Skessuhorn


Skessuhorn - 11.04.2018, Blaðsíða 12

Skessuhorn - 11.04.2018, Blaðsíða 12
MIÐVIKUDAGUR 11. ApRÍl 201812 Fyrir bráðum tveimur árum síðan opnuðu hjónin Jorge Ricardo Ca- brera og Alicia Guerrero veitinga- staðinn la Colina í Borgarnesi. Þar bjóða þau upp á eldbakaðar pitsur og gengur reksturinn vel. Með tíð og tíma langar þau að bæta við rétt- um frá heimalandinu Kólumbíu og gera matarhefð landsins hátt undir höfði. En það er ekki víst að þau fái að sjá þann draum sinn rætast. Erfið- lega hefur gengið að fá starfsfólk, ekki vegna þess að enginn sækir um, held- ur vegna þess að Útlendingastofn- un og Vinnumálastofnun synja hverri umsókn á fætur annarri um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir starfsfólk af erlend- um uppruna. Þegar þau hafa krafið stofnanirnar um skýringar er fátt um svör og þau sem þó berast koma ekki fyrr en eftir dúk og disk. Þau segja að allar umsóknir hafi verið eftir bókinni en engu að síður hefur þeim orðið lítt ágengt. Er svo komið að þau hafa leit- að aðstoðar lögfræðings vegna máls- ins en það hefur engan árangur bor- ið ennþá. Fá ekki starfsfólk „Þetta stríð er að drepa okkur úr áhyggjum,“ segir Ricardo þeg- ar blaðamaður hitti þau hjónin á la Colina á mánudagsmorgun. Staður- inn opnar ekki fyrr en síðdegis og því er ró og næði í matsalnum. Nýverið luku þau við að stækka salinn svo þau ættu auðveldara um vik að taka á móti hópum. Á la Colina er leyfi fyrir 100 manns en stólarnir eru rúmlega 70. „Það hefur gengið mjög vel og er alltaf aukning. Um 70% af okkar viðskiptavinum eru heimamenn. Við erum ánægð með það því það segir okkur að heimamenn séu ánægðir og vilji hafa staðinn okkar hérna,“ seg- ir Ricardo. „En það sem gerir okkur erfitt fyrir er að við fáum ekki starfs- fólk,“ segir hann. Eðli málsins sam- kvæmt vildu þau helst ráða vanan starfskraft en vanir pitsubakarar með reynslu af eldofnum eru ekki á lausu í Borgarnesi frekar en víðast hvar ann- ars staðar á Íslandi. landlægur skort- ur á starfsfólki gerir þeim síðan erf- iðara um vik að fá starfskrafta yfir- leitt, vana eða óvana. Þess vegna hafa þau, eins og svo margir aðrir, brugð- ið á það ráð að leita út fyrir landstein- ana eftir starfsfólki. Þá fyrst hefjast vandræðin fyrir alvöru. „Í meira en ár höfum við staðið í stríði við Vinnu- málastofnun, Útlendingastofnun og velferðarráðuneytið og höfum lítið sem ekkert fengið af svörum annað en synjanir á leyfisumsóknum,“ segja þau. Ekki jafnrétti fyrir fimm aura Eftir allt sem á undan er gengið segj- ast þau ekki sjá neina skýringu á ítrek- uðum synjunum og áhugaleysi kerf- isins aðra en fordóma. Bæði í garð þeirra sjálfra, verandi af erlendum uppruna og í garð þeirra sem þau vilja ráða í vinnu erlendis frá. „Til dæmis sótti um hjá okkur 39 ára gamall mað- ur frá Albaníu. lærður matreiðslu- maður sem bjó og starfaði á Ítalíu í tíu ár,“ segir Ricardo og bætir því við að maðurinn hafi verið með alla pappíra á hreinu og að umsókn hans verið eft- ir bókinni. „En af því að hann var frá Albaníu þá