Morgunblaðið - 07.11.2019, Qupperneq 72
72 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 7. NÓVEMBER 2019
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Mér finnst ótrúlega gaman að hafa
lifað með þessu verki í tíu ár og leyft
því að spegla mig sem bæði flytjanda
og tónskáld. Tveimur til þremur ár-
um eftir að við gerðum þennan kons-
ert fyrst fannst mér ég kominn mjög
langt frá honum og skildi varla
hvernig ég gat skrifað þetta verk.
Núna finnst mér ég aftur vera kom-
inn nær honum og finnst gaman að
nálgast verkið sem flytjandi,“ segir
tónskáldið Daníel Bjarnason um
Processions, píanókonsert nr. 2, sem
hann samdi fyrir Víking Heiðar
Ólafsson og frumfluttur var með Sin-
fóníuhljómsveit Íslands (SÍ) undir
stjórn Daníels á Myrkum músík-
dögum í Háskólabíói 2009. Nú tíu ár-
um seinna flytja þeir verkið á tón-
leikum SÍ í Eldborg Hörpu í kvöld og
annað kvöld kl. 19.30. Að vanda hefst
tónleikakynning í Hörpuhorni í kvöld
kl. 18 í umsjón Árna Heimis Ingólfs-
sonar. Tónleikum kvöldsins verður
útvarpað í beinni útsendingu á Rás 1
og tónleikar föstudagsins verða
teknir upp í mynd og streymt beint á
vef hljómsveitarinnar, sinfonia.is.
Tónleikaferð vítamínsprauta
Tónleikarnir eru hluti af upphitun
fyrir tónleikaferð SÍ til Þýskalands
og Austurríkis dagana 12.-17. nóv-
ember þar sem hljómsveitin kemur
fram í Herkulessaal í München,
Großes Festspielhaus í Salzburg og
Konzerthaus í Berlín, þar sem Vík-
ingur er staðarlistamaður um þessar
mundir. Á efnisskrá tónleika vik-
unnar eru auk Processions valdir
þættir úr Pétri Gaut eftir Edvard
Grieg, hornkonsert nr. 3 eftir W.A.
Mozart þar sem króatíski hornleik-
arinn Radovan Vlatkovic leikur ein-
leik og sinfónía nr. 5 eftir Jean Sibe-
lius. Á efnisskrá tónleikaferðarinnar
eru auk þessara verka einnig Aerial-
ity eftir Önnu Þorvaldsdóttur og sin-
fónía nr. 4 eftir Pjotr Tsjajkovskíj.
„Þetta er fyrsta tónleikaferð okk-
ar beggja með Sinfóníuhljómsveit-
inni þannig að þetta verður mjög
gaman,“ segir Víkingur og tekur
fram að það sé gríðarlega mikilvægt
fyrir SÍ að fá tækifæri til að spila er-
lendis. „Í mörg ár eftir hrun var
þetta ekki hægt þar sem enginn pen-
ingur var til. Svona tónleikaferð er
algjör vítamínsprauta og skiptir máli
fyrir sjálfstraustið og gæðastuðulinn
fyrir utan ótalmörg óbeint jákvæð
áhrif. Um þessar mundir er gullöld
fyrir íslenskt tónlistarlíf. Það hefur
aldrei verið svona mikil stemning í
heiminum fyrir íslenskri tónlist og
flytjendum og það væri óðs manns
æði að nýta þennan tíma ekki vel. Ég
vona að Sinfóníuhljómsveitin fái
stuðning til að fara í fleiri tónleika-
ferðir,“ segir Víkingur og tekur fram
að það sé ekki gefið að allir skilji
mikilvægi þess að SÍ fái tækifæri til
tónleikahalds erlendis. „Það væri
sambærilegt við það að íslenskar
bókmenntir væru ekki gefnar út á
erlendum tungumálum. Slíkt væri
fáránlegt,“ segir Víkingur sem
hlakkar til tónleikaferðarinnar þar
sem tækifæri gefst til að spila
íslenskt verk fyrir þúsundir áheyr-
enda á meginlandinu.
