Morgunblaðið - 18.11.2019, Qupperneq 29
MENNING 29
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 18. NÓVEMBER 2019
Smiðjuvegur 68, Kópavogi | S. 587 1350 | bifreidaverkstaedi.is
Höfum sérhæft okkur í Toyota viðgerðum síðan 1995
Fljót, örugg og persónuleg þjónusta
Allar almennar bílaviðgerðir
AF BÓKAVERSLUN
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Þegar ég kom á dögunum að einni
minni eftirlætis bókaverslun var
engin leið að komast þar inn. Múr-
steinum hafði verið hlaðið fyrir dyrn-
ar og vel skammtað af steypu á milli
steina. Og í raun komst ég ekki einu
sinni að dyrunum því brúnleitur
vatnsflaumur gekk upp á hleðsluna
miðja og ég stóð ofar í götunni og
horfði á vatnið gjörbreyta ásýnd
borgar sem ég hafði talið mig þekkja
ágætlega.
Í fyrra hafði ég vinnustofu um
mánaðartíma í Varanasi, elstu og
helgustu borg hindúa á Indlandi.
Borg sem einig hefur verið þekkt
undir heitunum Kashi, Benares og
Banaras. Þá vandi ég komur mínar í
þessa merku bókaverslun með
bjarta nafnið, Harmony – The Book-
store. Hún er ekki ýkja stór í fer-
metrum talið en þegar komið er að
fara gestir úr skóm, ganga upp
nokkrar tröppur og við blasa langar
hillur sem teygjast inn eftir rýminu
þéttskipaðar bókum. Og þar eru líka
staflar bóka ofan á hillunum og á
flísalögðu gólfinu, í gluggakistum og
á stólum og bekkjum, og á búðar-
borðinu sjálfu, en bak við þá stafla er
venjulega hinn brosmildi bóksali
Rakesh Singh.
Úrval bóka í Harmony – The
Bookstore er með ólíkindum fjöl-
breytilegt og gott. Langt umfram
það sem búast mætti við í bókaversl-
un í hjarta helgrar borgar, einungis
nokkra metra frá einum kunnustu
tilbeiðslutröppunum við Ganges-
fljótið, í Assi Ghat. Úrval mynd-
listar- og ljósmyndabóka er í raun
yfirgengilegt, til að mynda úrval
bóka kunnustu útgefanda slíkra
verka í Þýskalandi og í Bandaríkj-
unum. Bækur um trúarleg efni eru
fjölmargar, og það kemur ekki á
óvart, eða hvað skáldsagnaúrvalið er
gott. En ljóðadeildin er líka sterk,
rétt eins og gott framboð ferðafrá-
sagna, heimspekirita og svo er fram-
boð fræðiverka, til að mynda um
bókmenntafræði og myndlist, fram-
úrskarandi og jafnast fyllilega á við
það sem finna má í þekktustu stóru
bókaverslunum Vesturlanda. Ég er
því mikill unnandi Harmony-
bókabúðarinnar og þegar ég mætti á
dögunum aftur til langdvalar í Var-
anasi hugðist ég steðja fljótlega til
fundar við Sing og bækurnar hans.
En það var ekki auðvelt, því mons-
únrigningarnar voru miklu seinna á
ferðinni í ár en nokkru sinni áður og
þegar ég kom þar að, öslandi um göt-
ur í vaðstígvélum, var þvílíkt ham-
faraflóð í Ganges að Rakesh Sing
hafði þurft að láta múra fyrir dyrnar
að versluninni í von um að vatn
flæddi ekki inn og eyðilegði bóka-
kostinn.
Múraði fyrir dyrnar
„Þessi gluggi hérna breyttist í inn-
gang síðustu vikur,“ segir Singh
glottandi nokkrum dögum síðar og
bendir á glugga hátt yfir afgreiðslu-
borðinu. „Ég kom nokkrum sinnum
að hér á báti þessa daga og kíkti inn,
til að sjá hvort vatnið flæddi nokkuð
upp tröppurnar. Það gerðist sem
betur fer ekki, múrhleðslan hélt,“
segir hann.
Bækurnar í versluninni eru alltaf í
plasti og raðað þétt í hillurnar, til að
raki komist ekki að pappírnum og
þær verpist ekki. Og plastið hefur
bjargað miklu og þegar ég kem hef-
ur múrhleðslan verið rifin frá dyr-
unum og inni ganga bæði viftur og
tæki sem draga úr raka. Singh og að-
stoðarmenn hans umstafla bókum á
gólfinu og þurrka af. Hann stefnir að
því að opna verslunina formlega aft-
ur eftir tvo daga eftir tveggja vikna
lokun vegna flóðanna. Þó að í orði
kveðnu sé ekki opið reka vinir og vel-
unnarar látlaust inn nefið, spyrja
fregna og fagna því að bækurnar hafi
ekki skemmst. Eins og í fyrri heim-
sóknum fer Singh strax að benda
mér á áhugaverðar bækur, sem ég
tek úr plastinu og skoða.