fékk hann engin leyfi. Það er staðreynd, það skiptir máli hvað- an þú kemur,“ bætir hann við. „Þrátt fyrir að félags- og jafnréttismálaráðu- neytið vilji segja annað þá er ekkert jafnrétti í þessum efnum. Ekki fyr- ir fimm aura,“ segir Ricardo og er ómyrkur í máli. „Eftir að þetta gerðist var ég að ræða við vin minn, sem var lengi í pólitík á Íslandi, um þetta mál. Hann ráðlagði mér að reyna ekki að fá Albani til landsins í vinnu. Þeir væru ekki velkomnir til Íslands, kerfið vildi ekki fá þá,“ segir hann. Tók mánuð að senda bréf Hjónin standa vaktina á la Colina frá morgni til kvölds, alla daga vik- unnar. Um jólin lokuðu þau staðn- um og fóru til Kólumbíu. Það var í fyrsta sinn í tvö ár sem þau heim- sóttu ættingja í heimalandinu. Þar hittu þau ungan mann, sem er skild- ur Ricardo og starfar sem pitsubak- ari. Sá vildi koma til Íslands og starfa hjá þeim. Síðustu samskipti hjónanna við Vinnumálastofnun og Útlend- ingastofnun voru vegna umsóknar hans. „Þessi ágætis lögmaður sem ég ræddi við hjá Vinnumálastofnun taldi manninn ekki hæfan til að koma og starfa hjá okkur. Ég sagði við hann; „með fullri virðingu. Þú ert lögmað- ur. Ég er atvinnurekandinn. Ég er með 25 ára reynslu af veitingarekstri. Það er ég sem ber ábyrgðina og það er ég sem met það hvort maðurinn er hæfur. Ekki þú.“ Eftir að ég svaraði þarna fyrir mig fullum hálsi upplifð- um við ennþá meira eins og allar dyr væru að lokast. Við fáum engin svör lengur,“ segir Ricardo. Hjónin draga upp bréf frá Út- lendingastofnun þar sem greint er frá því að frænda Ricardo frá Kól- umbíu hafi verið synjað um dvalar- og atvinnuleyfi. Bréfið er dagsett 14. febrúar 2018. Þau benda blaðamanni á stimpilinn á bréfinu frá pósthúsi í Reykjavík. Það var póstlagt 14. mars í Reykjavík, sléttum mánuði eftir að það var ritað. „Ég hringdi og spurði hvað þessu sætti, að viðstöddum lög- manni mínum. Ég fékk þau svör að það „tæki yfirleitt smá tíma að senda bréf út úr húsinu“. Ég held það vanti aðeins upp á skipulagið á þessum vinnustað. Það tekur ekki mánuð að senda bréf,“ segir Ricardo. Síðan umsókn Kólumbíumannsins unga var synjað hafa þau engin svör fengið við erindum sínum, hvorki frá Vinnumálastofnun né Útlendinga- stofnun. Það sama gildir um lögmann þeirra. „Ég er búinn að gefast upp á því að senda bréf sjálfur. Samt hef ég, síðan þetta gerðist, fengið hót- unarbréf þar sem ég er minntur á að ef ég ræð fólk í vinnu sem hefur ver- ið synjað um leyfi, þá geti ég endað í fangelsi,“ segir hann, „og það eina sem lögmaðurinn okkar hefur heyrt frá þeim er; „erindi þitt hefur verið móttekið,“ og „Því miður er ég ekki við, reynið síðar.“ Svona sjálfvirk svör í tölvupósti,“ bætir Alicia við. Sumir afgreiddir samdægurs Þeim þykir orka tvímælis að þurfa að hlýða á þögnina svo mánuðum skipt- ir á meðan aðrir virðast eiga greiðari aðgang að leyfisveitingum fyrir sitt starfsfólk. „Á meðan ég hef setið og beðið eftir afgreiðslu á biðstofu Út- lendingastofnunar hef ég séð menn koma frá leigumiðlunum og verktök- um með 20-30 umsóknir í einu og bunka af vegabréfum. Þeir eru kall- aðir inn á skrifstofu um leið og þeir mæta og fá allt samþykkt tafarlaust. Þeir þurfa ekki einu sinni að bíða á biðstofunni eins og við hin. Af hverju fæ ég, sem kem með eina umsókn í einu, alltaf nei og af hverju þarf ég alltaf að bíða í marga mánuði eftir af- greiðslu þegar aðrir fá sínar umsóknir afgreiddar samdægurs?