Bændablaðið - 23.06.2016, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. júní 2016
Elsti þéttbýliskjarni á Íslandi
er Þykkvibær í Djúpárhreppi.
Þykkvibær er í landnámi
Þorkels bjálfa sem bjó á Háfi.
Allt landnámið var að heita
ein samfelld slétta, fyrir utan
þrjá hóla.
Nafnið Þykkvibær er hugsan-
lega dregið af þykkvaþangi, öðru
nafni klóþangi. Finnur Jónsson
biskup benti á þann möguleika,
í kirkjusögu sinni, að Þykkvibær
væri afbökun á orðinu þéttbýli.
Þykkvibær er að fornu mati
talinn standa Reykjavík framar
að gæðum. Hann var talinn geta
borið 60 kúa þunga en Reykjavík
36 kúa þunga. Á þeim tíma sem
matið var gert voru 12 býli í
Reykjavík en 15 í Þykkvabæ,
en fólksfjöldi mun hafa verið
svipaður. Þess ber þó að geta
að Þykkvibær hafði orðið fyrir
miklu áfalli skömmu áður, þegar
útræði tók af við Rangárós og
býlum fækkaði um þriðjung.
Samkvæmt Jarðabók Árna
Magnússonar og Páls Vídalíns
var mikið um sel, silungsveiði
og rekahlunnindi í Þykkvabæ og
hefur það haft mikil áhrif á sókn
fólks þangað.
Í sóknarlýsingu séra Brynjólfs
Guðmundssonar í Kálfholti frá
1840 var siðferði nokkuð gott í
sókn hans nema ef vera skyldi
í Þykkvabæ. Hann segir meðal
annars: „Siðferði er hér vel í
meðallagi, nema ef það væri
nokkuð miður í Þykkvabænum,
því misjafn sauður er í mörgu
fé. Eru þar kannski menn, sem
glettnir eru kallaðir á fjörum
þegar rekatíminn er, og ekki
eru þar allir sem áreiðanlegastir
í orðum sínum, sem oft verður
orsök til ryskinga, og er orsök
til þess iðjuleysi margra ungra
manna þar, og sjálfræði. Þarna
má þó ekki segja, að siðferðinu
fari aftur yfir höfuð að tala.
Brennivínsdrykkjurnar líka of
almennar hér, eins og víða mun
við brenna.“
Þótt fólki í Þykkvabæ fækk-
aði nokkuð með köflum, fjölgaði
þar furðu fljótt aftur af aðkomu-
fólki. Margir af þeim sem í
Þykkvabæinn fluttust voru flótta-
menn undan kúgun og örbirgð.
Þykkbæingum mun helst hafa
verið fundið það til foráttu að
þeir átu hrossakjöt. Nágrannar
þeirra hneyksluðust mjög á
hrossakjötsátinu og töldu þá
ókirkjuhæfa vegna þess. Bændur
í nágrannasveitarfélögunum
létu þó hneykslun sína ekki
aftra sér frá því að reka heilu
stóðin til slátrunar í Þykkvabæ.
Heimamenn máttu hirða af þeim
allt nema hárnar. Svo mikið af
hrossakjöti safnaðist á suma bæi
að það skorti salt til að geyma
það. Megn ýldulykt var því oft í
kotunum og settist hún í föt og
sagt er að fólk hafi neytt kjötsins
eins lengi og það hafði nokkra
lyst á því.
Eftir að kartöflurækt hófst í
Þykkvabæ fór að bera á verum
sem seinna hafa verið kallaðar
kartöfluálfar. Álfar þessir eru litl-
ir vexti, með stórt höfuð, stuttar
hendur og fætur og feiknastór
eyru. Kunnugir segja að þeir
berist í sveitina með álftum á
vorin þegar þær stoppa á leið
til varpstöðva sinna. Álfar þess-
ir eru sagðir bæði til gagns og
ógagns. Á sumrin eru þeir sagðir
hlúa að kartöflunum í görðunum,
en á veturna stela þeir þeim úr
geymslunum. Á haustin þegar
bændurnir eru að taka upp sést
oft til kartöfluálfanna er þeir
skjótast milli raðanna og stela
kartöflum. Sagt er að þeir lifi
einungis á kartöflum og búi
neðanjarðar. /VH
Þykkvibær
Nú líður að forsetakosningum og
er við hæfi að minnast þess að
forseti Íslands hefur frá upphafi
setið ágæta bújörð á Álftanesi, þá
stærstu þar, nú í sveitarfélaginu
Garðabæ.