Singh hóf bóksölu í þarnæsta húsi
fyrir 23 árum. Og hann segir aldrei
annað hafa komið til greina en að
hefja viðskipti í sinni góðu heima-
borg, Varanasi.
„Mér finnst gott hvað stemningin
er afslöppuð hérna og allt innan seil-
ingar,“ segir hann.„Þetta er ekki há-
vaðasöm stórborg eins og Delí þar
sem fara þarf iðulega tugi kílómetra
til að sinna einhverjum erindum.
Hér þarf ég bara að taka tvö, þrjú
skref í aðra hvora áttina til að sinna
því nauðsynlegasta. það finnst mér
notalegt. Og það eru bara nokkur
skref niður að Ganges að fara í bað.
Ég hef aldrei flutt á brott. Hér
fæddist ég, ólst upp nærri Kedar
Ghat um tvo kílómetra héðan, og hér
gekk ég líka í skóla.“ Hann sinnir
erindi gests sem rekur inn nefið og
bætir að því loknu við: „Hér er mín
miðja, ró í óreiðu lífsins.“
Eins og sálir verkanna
Ég er forvitinn um hvort Rakesh
Singh hafi lagt upp með það frá byrj-
un rekstrarins að hafa þetta afar
fjölbreytilega úrval bóka að selja.
„Nei, alls ekki. En ég lærði hratt
af samskiptum við gesti sem komu,
ekki síst af samtölum við myndlist-
armenn og ljósmyndara, og smám
saman þroskaðist smekkur minn.
Sem dæmi hafði ég aldrei kunnað að
meta svarthvíta ljósmyndun. Ég
skildi ekki hvers vegna menn gerðu
litlausar myndir þegar allir þessir
spennandi litir væru í umhverfinu!
En svo sá ég dag einn í auglýsingu
frá bókabúð í Bombay kápu bók-
arinnar Workers eftir ljósmynd-
arann Sebastião Salgado. Ég hreifst
af kápunni án þess að hafa minnstu
hugmynd um hver Salgado væri eða
þekkja haus eða sporð á heimilda-
ljósmyndun. En ég pantaði bókina –
þetta var árið 1997 – og þegar hún
barst brá mér að sjá að hún kostaði
3.000 rúpíur! Ég dauðsá eftir að hafa
eytt svona miklum peningum í bók-
ina, fannst hún vissulega falleg en
líka að ég ætti ekki að blanda eigin
áhugamálum inn í reksturinn. Slíkt
myndi ganga af fyrirtækinu dauðu.
En eftir að hafa svo farið gegnum
bókina, sem er afar fallega hönnuð
og prentuð, fór ég að kunna betur að
meta svarthvítar myndir en þær í lit.
Svona er þetta ferli; maður er alltaf
að læra og þroskast,“ segir Singh
brosandi og fyrir aftan hann má sjá í
hillu tvö eintök af Workers ásamt
fleiri merkum bókum ljósmyndara.
„En þroskaferlið tekur tíma. Eins
var það með bókmenntir,“ segir
hann. „Bókmenntasmekkur minn
hefur byggst upp í löngu ferli, allar
götur frá árinu 1996. Og ég læri eitt-
hvað nýtt á hverjum degi.“
– Lestu mikið?
„Já, en ekki síður bókagagnrýni
en bækurnar sjálfar. Það er mikil-
vægt vegna innkaupa fyrir búðina.
Dómar hjálpa mér við að velja bæk-
ur en stundum vel ég líka bækur út
frá kápunni,“ viðurkennir hann
glottandi. „Og bókarkápur eru mikil-
vægar, þær eru eins og sálir verk-
anna – kjarna þeirra má koma fyrir á
kápunni þegar vel tekst til, í ljós-
mynd eða vel lukkaðri hönnun.“
– Hér inni er furðulega fjöl-
breytilegt úrval bóka um trúar-
brögð, ljóðabækur, heimspeki-
verk …
„… sagnfræði, stjórnmál, hvers-
kyns fræði; kynjafræði, póstmódern-
ismi, bækur um textíl, myndlist …“
telur Singh áfram upp.
