Sveitarstjórnarmál

Árgangur

Sveitarstjórnarmál - Jun 2019, Blaðsíða 5

Sveitarstjórnarmál - Jun 2019, Blaðsíða 5
5 Þegar tillaga að fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020-2024 var lögð fram sl. vor birtust áform um að skerða lögbundin framlög ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þetta kom stjórnendum sambandsins og öllum sveitarstjórnarmönnum í opna skjöldu. Að ráðast á lögbundna tekjustofna sveitarfélaga með þessum hætti var úr öllum takti við það góða samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga sem þróast hefur undanfarin ár. Ný sveitarstjórnarlög sem tóku gildi árið 2011 kveða á um reglubundið samstarf ríkis og sveitarfélaga, sem raungerst hefur að stórum hluta í samstarfsnefnd sem fengið hefur heitið Jónsmessunefnd. Á þeim vettvangi hefur verið unnið að farsælli lausn fjölmargra mála. Þá gegnir Jónsmessunefnd lykilhlutverki við mótun samkomulags á grundvelli laga um opinber fjármál. Þau lög hafa einnig haft þau áhrif að skilningur fjármála- og efnahagsráðuneytisins á starfsemi og fjármálum sveitarfélaga hefur aukist verulega frá því sem var. Þrisvar sinnum hefur verið gert samkomulag á grundvelli þessara laga þar sem ýmis framfaramál hafa fengið brautargengi. Fjármálareglur sveitarstjórnarlaga hafa skapað grunnviðmið í fjármálastjórn sveitarfélaga. Sérstakar fjármálareglur fyrir hið opinbera eru í lögum um opinber fjármál. Það hefur verið skýr afstaða sambandsins við samningsgerð við ríkið, að svo fremi sem sveitarfélögin standist viðmið í fjármálareglum sveitarstjórnarlaganna, sé það ríkisins að haga fjárstjórn sinni í samræmi við þær fjármálareglur sem kveðið er á um í lögum um opinber fjármál. Fyrirhuguð skerðingaráform voru ekki í samræmi við þetta verklag, heldur átti að taka lögbundnar tekjur frá sveitarfélögunum, svo ríkið stæðist þessar fjármálareglur laga. Þessar tilfæringar hefðu ekki breytt heildarafkomu hins opinbera. Ríkið ætlaði að fegra stöðu sína á kostnað sveitarfélaganna. Það er algjörlega á skjön við lög og verklag undanfarinna ára, að fjármála- og efnahagsráðherra skyldi leggja fram tillögu að fjármálaáætlun með þessum skerðingaráformum án nokkurs samráðs við sambandið eða sveitarfélögin. Stjórn sambandsins, landsþing þess, sveitarfélög um allt land og landshlutasamtök sveitarfélaga mótmæltu þessum áformum harðlega og barst þingmönnum, ráðherrum og fjárlaganefnd Alþingis fjöldi ályktana og umsagna þess efnis. Auk þess voru haldnir fjölmargir fundir fulltrúa sambandsins með lykilaðilum þessa máls og fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um málið. Afrakstur þessa er nú ljós. Horfið var frá þessum skerðingaráformum við samþykkt fjármálaáætlunarinnar á Alþingi þann 20. júní sl. Því ber að fagna. Með sanni má segja, að í þessu máli hafi komið skýrt fram hve samtakamáttur sveitarfélaganna er mikill. Stöndum áfram þétt saman. Færum okkur úr vörn og sækjum nú fram. Það getum við gert á ýmsan hátt, en sterkt og samheldið sveitarstjórnarstig er grunnur árangurs í þeim efnum. FORYSTUGREIN Samtakamáttur sveitarfélaga er mikill Karl Björnsson framkvæmdastjóri.

x

Sveitarstjórnarmál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sveitarstjórnarmál
https://timarit.is/publication/1063

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.