Þá er vert að hafa í huga að ekki er
langt liðið síðan veruleg sjósókn og
landbúnaður einkenndu Álftanesið
en síðustu áratugina hefur þéttbýlis-
myndun tekið yfir og ásýnd nessins
hefur gjörbreyst.
Nábýli við konungsvaldið
Um aldir voru Álftnesingar í nábýli
við konungsvaldið eða allt til 1804.
Lengi voru á Bessastöðum hirðstjór-
ar, höfuðsmenn og fógetar en síðar
amtmenn og landfógetar.
Flestir voru þessir fulltrúar
Danakonungs danskir eða norskir.
Þeir voru misvel látnir, sumir hinir
mætustu menn sem sinntu ýmsum
framfaramálum þeirra tíma, en
nokkrir voru til vandræða, þótt
ekki sé meira sagt. Lengi vel var
húsakostur lélegur, mest úr timbri
en að hluta úr torfi. Fyrst mun hafa
verið byggt á Bessastöðum hús úr
steini upp úr miðri 18. öld og stein-
kirkja var reist þar skömmu síðar.
Öll gripahús voru úr torfi, grjóti og
timbri fram á öndverða 20. öld, líkt
og annars staðar á landinu.
Tengsl við Bessastaðaskóla
Á Álftanesi voru mikil tengsl
við Bessastaðaskóla sem stóð
þar frá 1805–1846 og var forveri
Menntaskólans í Reykjavík.
Í Bessastaðaskóla var kennt
á íslensku en ekki latínu eins og
áður var venjan, og bjuggu flestir
kennararnir á jörðum þar á nes-
inu, sumir blómlegum búskap. Í
Bessastaðaskóla voru í læri ýmsir
þeirra sem urðu síðar þekktir í
þjóðarsögunni, svo sem Jónas
Hallgrímsson, Konráð Gíslason,
Tómas Sæmundsson og Benedikt
Gröndal. Að minnsta kosti einhver
hluti matarins sem skólasvein-
ar neyttu kom af nesinu, bæði frá
Bessastöðum og öðrum jörðum,
sennilega mest kjöt, mjólk og fisk-
ur en grænmetis er ekki mikið getið
þótt á Bessastöðum og öðrum jörð-
um á Álftanesi hafi verið töluverð
garðrækt á seinni hluta 18. aldar.
Sagan segir að í Bessastaðaskóla
hafi sýra verið vinsæll svaladrykk-
ur enda vatnsból ekki gott, en vín
var sjaldan um hönd haft og sælgæti
lítið.
Landgæði á Álftanesi
Miðað við landgæði í Gullbringu-
sýslu töldust þau ágæt á Álftanesi,
ekki síst á Bessastöðum sem er land-
námsjörð. Jörðunum þar mætti lýsa,
í sem fæstum orðum, sem láglendum
sjávarjörðum með all vel gróið land,
mest valllendi en þó einnig nokkurt
mýrlendi, þar sem saman fór ágæt
land- og fjörubeit á öllum árstím-
um enda snjólétt í flestum vetrum.
Sauðfé varð þó aldrei margt á nes-
inu.
Afréttanot komu áður að gagni
í hraunum og fjalllendi ofan
Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
Álftanesið hefur nú verið fjár-
laust um skeið en hefur beitar-
rétt í girðingarhólfi í Krýsuvík.
Heildarstærð nessins er tæplega 600
hektarar, jarðir eru fremur landlitlar,
en Bessastaðir eru og voru þeirra
stærst, um 170 hektarar, sem getur
talist meðaljörð á íslenskan mæli-
kvarða. Mikil tún- og garðrækt var
á Álftanesi en stærsta túnið var á
Bessastöðum, 50 hektarar. Þá má
ekki gleyma verulegum hlunnindum
svo sem eggjatöku og æðarvarpi,
sérstaklega í Bessastaðanesi.
Sjósókn frá Álftanesi
Á meðal framfara í atvinnuháttum á
Álftanesi var sjósókn, sem var orðin
veruleg á seinni hluta 18. aldar og
efldist mjög á 19. öld. Var svo komið
að fiskveiðar voru orðnar undirstaða
hagsældar á nesinu fram undir alda-
mótin 1900. Þá urðu þáttaskil þegar
ofveiði innlendra sem erlendra sjó-
manna á Faxaflóa leiddi til þess
að sjósókn lagðist nær alveg af á
Álftanesi og landbúnaður, einkum
mjólkurframleiðsla og garðrækt, tók
við. Þar voru lengi vel sannkallaðir
útvegsbændur. Einn þeirrra var dr.