Verkið haldið tryggð við mig
Inntur eftir því hvernig efnisskrá
tónleikaferðarinnar sé að öðru leyti
samansett segir Daníel norrænt
þema í bland við klassík. „Það verður
mjög gaman að fara með Mozart til
Salzburgar. Sinfóníurnar eftir Tsjaj-
kovskíj og Sibelius eru báðar glæsi-
leg verk sem er skemmtilegt fyrir
hljómsveitina að flytja og hún tengir
sterkt við. Maður vill auðvitað flytja
verk sem hljómsveitinni líður vel
með og finnst hún hafa eitthvað að
segja með,“ segir Daníel.
Spurðir nánar út í píanókonsert-
inn Processions bendir Víkingur á að
þeir Daníel hafi flutt verkið bæði
saman, t.d. í Belfast á N-Írlandi 2010
á tónleikum sem voru teknir upp fyr-
ir BBC, og Víkingur með öðrum
hljómsveitarstjórum í gegnum tíð-
ina. „Á síðustu árum hef ég spilað
verkið ansi víða, meðal annars með
Þýsku útvarpshljómsveitinni í Leip-
zig, Sænsku útvarpshljómsveitinni í
Stokkhólmi og með Brussel-
fílharmóníunni fyrir aðeins tíu dög-
um,“ segir Víkingur.
„Síðustu tvö árin hefur verkið rat-
að víða, sem er aðallega Víkingi að
þakka, sem verið hefur á miklu flugi
á sínum ferli. Hann hefur haldið
tryggð við þetta verk,“ segir Daníel.
„Nei, verkið hefur haldið tryggð við
mig,“ segir Víkingur og bætir við:
„Það er alls ekki bara mér að þakka
að þetta verk er flutt. Þetta verk er
afar gott og Daníel er mjög þekkt
tónskáld þannig að þetta helst allt í
hendur. Á sama tíma hefur verið
mikil stemning í heiminum fyrir nýj-
um konsertum og þessi konsert er
þannig að hann virkar. Alltaf þegar
ég er búinn að spila hann ríkir hrika-
lega skemmtileg stemning,“ segir
Víkingur og tekur fram að fyrir sig
sem píanista sé sérlega skemmtilegt
hversu þrívítt verkið er.
Kann í dag að meta eigið þor
„Lykillinn að því að skrifa fyrir
píanó er að búa til vídd inni í hljómn-
um. Þetta er allt fjölradda og margt í
ætt við hvernig stóru píanóskrifin
eru í rússneskum einleikskonsertum.
En það er auðvitað miklu meira í því
en það. Ástæða þess að ég spila þetta
verk er að mér finnst ég frjáls í því.
Það eru margar leiðir færar, sem er
einkenni góðrar tónlistar, og því þarf
ég ekki að endurtaka mig á milli
flutninga. Ég finn alltaf eitthvað nýtt
þegar ég kem aftur að verkinu. Vídd-
in er forsenda þess að tónlist lifi.
Þess vegna finnst mér ekkert gaman
að spila verk eftir Steve Reich þótt
þau séu glæsileg og skemmtileg
áheyrnar því maður verður svolítið
eins og vélmenni þegar maður spilar
þau. Tónlist Daníels er flytjendavæn
og maður finnur að hún er skrifuð af
flytjanda,“ segir Víkingur og rifjar
upp fyrstu kynni þeirra Daníels.
