Sveitarstjórnarmál

Árgangur

Sveitarstjórnarmál - Jun 2019, Blaðsíða 30

Sveitarstjórnarmál - Jun 2019, Blaðsíða 30
30 SVEITARSTJÓRNARMÁL víða. Við erum hluti af Markaðsstofu Norðurlands og gengur það samstarf vel og hefur skipt okkur hér miklu máli. Ég bind miklar vonir við beint flug til og frá Akureyri, sem gefur ferðamönnum meira frelsi til að ferðast innanlands. Það er hægt að byrja í Keflavík og enda á Akureyri eða öfugt og þannig keyra flestir í gegnum Húnaþing vestra sem er lykilstaður til að stoppa á.“ Norðurstrandaleið á einnig eftir að verða stór áfangastaður, en fyrst verði samgönguyfirvöld að lagfæra vegi á leiðinni, eins og Vatnsnesvegur (nr. 711) er glöggt dæmi um. „Mjór vegur, ofaníburður farinn, vegkantar svikulir, einbreiðar brýr og mikil umferð. Það er enginn að tala um malbikaða 7 metra vegbreidd heldur að valkostirnir hljóti að vera aðrir og fleiri en bara reiðgata eða hraðbraut,“ segir Guðný og bætir við að samgöngumál séu ekki einkamál íbúa á svæðunum þar sem hagsmunir íbúa og ferðamanna fari almennt saman. Vandann megi að mörgu leyti rekja til þeirrar stöðnunar sem einkennt hefur samgöngumál. Áherslur í vegagerð hafi verið svipaðar á síðustu 30 til 40 árum. Á sama tíma hafa áherslur í samfélaginu gjörbreyst. „Ég held að við viljum öll geta keyrt um landið okkar og að búið sé á öllu landinu, en það kostar góðar samgöngur. Það þarf samstöðu allra, ekki bara stjórnmálamanna í sveitarstjórn eða í landspólitíkinni heldur líka landeigenda, löggæslu og ferðaþjónustunnar.“ Fámenn þjóð í stóru landi Þegar talið beinist að stöðu sveitarfélaga og stærð segist Guðný ekki viss hvort umræðan sé á réttu róli. Henni finnst nærtækast að byrja að sameina sveitarfélög þar sem landfræðileg staðsetning er hagfelld og fjöldi verkefna er þegar rekinn á sameiginlegum grunni. „Sameining sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu blasir þannig við sem augljós kostur með mikla möguleika á hagræðingu. Mikilvægast að mínu mati er, að horft sé sérstaklega til þess hvort þjónustan komi til með að batna og hvort fjárhagslegur ávinningur sé af sameiningu. Ég er ekki alltaf viss um að það fáist endilega með því að festa íbúatölu, þar sem taka verður einnig tillit til landfræðilegrar legu. Við erum fámenn þjóð og stjórnsýsla verður ekkert endilega faglegri eða öflugri þó að sveitarfélagið sé fjölmennara. Það breytir ekki öllu hvort íbúar séu 500 eða 20000, heldur eru það verkefnin sem skipta máli og þau fara ekki endilega eftir íbúafjölda. Þetta ættum við Íslendingar að vita manna best enda er allur samanburður við útlönd hvað varðar mannfjölda hlægilegur hvort sem við berum Reykjavík saman við aðrar höfuðborgir, eða minni bæi á Íslandi við bæi með sambærilega þjónustu erlendis.“ Þeir málaflokkar sem sveitarfélög sinna eru enn fremur margir og ólíkir og veldur sveitarfélag sjaldnast eitt og sér umsjón með þungum verkefnum á borð við veitur, brunavarnir og félags- og skólaþjónustu. „Flest sveitarfélög leysa úr þungu málaflokkunum í samvinnu við nágranna sína. Þegar um mjög dreifbýlt samfélag er að ræða, þar sem fjarlægðir spara hvorki tíma né peninga, þá getur besti kosturinn samt verið, að hafa málaflokkana í héraði og ná með því móti þeirri yfirsýn sem nauðsynleg er, svo að þjónusta við íbúana verði leyst sem best af hendi.“ Lagafrumvörp á skjön við gildandi lög og reglur Húnaþing vestra er á jaðrinum til vesturs og leitar eðlilega, að sögn Guðnýjar, í þá átt sem hentar best. Heilbrigðisþjónusta er þannig í samstarfi við Vesturland en ekki Norðurland og gengur vel. Þá eru málefni fatlaðra sameiginleg með öðrum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra, þó að ekki sé vitað hvernig það verður síðar. Þetta sé enda fjársveltur málaflokkur þar sem kröfur til sveitarfélaga aukast jafnt og þétt án þess að fjármagn fylgi með frá ríkinu. Sveitarfélög eru, að mati Guðnýjar, almennt fær um að sinna verkefnum sínum með hliðsjón af þeim tekjustofnum Vatnsnesvegur er glöggt dæmi um veg sem er ákaflega illa farinn og getur verið hættulegur þeim sem um hann aka. (Ljósm.: Húnaþing vestra). Guðný sér fjölmörg tækifæri til frekari vaxtar og þróunar í Húnaþingi vestra og hefur mikla trú á framtíðarmöguleikum sveitarfélagsins. (Ljósm. GHK).

x

Sveitarstjórnarmál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sveitarstjórnarmál
https://timarit.is/publication/1063

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.