Bændablaðið - 28.03.2019, Blaðsíða 34
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. mars 201934
FURÐUVÉLAR&FARARTÆKI
Rafknúnar vinnuvélar eru síður
en svo nýjar af nálinni og stærsta
rafknúna grafan sem nokkru
sinni hefur verið smíðuð er af
gerðinni Bucyrus-Erie 1850B og
hefur viðurnefnið Big Brutus.
Hún er vissulega stærsta
rafknúna beltagrafa heimsins þó
til séu stærri námuvinnsluvélar.
Vélin var hönnuð og smíðuð
af Bucyrus-Erie fyrir Pittsburg
& Midway (P&M) kola-
námu fyrirtækið og fékk
tegundarnúmerið 1850B. Var
þetta þá og er enn stærsta
rafknúna grafan sem smíðuð hefur
verið og þótti á sínum tíma mikið
verkfræðilegt afrek. Big Brutus
var sett saman nærri Hallowell
í Cherokee-sýslu og kostaði á
sínum tíma um 6,5 milljónir
dollara.
Það þurfti 150 lestarvagna til
að flytja alla íhluti Big Brutus
á samsetningarstaðinn. Þá tók
það 52 menn 11 mánuði að setja
vélina saman, eða frá því í júní
1962 til maí 1963.
Skóflaði upp um 52
rúmkílómetrum af jarðvegi á ári
Þessi vél var smíðuð til að
annast mokstur í West Mineral
kolanámunni í suðausturhluta
Kansas í Bandaríkjunum sem
lokað var 1974. Þar var grafan
stöðugt í mokstri 24 tíma á
sólarhring sjö daga vikunnar í 11 ár
frá 1963 til 1974. Hún var þó ekki
að moka kolum heldur að moka
grjóti, mold og öðrum jarðvegi
ofan af kolalögum. Mokaði
hún meðal annars á
járnbrautarvagna og
dugði hver skóflufylli
til að fylla þrjá
lestarvagna.
Það voru engin
smáafköst sem þessi
vél afrekaði í mokstri
því hún fjarlægði um
20 metra þykkan
jarðveg af um 2,59
ferkílómetrum (einni
fermílu) á hverju ári.
Eða sem svarar 51,8
rúmkílómetrum af
jarðvegi á ári.
Þrjá menn þurfti til að stjórna
gröfunni og að sjálfsögðu
þurftu einhverjir þeirra að vera
menntaðir rafvirkjar.
Vegur 4.970 tonn og tekur allt
að 150 tonn í skófluna
Big Brutus er sannarlega engin
smásmíði og vegur nettó 4.200
tonn og er með 770 tonna ballest og
vegur því samtals 4.970 tonn. Hún
er og 48,8 metrar á hæð, 18 metrar
á breidd og 24,2 metrar á lengd.
Bóman er 46,5 metrar að lengd.
Skóflan tekur 68,8 rúmmetra eða
mest 150 tonn í einu.
Líður áfram á 0,35 km hraða
á klukkustund
Big Brutus er á Caterpillar-
beltum og dygði svo sem ekki
í neinn kappakstur, en gæti
mögulega reynt sig við skjaldböku.
Hámarkshraðinn á þessu flykki er
um 0,35 km á klukkustund, eða 5,8
metrar á mínútu.
Samtals 7.000 hestafla
rafmótorar
Tveir 3.500 hestafla rafmótorar
skiluðu að jafnaði 7.500 hestöflum
eða mest 15.000 hestöflum í
toppálagi. Það hefði hvorki verið
hægt að nota blýgeyma né nútíma
lithium-ion rafgeyma til að geyma
orkuna fyrir þennan risa. Því var
Big Brutus alltaf tengdur við
rafmagnskapal sem vélin dró á
eftir sér. Síðasta mánuðinn sem
vélin var í vinnu árið 1974 hljóðaði
rafmagnsreikningurinn upp á
27.000 dollara, sem samsvarar um
3,2 milljónum króna á núverandi
gengi.
Til að drýgja orkuna og spara
pening var aflið í niðursveiflu
og slökun á skóflu virkjað til að
framleiða raforku. Það er líkt og
gert er við virkjun á bremsuorku
í nútíma rafbílum.
5,5 tonn af málningu
Vélinni er vandlega haldið við. Í
eina umferð af málningu á gripinn
fara um 5,5 tonn af appelsínugulri
og svartri málningu.
Er nú stolt Big Brutus-safnsins
Big Brutus mokaði sig út úr
sínum síðasta jarðvegspytti í West
Mineral námunni í apríl 1974.
Stendur grafan enn á sama
stað og ánafnaði P&M Big
Brutus-safninu gripinn árið
1984, en safnið var opnað
1985. Þótti námufyrirtækinu
þá of kostnaðarsamt að rífa
vélina til að fjarlægja hana
af staðnum. Er safnið nú
tileinkað námuvinnslu á
svæðinu. Það er staðsett
rúmlega 11 km norður af
Columbus. Ef einhver vill
hafa samband við safnið
er hægt að senda netpóst á
bigbrutus@columbus-ks.
com. /HKr.