„Ég man þegar ég hitti þig fyrst
þegar við vorum á unglingsaldri. Þá
varstu að læra á píanó hjá mömmu
og komst heim til okkar og skrifaðir
sönglag á nótnaforrit sem pabbi var
með í eldgamalli PC-tölvu. Ég man
enn eftir ákveðnum hljómagangi í
þessu sönglagi, sem heyra má að
hluta í konsertinum. Þetta er svona
frum-Daníel. Ég held að þú hafir í
þessum konsert farið inn í þitt eigið
DNA,“ segir Víkingur og bætir við:
„Mér fannst þessi konsert alltaf vera
ofboðslega gott verk en mér fannst
þú ekki kunna að meta hann alveg
strax,“ segir Víkingur. „Í dag kann
ég að meta þorið hjá sjálfum mér í
verkinu. Að vera einlæglega að taka
inn það sem ég elska af áhrifum og
gera að mínu eigin og þora að vera
expressífur, rómantískur og stór í
hugsun og ekki hræddur eins og tón-
smíðanemar geta verið hræddir við
að vera ekki þóknanlegir einhverju
dogma eða tilfallandi tísku. Það tók
mig smátíma að gangast við þessu,“
segir Daníel.
Expressífir í tónmáli sínu
„Það var auðvitað allt undir þegar
konsertinn var frumfluttur á sínum
tíma og það finnst í verkinu,“ segir
Víkingur. „Þetta var skrítinn tími.
Ég ákvað að fara ekki í framhalds-
nám í tónsmíðum heldur hljómsveit-
arstjórn. Ég skrifaði verkið þegar ég
var nýbúinn með hljómsveitar-
stjórnunarnámið og var í nokkrum
felum sem tónskáld. Kennari minn í
hljómsveitarstjórn vildi ekkert vita
af því að ég væri að semja músík. Ég
var á miklum krossgötum og eyddi
talsverðum tíma í New York. Svo
kom hrunið og ég fylgdist með bús-
áhaldabyltingunni úr fjarlægð en
neyddist til að koma heim af fjár-
hagsástæðum. Það voru því allar
taugar þandar og mér fannst þetta
verk skipta máli. Ég hugsaði mjög
mikil til áhorfenda á Íslandi sem
myndu koma að hlusta á verkið,“
segir Daníel sem debúteraði sem
hljómsveitarstjóri hérlendis með því
að stjórna frumflutningnum í
Háskólabíói í febrúar 2009.
„Verkið byrjar í miðjum klíðum,
enda heitir fyrsti kaflinn In Medias
Res. Það er eins og að opna dyr og
sjá að baki þeim að allt sé að springa.
Formið á konsertinum er mjög
skemmtilegt þar sem fyrstu tveir
kaflarnir eru mun stærri og lengri en
þriðji kaflinn. Þeir eru á sama tíma
mjög expressífir í tónmáli sínu. Þriðji
kaflinn er miklu styttri, sennilega í
kringum fjórar mínútur, og ískaldur
en fyrri kaflarnir tveir eru funheitir.
Í þriðja kaflanum leynist einhver
hryllingur með gegnumgangandi
fastan takt sem skapar einhvern
óhugnað. Áhrifin eru þeim mun meiri
eftir blæðandi rómantík fyrri kafl-
anna. Maður er nánast sleginn utan
undir, vakinn með blautri tusku með
framtíðarmúsík. Það er einstaklega
skemmtilegt að finna tímana mætast
í verkinu og í þessum ótrúlegu hvörf-
um frá öðrum yfir í þriðja kafla, sem
nefnist Red-handed,“ segir Víkingur
og tekur fram að þótt tímarnir séu
breyttir sé verkið enn jafnmikið á
tánum.
