Við fengum að fara inn í húsin
og sáum að þarna var fólk alls ekki
allt fátækt. Rómafólk er íhaldssamt
á sinn hátt og kynjaskiptingin er
skýr, þetta er karlrembusamfélag
þar sem karlmaðurinn á heimilinu
tekur ekki í höndina á þeim konum
sem koma í heimsókn, aðeins körl-
unum. Þegar við komum inn á heim-
ili Rómafólks þá vék karlinn og kon-
an tók á móti okkur, þar var hennar
vettvangur.“
Fjalla-Eyvindur reið körfur
Linda hefur velt fyrir sér að fá
Rúmenana til að koma til Íslands og
kenna okkur að ríða körfur með
þeirra aðferðum.
„Við gætum notað víði, mel-
gresi og kannski njóla,“ segir Linda
og bætir við að heimildir um tága-
vinnu á Íslandi séu ekki miklar, en í
bók Kristjáns Eldjárns, Hundrað ár
í Þjóðminjasafni, komi fram að
tágavinna hafi verið þekkt víða um
land hér áður fyrr, þó að það hafi
verið misjafnt eftir landshlutum.
„Kristján segir að fallegar og
vel gerðar tágakörfur hafi þótt
kostagripir og að þær hafi verið
notaðar til að geyma í þeim sauma-
dót og smáhnykla eða undir ull.
Einnig að gott hafi verið að tína egg
í tágakörfur og stundum hafi þær
verið notaðar sem berjaílát. Í bók
hans kemur líka fram að nánast ein-
göngu hafi verið notaðar grávíðitág-
ar til körfugerðar hér á landi, en
það eru rætur grávíðisins. Á söfnum
landsins eru til fornar tágakörfur,
skór, hattur og höft fyrir hesta.
Fyrsta tágakarfan sem Þjóðminja-
safnið eignaðist árið 1878 var sögð
eftir Fjalla-Eyvind, en sagan segir
að hann hafi riðið körfur svo þétt að
þær voru vatnsheldar, og að hann
hafi borgað með körfunum fyrir mat
og annað. Þjóðminjasafnið og
Byggðasafn Árnesinga eiga tága-
körfur eftir blindan mann, Jón Giss-
urarson, sveitarlim í Biskups-
tungum á 19. öld, en körfur hans
þóttu snilldarlega vel gerðar. Var
Kristjáni konungi IX. gefin karfa
gerð af Jóni á þjóðhátíðinni 1874.
Mér finnst það skemmtileg tenging
að það að bregða körfur hafi verið
iðja útlaga hér á landi áður fyrr. Ís-
lenskur útlagi og blindur maður
eiga þessa kunnáttu þá sameig-
inlega með Rómafólki í Rúmeníu
sem er jú á vissan hátt útlagar.“
Handlaginn Stefan kennir áhugasömum nemum körfugerð. Flinkur Kalaman sýnir hvernig kljúfa skal grein með fingrum. Vinir Monica og Linda við dæmigert bjálkahús í Rúmeníu.
Allt leikur í höndunum á þeim
Gaman Linda sækir víðigreinar til körfugerðar út á akur með kennaranum Stefan og hippanum Graham.
Níræð Amma skolar grænmetið.