Bændablaðið - 26.04.2018, Page 48
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. apríl 2018
Nú er sá tími kominn að leggja þarf
lokahönd á skipulag jarðvinnslu
og sáningar. Hagkvæm skilyrði
eru til aukinnar jarðræktar þetta
árið. Styrkir til jarðræktar hafa
verið hækkaðir. Heyfengur ársins
2017 var með afburðum góður
og því líklegt að fyrningar séu
nokkrar. Því má ætla að svigrúm
sé til þess að endurrækta og leggja
stund á sáðskipti.
Vert er að benda á mikilvægi
kornræktar í sáðskiptum. Bygg
getur nýtt sér uppsafnaðan
næringarefnaforða túnræktarinnar
og haft jarðvegsbætandi áhrif
þannig að uppskera korns eykst
annað árið sem það er ræktað í sama
stykkinu.
Nauðsynlegt að leggja vinnu í
jarðvinnsluna
Til að sáning takist vel þarf að
leggja vinnu í jarðvinnsluna og
brýnt er að huga að sýrustigi
jarðvegsins. Ólíkar tegundir gera
misjafnar kröfur bæði til sýrustigs
og jarðvinnslu. Sumar tegundir
þola lágt sýrustig betur en aðrar og
geta sprottið í misvel unnu landi
meðan slíkt kemur harkalega niður
á uppskeru annarra. Almennt má
segja að æskilegt sé að sýrustig sé
um pH 6 og vel unnin jörð skilar
ávallt betri uppskeru en slakari
jarðvinnsla.
Nota aðeins þau yrki sem reynst
hafa vel hérlendis
Aldrei verður of oft sagt að mjög
mikilvægt er að nota aðeins þau
yrki sem reynst hafa vel hérlendis.
Reynslan hefur sýnt að þótt yrki
standi sig vel í nálægum löndum eru
aðrar aðstæður hér á landi sem geta
gert það að verkum að illa gengur.
Óþarfi er að taka slíka áhættu við
sáningu, nóg er af þáttum sem erfitt
er að stýra þegar kemur að jarðrækt.
Hægt er að sjá hvaða yrki er
mælt með í ritinu Nytjaplöntur á
Íslandi sem er aðgengilegt á vef
LbhÍ (undir rannsóknir, útgefið
efni, Nytjaplöntur á Íslandi),
tilraunaniðurstöður er hægt að
sjá í jarðræktarskýrslum LbhÍ og
fjöldann allan af upplýsingum er að
finna í greinasafni landbúnaðarins,
www.landbunadur.is. Við hvetjum
bændur til að afla sér upplýsinga
um þau yrki sem þeir hyggjast nota.
Með hlýnandi loftslagi og
bættum búskaparháttum eru mikil
tækifæri sem vert er að nýta þegar
vel árar.
Hrannar Smári Hilmarsson,
tilraunastjóri í jarðrækt, LbhÍ
Þórey Ólöf Gylfadóttir,
lektor, Lbhí
...frá heilbrigði til hollustu
Nýliðunarstuðningur í landbúnaði
Nýliðar í landbúnaði sem eru
að hefja búskap eiga kost á að
sækja um nýliðunarstuðning í
landbúnaði. Þessi stuðningur er
hluti af búvörusamningi milli ríkis
og bænda, sem tók gildi 1. janúar
2017. Markmið stuðningsins
er að aðstoða nýliða að hefja
búskap og auðvelda ættliðaskipti
í landbúnaði. Matvælastofnun
ráðstafar fjármunum til
nýliðunarstuðnings.
Þetta er annað árið sem
nýliðunarstuðningur í landbúnaði er
veittur í samræmi við rammasamning
ríkis og bænda. Framlög beinast að
einstaklingum í eigin nafni eða til
lögaðila, þar sem nýliði á a.m.k.