Fleiri ættu að spila verkið
„Þegar við frumfluttum verkið
vorum við í Háskólabíói en erum
núna í Hörpu. Þá spilaði ég á 40 ára
gamlan hryllingsflygil sem kominn
var langt yfir síðasta söludag,“ segir
Víkingur og rifjar upp að upptaka
verksins hafi verið gerð með þeim
sama flygli. „Mig langar því til að
taka verkið upp aftur. Reynslan okk-
ar skapar allt aðra vídd í verkinu í
dag. Hljómræna og tónlistarlega
upplifunin verður miklu sterkari hér
í Hörpu og gaman að heyra verkið í
almennilegu rými, því orkestra-
sjónin er mjög afgerandi og uppfull
af óvenjulegum blæbrigðum. Mér
fannst mjög gaman þegar ég spilaði
þetta nýverið með útvarps-
hljómsveitinni í Leipzig að menn
voru svo hrifnir af því hvernig þú
skrifaðir fyrir hljómsveitina. Þau
blæbrigði skiluðu sér ekki í
Háskólabíói en munu skila sér hér í
Hörpu,“ segir Víkingur og tekur
fram að þótt hann hafi spilað verkið í
tíu ár þurfi hann alltaf að vera á tán-
um. „Maður þarf að æfa verkið
meira en maður heldur og vera
hræddari við það en manni líður,“
segir Víkingur. „Öll verk sem lifa og
eru síung bjóða upp á nýjar áskor-
anir á nýjum tímum og því þarf að
nálgast þau með það í huga,“ segir
Daníel, sem enn hefur ekki stjórnað
verkinu með öðrum píanóleikara en
Víkingi.
„Þú ættir í raun að finna þér aðra
píanóleikara líka. Verkið er orðið
það vinsælt og ég kemst ekki alltaf í
að spila það. Auk þess er mikilvægt
fyrir verk að fleiri spili það, enda er
það mjög opið til túlkunar sem væri
gaman að heyra,“ segir Víkingur og
tekur fram að sér finnist einnig að ís-
lenskir íslenskir píanónemendur
ættu að æfa verkið.
Gustavo Dudamel stjórnar
frumflutningi næsta konserts
„Í maí 2021 mun ég frumflytja
þriðja píanókonsert Daníels með Fíl-
harmóníusveit Los Angeles undir
stjórn Gustavos Dudamels, en verk-
ið var pantað af nokkrum hljóm-
sveitum í sameiningu,“ segir Vík-
ingur og Daníel rifjar upp að áður en
hann skrifaði Processions, sem er
píanókonsert nr. 2, hafi hann skrifað
konsert nr. 1 sem var útskriftar-
verkefni hans úr Tónlistarskólanum
í Reykjavík sem Birna Helgadóttir
frumflutti. „Við munum taka þriðja
konsertinn upp úti í Los Angeles og
þá væri auðvitað tilvalið að taka ann-
an konsertinn upp í leiðinni,“ segir
Víkingur og bendir á að hann muni
með Fílharmóníusveit Los Angeles
undir stjórn Dudamels einnig flytja
verkið í Barbican í London vorið
2021. „Það er alltaf gott þegar ný
verk fá tækifæri til að hljóma í
stórum borgum,“ segir Víkingur og
tekur fram að hann muni leika kons-
ertinn víðar á því ári þótt enn sé of
snemmt að ljóstra upp hvar það
verði þar sem samningar séu á loka-
metrunum.
Spurður hvenær þriðji píanó-
konsertinn verði tilbúinn svarar
Daníel kíminn: „Fyrir tónleikana.“
„Síðasta verk kláraði hann aðeins
þremur vikum fyrir frumflutninginn
og ég fyrirgef honum það seint. Sem
betur fer var ég ekki jafnmikið bók-
aður þá og nú því annars hefði ég af-
lýst,“ segir Víkingur í gamansömum
tón og bætir síðan við: „Þú kemst því
ekki upp með þetta aftur!“
Morgunblaðið/Hari
Einbeiting Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari og Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri á æfingu með Sinfóníu-
hljómsveit Íslands í Eldborg Hörpu í gær. Tónleikar þeirra í vikunni eru upphitun fyrir tónleikaferð sveitarinnar.
„Gullöld fyrir íslenskt tónlistarlíf“
Víkingur Heiðar Ólafsson flytur Processions eftir Daníel Bjarnason á tvennum tónleikum Sinfón-
íuhljómsveitar Íslands í vikunni Frumflytur nýjan píanókonsert eftir Daníel í Los Angeles 2021
LAUGAVEGI 24 - REYKJAVÍK - S. 552 0800
SKIPAGÖTU 7 - AKUREYRI - S. 462 4646