Grímur Thomsen, sem var ásamt
konu sinni, Jakobínu Jónsdóttur,
með ágætan blandaðan búskap á
Bessastöðum 1868–1896 en jörðina
hafði hann keypt eftir þrjátíu ára
dvöl í Danmörku við nám og emb-
ættisstörf. Hann lét fiskveiðimál-
in til sín taka og skrifaði m.a. í
blöð um fiskveiðisamþykktir fyrir
Faxaflóasvæðið.
Eignarhald og búseta á
Bessastöðum
Allt frá 1868–1941 voru Bessastaðir
í einkaeign. Er eigendasaga Bessa-
staða merkur þáttur í sögu jarðar-
innar.
Smám saman var verið að
rækta land og bæta húsakost á
öllu þessu tímabili. Þar komu við
sögu, auk dr. Gríms Thomsen, þeir
Skúli Thoroddsen ritstjóri, Jón H.
Þorbergsson, bóndi og sauðfjárrækt-
arráðunautur, Björgúlfur Ólafsson
læknir og Sigurður Jónasson forstjóri
sem gaf ríkinu jörðina vorið 1941, þá
talin til höfuðbóla. Urðu Bessastaðir
þá bústaður Sveins Björnssonar, rík-
isstjóra og fyrsta forseta frá lýðveld-
isstofnun 1944. Þannig var forset-
um lýðveldisins ekki í kot vísað. Í
hugum nútímafólks eru Bessastaðir
því fyrst og fremst embættisbústaður
forsetanna fremur en bújörð. Líkt og
á Álftanesinu í heild var þó mikill
búskapur á Bessastöðum, einkum
nautgripa- og hænsnarækt, allt fram
á síðustu áratugi 20. aldar.
Breyting úr sveit í þéttbýli
Óvíða á landinu hefur sveitarbyggð
breyst jafn hratt í þéttbýlissamfé-
lag og Álftanes, mest um og upp úr
síðustu aldamótum. Jafnframt hefur
íbúafjöldinn margfaldast. Í Jarðabók
Árna Magnússonar og Páls Vídalíns
frá 1703 var skráð samtals 21 jörð á
Álftanesi og í Jarðatali 1940 er gefin
heyuppskera á 21 jörð, þó ekki á
öllum þeim sömu og 1703.
Í meðfylgjandi töflu eru taldar
upp í stafrófsröð helstu jarðirnar
þar sem enn var stundaður venju-
legur sveitabúskapur fram eftir 20.
öldinni og á sumum fram yfir síð-
ustu aldamót. Sem dæmi um þró-
unina má geta þess að samkvæmt
forðagæsluskýrslum Búnaðarfélags
Íslands voru árið 1965 samtals 647
vetrarfóðraðar kindur á Álftanesi.
Þrjátíu árum síðar voru þær aðeins
33 og upp úr aldamótunum var orðið
fjárlaust. Skömmu áður fóru síðustu
kýrnar og var Sviðholt síðasta býlið
með mjólkursölu og fjárbúskap á
nesinu. Hrossaeign fór aftur á móti
vaxandi á þessum árum og hefur sér-
stakt hesthúsahverfi verið á Álftanesi
um margra ára skeið. Dálítið er um
hænsni til heimilisnota en ekki er
mikið eftir af túnum til að heyja,
nema á Bessastöðum. Þar hefur
búskapur í raun aldrei lagst af því
að tún eru heyjuð, úthagabeit er leigð
fyrir reiðhesta og æðarvarp er nytjað
sem fyrr.
Á meðal fróðlegra rita um sögu-
lega þróun á Álftanesi er vert að
benda á bók sem heitir Álftnesinga
saga, Bessastaðahreppur – fortíð
og sagnir, eftir Önnu Ólafsdóttur
Björnsson sagnfræðing sem
Bókaútgáfan Þjóðsaga gaf út 1996.
Höfundur:
Dr. Ólafur Rúnar Dýrmundsson,
fyrrverandi landsráðunautur
hjá Bænda samtökum Íslands, nú
sjálfstætt starfandi búvísinda-
maður, oldyrm@gmail.com).
Sveitin Álftanes og aðsetur forseta Íslands:
Bessastaðir − stærsta jörðin á nesinu
STEKKUR
Síðsumarkvöld á Bessastöðum. Mynd /HKr.
Helstu bújarðir
á Álftanesi á 20. öld
Akrakot
Akurgerði
Bessastaðir
Bjarnastaðir
Breiðabólstaður
Deild
Eyvindarstaðir
Gerðakot
Gesthús
Grund
Hlið
Hliðsnes
Kirkjuból
Landakot
Skógtjörn
Sveinskot
Sviðholt
Vestri-Skógtjörn