25% hlut. Skilyrði sem einstaklingar
þurfa að uppfylla eru m.a. að þeir
séu á aldrinum 18-40 ára á árinu og
séu að kaupa búrekstur eða hlut í
búrekstri í fyrsta skipti eða hafa leigt
eða keypt búrekstur innan þriggja
ára frá 1. janúar 2015.
Matvælas to fnun mun
forgangsraða umsóknum eftir
þremur þáttum; menntun
umsækjenda, jafnréttissjónarmiðum
og heildarmati á umsókn skv. 18. gr.
reglugerðar um almennan stuðning
við landbúnað nr. 1180/2017.
Að sögn Jóns Baldurs Lorange,
framkvæmdastjóra búnaðarstofu
Matvælastofnunar, er vinnureglum
um forgangsröðun breytt frá því
í fyrra. Gagnrýni kom á fyrri
vinnureglur um forgangsröðun og
hefur nú verið tekið tillit til þeirra
við gerð nýrra vinnureglna sem
stofnunin mun vinna eftir. Við
gerð nýrra reglna hefur verið haft
að leiðarljósi að tryggja gegnsæi,
jafnræði umsækjenda og hlutleysi
matsaðila. Þannig er komið nýr
matsþáttur þar sem lagt er heildarmat
á nýliðunarumsókn þar sem hún
er metin eftir rökstuðningi, 5 ára
rekstraráætlun og framlegð, stærð
eignarhlutar í búrekstri og loks
starfsreynslu í landbúnaði frá 14 ára
aldri. Hvað varðar menntunarþáttinn
þá gefur viðurkennt búfræðinám auk
framhaldsnáms á sviði landbúnaðar
flest stig (10) og þá er viðurkennt
iðnnám metið til jafns við grunnám
við viðurkenndan háskóla, svo dæmi
sé tekið. Nánar er hægt að kynna
sér vinnureglur Matvælastofnunar
á heimasíðu stofnunarinnar, og á
rafrænni umsókn á Bændatorginu
þegar opnað verður fyrir umsóknir
3. maí n.k.
,,Stuðningur við nýliða
getur að hámarki numið 20% af
fjárfestingarkostnaði á árinu og
getur nýliði mest fengið 9 milljónir
í heildarstuðning. Forgangsröðun
umsókna felst í því að umsóknir
verða flokkaðar í þrjá flokka eftir
stigafjölda. Þær umsóknir sem fengu
21 til 30 stig eru í mesta forgangi,
umsóknir með 11–20 stig í öðrum
og loks umsóknir með færri stig í
minnsta forgangi. Byrjað verður á
að úthluta til þeirra umsækjenda
sem eru í efsta forgangshóp til að
tryggja að þeir hljóti sem mestan
stuðning til að hefja búskap. Ef
fjármunir verða þá afgangs þá
verður úthlutað til þeirra sem eru í
öðrum forgangshóp og að lokum, ef
fjármunir hrökkva til, til þeirra sem
eru í neðsta forgangshópi. Rétt er
að taka fram að þeir umsækjendur
sem fengu ekki úthlutað í fyrra eða
fengu ekki hámarksstuðning geta
sótt um að nýju í ár, svo fremi sem
þeir uppfylla ennþá skilyrði fyrir
nýliðunarstuðningi skv. reglugerð,“
sagði Jón Baldur.
Jóhanna Guðrún Snæfeld
Magnúsdóttir, sérfræðingur í
búnaðarmálum, hefur umsjón með
nýliðunarstuðningi í landbúnaði og
veitir frekari upplýsingar. Nýliðar
eru hvattir til að kynna sér vel ákvæði
IV. kafla reglugerðar nr. 1180/2017
og vinnureglur um forgangsröðun
umsókna.
Fræ í frjóa jörð
Bygg getur nýtt sér uppsafnaðan næringarefnaforða túnræktarinnar og haft jarðvegsbætandi áhrif þannig að uppskera korns eykst annað árið sem það er ræktað í sama stykkinu.
Þórey Ólöf Gylfadóttir við
sýnatöku.
LANDBÚNAÐARHÁSKÓLI ÍSLANDS