“ spyr Ricardo og er ekki skemmt. „Af hverju get ég ekki, íslenskur ríkisborgari, fengið svo mikið sem eitt viðtal við neinn af þessum mönnum sem samþykkja leyfin sem ég sæki um fyrir starfsfólk- ið? Ég hef aldrei fengið viðtal. Mér er alltaf vísað á afgreiðsluna og ég beð- inn að skilja pappírana eftir og senda tölvupóst. Af hverju er þetta erfitt fyrir okkur en auðvelt fyrir suma? Af því við komum frá öðru landi. Þetta er ósanngjarnt,“ bætir Ricardo við. Ellefu mánaða bið Hjónin fræða blaðamann um að einn maður sem sótti um vinnu hjá þeim hafi reyndar fengið leyfisumsóknir sínar samþykktar. „Eftir ellefu mán- aða bið. Þá var sagt já. Eftir ellefu mánuði,“ segir Ricardo og bætir því við að á þeim tíma honum hafi verið snúið fram og til baka milli stofnana. Biðin var raunar ekki það eina sem þeim þykir undarlegt við afgreiðslu þessa tiltekna máls. „Það var ekki fyrr en konsúll Kólumbíu í Stokkhólmi sendi bréf til Útlendingastofnunar og vakti athygli á því að allir pappírarnir væru góðir og gildir að umsóknin var samþykkt. En þá var maðurinn auð- vitað löngu búinn að finna sér aðra vinnu. Þetta var fjölskyldumaður og gat auðvitað ekki verið atvinnulaus í ellefu mánuði og beðið eftir að ís- lenska ríkið samþykkti umsóknina,“ segir Ricardo. Þeim sárnar að til að fá samþykkta umsókn starfskrafts hafi utanaðkom- andi aðili þurft að gangast í ábyrgð fyrir þau og upplifa að þeim hafi ekki verið og sé ekki treyst. Eins og ekki gildi það sama um þau og aðra. „Þó uppruni okkar sé í Kólumbíu þá erum við bæði búin að vera lengi á Íslandi. Ég er til dæmis búinn að vera hérna í 29 ár og er íslenskur ríkisborgari. Við höfum unnið fyrir öllu sem við eigum. Við skuldum ekki neitt, borg- um öll okkar gjöld og alla skatta sam- viskusamlega og á réttum tíma. Við erum með öll okkar mál á hreinu og höfum aldrei svindlað á kerfinu,“ seg- ir Ricardo. „Það hefur komið til okk- ar fólk sem segist tilbúið að vinna en biður um að fá greitt svart af því það þiggur bætur. Við vísum þeim alltaf í burtu því við höfum engan áhuga á að hjálpa fólki að svindla. Við erum að borga bæturnar þeirra með skött- unum okkar,“ bætir hann við. „Þó við séum frá Kólumbíu erum við ekki skæruliðar eða eiturlyfjabarón- ar. Okkur finnst framkoma kerfisins í okkar garð vera móðgandi, eins og það sé verið að gera lítið úr okkur,“ segir hann og Alicia tekur undir með honum. Spilling og fordómar „Það er verið að leggja okkur í ein- elti, af því við erum frá Kólumbíu. Hvernig geta Íslendingar leyft sér að monta sig af jafnrétti, að allir hafi sömu tækifæri, þegar raunin er alls ekki þannig. Því miður, það hafa ekki allir sömu tækifærin og möguleika. Það