Ég segist vera bókmenntafræð-
ingur að mennt og minnist þess vel
hvað ég varð undrandi í minni fyrstu
heimsókn í verslunina að sjá svo
margar merkisbækur á því sviði í
verslun þarna við bakka Ganges.
„Já, ég man að í fyrra sagðist þú
finna hér allar bækurnar sem þú
hafðir verið að nota í ljósmynda-
kennslu á Íslandi,“ segir kaupmað-
urinn og brosir.
Verður að vera öðruvísi
– Og ég er viss um að þú selur ekki
mörg eintök af þeim sumum.
„Það er satt. Bókaverslanir mega
ekki bara bjóða upp á bækur sem
seljast! Það er ekkert gaman að
koma í bókabúð sem býður bara upp
á allar sömu bækurnar og allar hin-
ar. Mín verslun verður að vera öðru-
vísi. Þetta er til að mynda einstak-
lega ljósmyndavæn borg en það er
ekkert áhugavert að sjá bara „fal-
legar“ myndir frá borginni heldur
þarf líka að birtast heimspekilegri
hlið í ljósmyndabókum, verk sem
kalla á hugsun og íhugun. Ljós-
myndir um dauðann eru til að mynda
áhugavert efni, rétt eins og ljós-
mydun og stríð – bækur þurfa að
sýna fólki nýjar hliðar á heiminum.
Það er mikilvægt að bjóða upp á fjöl-
breytilegt úrval slíkra bóka, jafnvel
þótt þær seljist ekki allar vel. Þær
verða bara að fást hér!
Ég ítreka að það er ekki stóra mál-
ið að þessar bækur seljist allar upp,“
segir Singh og hendir á dýrar ljós-
myndabækur sem fylla margar hill-
ur. „Sala er ekki minn mælikvarði á
góðan rekstur … Ef ég hugsaði
þannig myndi ég bara bjóða upp á
bækur af metsölulistum en því miður
fara sífellt fleiri bóksalar út í það.
Það hversu hratt bækur fljúga úr
hillunum hefur aldrei verið fengsælt
gæðamat við rekstur búða.“
Í fyrri heimsóknum í Harmony hef
ég notið þess að ræða indverskar
bókmenntir við Singh og hef fengið
frá honum góð ráð. Hann segist
stundum hika við að svara spurn-
ingum um bækur sem hann kann
ekki að meta, því hann ráði þá fólki
hreinlega frá því að kaupa. En hverj-
ir eru hans eftirlætis höfundar?
„Amitav Gosh vinnur á áhugaverð-
an hátt með söguna og vefur sögu-
legum staðreyndum og tímabilum
vel saman við persónusögur. Bestu
sögur hans eru eins og tímavélar;
flytja manninn í tíma sagnanna á fal-
legan hátt. Rohinton Mistry kann ég
vel að meta, ekki síst A Fine Balance
en þar er pólitísku senunni hér lýst á
snjallan hátt. Svo er ég hrifinn af
skrifum Jhumpa Lahiri en hún býr í
Bandaríkjunum og lýsir með áhuga-
verðum hætti veruleika annarrar
kynslóðar Indverja þar. Mér finnst
oft gaman að lesa um núning ólíkra
menningarheima.“
Rakesh Sing er aftur tekinn að
stafla bókum og þegar ég kveð að
sinni ítrekar hann hvað bækur séu
mikilvægar fyrir menntun og al-
menna þekkingu. „Það mikilvægasta
sem heimurinn þarf í dag er góð
menntun og góð heilsa,“ segir hann.
„Það leysir svo margt ef fólk fær
góða menntun – og hún felst alls ekki
bara í góðum einkunnum. Hún snýst
ekki síður um að þroska með sér
næmi fyrir umhverfinu og samkennd
með öðru fólki. Og læsi er lykillinn
að svo mörgu.“
Hér er mín miðja, ró í óreiðu lífsins
Afar gott úrval bóka er að finna í verslun við bakka Gangesfljóts í hinni helgu borg Varanasi
„Bókaverslanir mega ekki bara bjóða upp á bækur sem seljast!“ segir bóksalinn Rakesh Singh
Morgunblaðið/Einar Falur
Hugsjónamaður „Það er ekki stóra málið að þessar bækur seljist allar upp,“ segir Rakesh Singh og raðar hér
skáldverkum þétt í hillur sem lagðar eru undir slíkar sögur. Úrval indverskra sem alþjóðlegra bóka er afar gott.
Þétt skipað Horft fram eftir versl-
uninni þar sem Singh situr fremst.
Harmony Inngangurinn lætur lítið
yfir sér en hér var hlaðið fyrir.