Big Brutus er nú safngripur á Big Brutus-safninu í Kansas. Myndir / Kansas Sampler Foundation ofl.
Stærsta rafknúna beltagrafan sem smíðuð hefur verið:
Fimm þúsund tonna
grafan Stóri Brútus
– Skóflaði upp um 52 rúmkílómetrum af jarðvegi á ári samfellt í 11 ár
Vorverkin hjá ræktendum eru
af fjölbreyttum toga og þegar
ekki er hægt að athafna sig
utanhúss vegna skafrennings
og blindhríðar er um að gera
að huga að pottaplöntum
innanhúss.
Veturinn er dálítið erfiður tími
fyrir margar tegundir pottaplantna,
myrkrið hrekkir þær sumar og
þær verða stundum rytjulegar
útlits en um leið og sól hækkar
á lofti glaðnar yfir plöntunum og
þær fara að undirbúa vaxtarsprett
sumarsins. Þá er líka tímabært hjá
húsráðanda að gera úttekt á stöðu
plantnanna, meðal annars hvort
þær hafi rótarráðrúm til vaxtar á
þessu ári.
Flestar pottaplöntur þola að
standa nokkur ár í sama potti en þó
getur verið gott ráð að bæta smá
lagi af nýrri og næringarríkri mold
ofan á í pottinum. Með tímanum
brotnar lífræna efnið í moldinni
niður og rúmmál þess minnkar
og moldarviðbótin bætir þeim
upp þessa rýrnun. Best er að nota
mold sem er sérstaklega ætluð
pottaplöntum, hún er blönduð
áburði sem hentar plöntunum.
Eftir sem áður er þó nauðsynlegt
að vökva plönturnar reglulega
með daufri áburðarblöndu á
vaxtartímanum.
Potturinn þrengir að
Ef potturinn er orðinn of lítill fyrir
plöntuna þarf að umpotta henni
og koma henni í stærri pott eða
minnka plöntuna og setja hluta
hennar aftur í gamla pottinn,
allt eftir því hvað maður hefur
mikið pláss fyrir ræktunina. Við
umpottun er gott að hafa það í
huga að velja ekki allt of stóran
pott fyrir plöntuna, litlar plöntur
í mjög stórum pottum sýna oft
vanþrif, það er eins og þær þurfi
að fylla aðeins út í pottinn með
rótakerfinu áður en þær fara
af stað með yfirvöxtinn og þá
er verra að potturinn sé allt of
stór. Moldin á að vera hæfilega
næringarrík, laus við illgresi og
meindýr og hæfilega gróf að
byggingu. Ekki er gott að moldin
sé allt of fínt unnin, þá þjappast
hún of mikið saman í pottinum
þegar líður á ræktunartímann. Ef
um er að ræða plöntur sem vilja
ekki mjög rakaheldinn jarðveg er
sniðugt að blanda dálitlum vikri
saman við moldina, það tryggir
gott frárennsli.
Umpottunin sjálf tekur stutta
stund, þegar mold, pottar og
plöntur eru á staðnum. Plantan
er losuð varlega úr gamla
pottinum. Ef hún er föst í
pottinum er hægt að styðja við
plöntuna og moldarköggulinn
með annarri hendi, snúa pottinum
á hvolf og slá honum varlega
við borðbrúnina, þar til plantan
losnar úr pottinum. Ef ætlunin
er að umpotta plöntunni í stærri
pott er rótakerfið losað aðeins í
sundur að neðanverðu. Í botninn
á nýja pottinum er ágætt að setja
smá tuskubleðil yfir götin í
botninum, þá verður umhverfið
allt snyrtilegra við vökvun. Svo
má setja vikur eða steina í botninn
á pottinum ef vill, smá moldarlag
og þá plöntuna. Svo þarf að fylla
upp með mold allan hringinn í
kringum plöntuna, passa að
þjappa moldinni hæfilega niður
með plöntunni svo ekki verði þar
loftrými. Gott er að skilja eftir
smá borð á pottinum, þ.e. ekki
fylla hann alveg upp að börmum,
til að skapa rými fyrir vatnið
þegar maður vökvar.
Plöntu skipt
Ef ætlunin er að skipta plöntunni
og setja hluta hennar aftur í sama
pott þá er pottahnausnum skipt
í tvo eða fleiri hluta með því að
aðskilja mismunandi hvirfingar
plöntunnar og rekja rótakerfi
þeirra í sundur eða jafnvel með
því að skera hnausinn í sundur,
ef það á við. Einum plöntuhluta
er þá pottað í pottinn aftur eins
og lýst var hér að ofan og hinir
plöntuhlutarnir ýmist settir í aðra
potta eða í jarðgerð.
Að pottun lokinni er
nauðsynlegt að vökva plöntuna
vel næstu daga og eftir 1–2
vikur ætti plantan að vera komin
af stað með nýjan vöxt. Þá er
líka tímabært að fara að vökva
inniblómin með.
Guðríður Helgadóttir
garðyrkjufræðingur
GARÐYRKJUSKÓLI LBHÍ REYKJUM
Umpottun á
pottaplöntum
Umpottunin sjálf tekur stutta stund þegar mold, pottar og plöntur eru
á staðnum.