Skessuhorn


Skessuhorn - 06.02.2019, Blaðsíða 23

Skessuhorn - 06.02.2019, Blaðsíða 23
MIÐVIKUDAGUR 6. FEBRÚAR 2019 23 Vísnahorn Jæja gott fólk. Þar er fyrst til að taka að ráðningin á vísnagátunni í síðasta blaði er „Ófeigur Oddsson frá Mörk.“ Eini maðurinn sem sýndi einhver við- brögð við gátunni var Gunnar Gauti Gunnars- son dýralæknir en hann átti hvort sem var báðar bækurnar sem hefðu komið til greina í verðlaun þannig að það féll um sjálft sig. En hvað um það. Ein af þeim vísum sem blessunin hún amma mín tautaði stundum fyrir munni sér meðan hún baslaði við uppeldið á dóttursyninum með frek- ar litlum árangri hljóðaði svo: Bjarni nefndur baukur, brosa margir að. Er hann ættarlaukur, allir vita það. Nú langar mig að vita hvort nokkur kann- ast við þessa vísu og þá hugsanlega um til- drög hennar eða höfund sem ég man ekki til að gamla konan hafi nokkru sinni nefnt enda á þeim tíma lítill áhugi vaknaður fyrir slík- um fróðleik. Hvað um það, gestakomur hafa löngum lífgað hvunndaginn í dreifbýlinu en eftir tiltekna gestakomu varð Sveinbirni Bein- teinssyni að orði: Efni það sem um var spurt ekki verður kannað. Samt er víst hann bar á burt bæði frjálst og annað. Bragi Jónsson eða Refur bóndi öðru nafni var staddur við guðsþjónustu þegar honum datt eftirfarandi í hug og hefði kannske verið heppilegt fyrir þann sem Sveinbjörn kvað um að vera örlítið kirkjuræknari: Stendur oss um alla jörð opin Drottins kirkja. Mun ei sérhver messugjörð manninn bæta og styrkja? Næsta vísa Refs bónda mun hafa orðið til út af stjórnmálaástandi þeirra tíma og er svosem ekki að sjá að mönnunum hafi þokað mikið áleiðis: Hörgull er á hagsýni, harðla smátt um framsýni. Þrot er ei á þröngsýni en þó er mest af rangsýni. Það er margt sem mönnunum dettur í hug. Sérstaklega utanbæjarmönnum eins og flestir vita en þessi er allavega eftir Baldur Eiríksson sem væntanlega hefur ýmist verið heimamað- ur eða utanbæjar eftir staðsetningu á hverjum tíma: Löngum rægja lygarar, löngum hlæja afglapar. Eru á gægjum alstaðar utanbæjarspéfuglar. Það er nú svo með bæði utan og innan- bæjarspéfugla að þeir þurfa með einhverjum hætti að afla sér lífsviðurværis og stundum að grípa þau tækifæri sem bjóðast. Sumarið 1942 fór Rósberg Snædal í uppskipunarvinnu einn sælan sunnudagsmorgun og stakk þá einn vinnufélagi hans að honum þessari vísu: Rósberg snýr á svipinn súr sjón að víra-flagði. Nuddar stírur augum úr ekki hýr í bragði. Eftir augnablik kom svarið: Betra er ef svefn og súr sálaraugun blindar, að þegja en grafa orð sín úr undirdjúpum þindar. Á þorranum ástundar fólk gjarnan að næra sig á ýmsum þjóðlegum réttum sem voru reyndar hversdagsmatur á flestum heimilum lengi vel og eru jafnvel enn. Sumir gera mikið úr þeim kjarki sínum að þora að smakka slíkt sem hélt þó í okkur líftórunni gegnum ald- irnar enda hefur það aldrei þótt góður sið- ur að nýta ekki skepnuna til fullnustu þegar hún hefur á annað borð verið aflífuð. Ingólfur Ómar hugsaði allavega heldur gott til matar- ins: Nú er best að kýla kvið kjamsa vel og lengi. Hangikjöt og söltuð svið súran pung og rengi. Bragðið kæsta bætir geð bros ég set á trýnið. Hákarlsbita í trantinn treð og teyga brennivínið. Fleiri hafa lofsamað þorramatinn bæði hátt og í hljóði og stundum notað til þess rím og stuðla. Hákon Aðalsteinsson hafði þetta orða- lag: Fegurð dýra meta má og mæra þau í orði en það er fögur sjón að sjá súran hval á borði. ,,Þær launa fyrir sig þorrablíðurnar“ var stundum sagt og sumir höfðu mestu ótrú á því ef þorrinn var góður. Þá yrði bara verri vorkoman í staðinn en vissulega sáu líka sumir hrakspár í hverju horni. Hvað um það líklega hefur það verið á þorranum 1979 sem Aðal- björg Skarphéðinsdóttir kvað: Þorri karlinn þeytir snjó, þykist allur vera undrasnjall með yndi nóg og enga galla bera. Eitt sem menn hafa leikið sér að er að snúa saman ó- eða illbotnandi fyrriparta og láta svo aðra reyna sig. Eftirfarandi fyrripartur mun vera að minnsta kosti um 100 ára gamall en botninn greinilega nokkru