Bændablaðið - 26.04.2018, Side 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. apríl 2018
Lýðháskólinn settur á fót á Flateyri:
Frelsi, þekking og þroski
Í kynningu um Lýðháskólann
á Flateyri segir að skólinn sé
samfélag nemenda og kennara
sem býður fólki tækifæri til að
þroskast og mennta sig í samstarfi
við íbúa á Flateyri. Einkunnarorð
skólans eru frelsi, þekking og
þroski.
Helena Jónsdóttir, skólastjóri
Lýðháskólans á Flateyri, segir
að mikil undirbúningsvinna
liggi að baki stofnun skólans við
skipulagningu og gerð námskrár.
„Í janúar síðastliðinn var svo farið
á fulla ferð eftir að fékkst fjármagn
til að ráða framkvæmdastjóra til að
keyra verkefnið áfram. Formlega
var skólinn síðan settur á laggirnar
15. apríl síðastliðinn og auglýst eftir
umsóknum.“
Tvær námsbrautir
Að sögn Helenu verða kenndar
tvær námsbrautir við skólann og
er hver tvær annir með sex til sjö
námskeiðum, Hafið, fjöllin og þú og
Hugmyndir, heimurinn og þú, sem
hver um sig tekur við að hámarki
20 nemendum.
„Á námsbrautinni Hafið, fjöllin
og þú er lögð áhersla á að nýta
þær auðlindir sem til eru í náttúru,
menningu og samfélagi á Flateyri og
í nærsveitum og með námskeiðum
er lögð áhersla á færni, þekkingu
og verkefni sem miða að því að
nemendur verði færari í að ferðast
um í náttúrunni, njóta hennar og
nýta sér auðlindir hennar á öruggan
og umhverfisvænan máta.
Á hinni brautinni, sem kallast
Hugmyndir, heimurinn og þú, er
lögð áhersla á hugmyndavinnu og
sköpun og útfærslu í hvers kyns
formum, auk tjáningar og miðlunar.
Með námskeiðum er lögð áhersla
á ólík skapandi verkefni sem
miða að því að nemendur öðlist
færni í heimildaöflun, markvissri
hugmyndavinnu og sköpun í
ólíkum formum auk miðlunar til
samfélagsins.
Námskrá skólans er óhefð-
bundin og við leyfðum ímynduna-
raflinu að ráða og leituðum til þeirra
auðlinda sem er að finna á Flateyri,
bæði sem samfélag og náttúran í
kring og úr því urðu til þessar tvær
námsbrautir.“
Úti í öllum veðrum
Að sögn Helenu fer aðeins hluti
námsins við skólann fram innandyra
og í hefðbundnum kennslustofum.
„Við verðum á mismunandi stöðum
og stundum úti, í öllum veðrum og
stundum við líkamlega krefjandi
aðstæður. Við slíkar aðstæður er
nauðsynlegt að vera hreyfanlegur
og til í ýmislegt. Það er mikilvægt
að nemendur séu opnir fyrir nýjum
upplifunum og því að reyna á sig við
aðstæður sem þeir hafa ekki verið
í áður.
Uppbygging námsins
Kennsla við skólann hefst 19.
september næstkomandi og eru öll
námskeið kennd í tveggja vikna
stuttum en hnitmiðuðum lotum.
Helena segir að með stuttum
námslotum sé auðveldara fyrir
nemendur og kennara að einbeita
sér að hverju námskeiði fyrir sig og
kynna sér viðfangsefnin til hlítar.
„Einnig gefst svigrúm fyrir kennara
og nemendur til að staldra við
áhugaverð viðfangsefni hverju sinni.
Þetta fyrirkomulag skapar jafnframt
aukin tækifæri til að fá reynslumikið
fólk og fagaðila víðs vegar að af
landinu og utan úr heimi til að kenna
námskeið við skólann.“
Flateyri tilvalinn staður fyrir
lýðháskóla
„Umhverfi eins og á Flateyri býður
upp á flest sem þarf til sköpunar.
Hér er stutt í náttúruna og auðvelt að
skapa eitthvað í tengslum við hana.“
„Á skíðum skemmti ég mér“. Myndir / Lýðháskólann á Flateyri
Helena Jónsdóttir, skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri.
ráða mótun hennar.