fer eftir því hver þú ert, hverra manna þú ert og hverja þú þekkir. Ég kem frá 45 milljóna þjóð þar sem rík- ir spilling. Það er ekki öðruvísi á Ís- landi, með fullri virðingu. Því mið- ur,“ segir Ricardo og er ekkert að skafa utan af því. „Og mér finnst til skammar að fá heldur ekki að tala við neinn í velferðarráðuneytinu. Það vísa allir á einhvern annan,“ seg- ir hann. „Þeim er alveg sama,“ bæt- ir Alicia við og Ricardo kinkar kolli. „Yfir þessu ráðuneyti er maður sem á heima bara hérna rétt hjá okkur, vel- ferðar- og jafnréttisráðherra. Ég er búinn að reyna að fá að samband við hann, bara til að spjalla en það hefur ekki gengið. Hvað getum við gert?“ Ricardo hallar sér aftur og er þungt hugsi stutta stund. „Mér finnst þetta varpa fram spurningu um hvernig ríki Ísland er í raun og veru. Núna, eftir 29 ár hér á landi, get ég ekki sagt annað en að það séu fordómar á Ís- landi, því miður.“ Draumurinn að fjara út En á meðan engin leyfi fást fyrir starfsfólk hafa hjónin ekki um annað að velja en að standa vaktina sjálf, frá morgni til kvölds eða loka staðnum. „Við vinnum hér alla daga og þetta er mikil vinna. Við höfum enga aðstoð af því við fáum ekki leyfi afgreidd fyr- ir þá sem vilja koma og vinna hjá okk- ur. Það er verið að loka á okkur. Mér finnst þetta ekki neitt nema einelti og fordómar,“ segir Ricardo. „Þú ert líka orðinn veikur,“ bætir Alicia við og Ricardo viðurkennir það. „Ég er búinn að vera í rannsóknum og lækn- arnir telja að veikindi mín séu fyrst og fremst tengd álagi og stressi. Ég er orðinn 49 ára gamall, fékk hjarta- áfall á sínum tíma og veit að ég þarf að passa mig,“ segir hann. Baráttan við kerfið hefur auðvitað aukið álagið á þau hjónin enn frek- ar. „En einhvern veginn verðum við að halda staðnum gangandi. Sumar- ið er framundan og aðalmálið í dag er að fá einhvern í vinnu, bara ein- hvern. Mér dettur ekki í hug að sækja um fleiri leyfi hjá Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun. Biðtíminn er lágmark þrír mánuðir og þá er sum- arið búið,“ segir Ricardo. „Rekstur- inn gengur vel og við reynum að gera betur á hverjum degi. Okkur líður vel í Borgarnesi og viljum vera hér áfram og reka la Colina, þetta er það sem við viljum gera. Í framtíðinni langar okkur að fara meira út í kólumbískan mat. Það er draumurinn en ég veit ekki hvort við fáum nokkurn tímann að sjá hann rætast. Ef draumur okk- ar er fjara út þá veit ég ekki hvað við gerum,“ segja Ricardo og Alicia að endingu. kgk „Þetta stríð er að drepa okkur úr áhyggjum“ Hjónin á La Colina í baráttu við kerfið - Ítrekað synjað um leyfi fyrir starfsfólk Hjónin Jorge Ricardo Cabrera og Alicia Guerrero, eigendur veitingastaðarins La Colina. Ricardo og Alicia í matsalnum. Þau standa vaktina frá morgni til kvölds, alla daga vikunnar og álagið er mikið. „Við höfum enga aðstoð af því við fáum ekki leyfi afgreidd fyrir þá sem vilja koma og vinna hjá okkur.“ Veitingastaðurinn La Colina stendur við Hrafnaklett í Borgarnesi.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.