yngri: Vond er gigt í vinstri öxl verri þó í hægri mjöðm einsog skáldið Aldous Huxl- ey er verri en Kristmann Gvöðm. Annan botn rakst ég á og í þeirri útgáfu hljóðar vísan svo: Vond er gigt í vinstri öxl, verri þó í hægri mjöðm. Eystra þykir ekki mjögsl- æmt að heita Pétur Gvöðm. Enga hugmynd hef ég hinsvegar um höf- unda hvorki að fyrriparti né botnum en ekki hefur þá skort hugmyndaflug. Svo mikið er víst. Í þingmannstíð Gylfa Þ Gíslasonar þótti mörgum sem andaði heldur köldu frá honum til bænda landsins og kom þá fyrir að menn reyndu að gjalda líku líkt. Eftirfarandi mun vera eftir Gísla Björgvinsson í Þrastahlíð: Að launa þér sem verðugt væri, verður gert á öðrum stað. En einhvers staðar á ég snæri ef þig skyldi vanta það. Sigurður E. Hlíðar var lengi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og bjó á Akureyri ef ég veit rétt. Þó honum gengi yfirleitt vel í kosn- ingum þótti honum vissara að minna Akur- eyringa öðru hvoru á að þingmennska hans væri í þeirra þágu og alltaf væru þeir blessaðir þingmennirnir nú eitthvað að úðra fyrir kjós- endur. Jón Sigurðsson verkstjóri hjá Akureyr- arbæ stakk þessu að honum: Varla efast þarf um það, að þeir fyrir okkur vinni, fyrst þó skari eldinn að eigin köku sinni. Jón Ósmann var lengi ferjumaður við vest- urósinn á Héraðsvötnum. Heljarmenni að burðum en örlítið ölkær og svosem til margar sögur af kröftum hans og þreki. Kofa byggði hann sér við ferjustaðinn sem hann nefndi Furðustrendur en eftir fráfall hans orti Rögn- valdur í Réttarholti: Furðustranda steingerð borg starir hrygg í bláinn, ósinn hefur ekka af sorg eftir vininn dáinn. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Eru á gægjum alstaðar - utanbæjarspéfuglar Fimmtugasta og fjórða þorrablót Hjónaklúbbs Eyrarsveitar var hald- ið í Grundarfirði laugardaginn 2. febrúar síðastliðinn og þótti það heppnast einstaklega vel. Skemmti- nefndin stóð vel fyrir sínu er hún fór yfir atburði síðasta árs undir gellandi hlátrasköllum viðstaddra. Það var svo Bjargarsteinn sem sá til þess að allir fengju magafylli og rúmlega það af gómsætum þorra- mat. tfk Frábært þorrablót Hjónaklúbbs Eyrarsveitar Venju fremur hefur verið kalt á landinu undanfarna daga. Þessa miðsvetrarmynd tók Þorleifur Geirsson í Borgarnesi. Frostið á laugardagsmorgninum fór í 15,5 gráður við Þórólfsgötuna, í logni og heiðskírum himni. Hér er lins- unni beint yfir Borgarfjörðinn og að snævi þöktum fjöllunum. mm Kuldatíð að undanförnu Þorra var blótað í Ólafsvík síðastlið- inn laugardag. Að blótinu í Ólafsvík standa Átthagafélag Fróðhreppinga, Kvenfélag Ólafsvíkur, Leikfélag Ólafsvíkur, Lionsklúbbur Ólafsvíkur og Lionsklúbburinn Rán. Það er allt- af líf og fjör á þorrablótunum í Ólafs- vík og mjög vel mætt að þessu sinni. Seldust rúmlega 260 miðar á blótið og gaman að sjá að margir brottflutt- ir Ólsarar eru farnir að mæta á blót- ið. Veitingahúsið Sker sá um þorra- matinn og var hann mjög góður og vel úti látinn. Einar Magnús Gunn- laugsson, formaður þorrablótsnefnd- ar, sá um veislustjórn eins og honum einum er lagið. Sóley Jónsdóttir flutti minni karla og Hilmar Már Arason minni kvenna við góðar undirtekt- ir blótsgesta. Skemmtiatriðin voru ekki af verri endanum enda búið að leggja mikla vinnu í þau og höfðu nefndarmenn og konur í þorrablóts- nefndinni ekki sést heima hjá sér síð- ustu dagana fyrir blótið. Voru atrið- in bæði leikin og sungin ásamt því að búið var að útbúa frábært myndband sem spilað var. Gerðust öll atrið- in í Happyvík enda íbúar Snæfells- bæjar þeir ánægðustu á landinu eins og fram kom í fréttum á síðasta ári. Þorrablótinu lauk svo með dansleik þar sem hljómsveitin Band-menn sáu um fjörið, tókst þeim það mjög vel og gáfu þeir sér ekki einu sinni tíma til að taka eina pásu allt ballið frekar en þeir sem á dansgóflinu voru. Þess má geta að Þorra verður blótað á Hellissandi næsta laugardag og verð- ur sama fjörið þar ef að líkum lætur. þa Happyvíkingar skemmtu sér á þorrablóti

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.