Dagblaðið Vísir - DV - 01.05.2020, Blaðsíða 15

Dagblaðið Vísir - DV - 01.05.2020, Blaðsíða 15
Dóra en þess ber að geta að Amy Poehler og fleiri stofn- uðu Upright Citizens Brigade leikhúsið í New York, sem rekur einnig umræddan skóla. „Það var rosalega dýrmæt reynsla. Þarna gafst mér tæki- færi til að stúdera þessa tækni og koma svo heim með þessa þekkingu. Sem síðan gerði mér kleift að byrja með þessa „senu“ og miðla þessu til ann- arra.“ Árið 2017 lærði Dóra sketsa- skrif og spuna hjá The Second City í Chicago, sem er nokkurs konar mekka spunaleiklistar- innar. Dóra bendir á að á bak við spuna sé gríðarlega mikil tækni. Rétt eins og í íþróttum þarf að þjálfa spunavöðvann. Reynslumiklir spunaleikarar geta auðveldlega spunnið heila leiksýningu út frá einu orði. Hún bendir á að spuni snúist fyrst og fremst um samskipti og hlustun. Eitthvað sem allir hafa gott af að tileinka sér. „Það er rosalega gaman að horfa á „pró“ improv-leikara sem hafa eytt mörgum árum í að tileinka sér þessa tækni. Það er alveg magnað hvað sumir þeirra geta töfrað fram.“ Frá árinu 2013 hefur Dóra, og seinna nemendur hennar, kennt námskeið í spunatækni: Improv-Haraldinn. Þangað mætir fólk á öllum aldri, frá átján ára og upp í áttrætt. Flestir þeirra hafa aldrei stig- ið á leiksvið áður. Dóra hefur einnig kennt spunatækni í meðferðinni í Svíþjóð. Hún segir algengt að fullorðið fólk kunni ekki, eða þá þori ekki, lengur að leika sér. „Margir af þeim sem koma á námskeiðin hafa ekki farið í almennilegt hláturskast í langan tíma. Það er ótrúlegt hvað það getur gert mikið fyrir fólk að sleppa sér aðeins og hlæja almennilega.“ Dóra segir að spuni geti í mörgum tilfellum hjálpað þeim sem eru að byggja sig upp, til dæmis eftir áföll. „Ég hef sjálf upplifað það að lenda í áföllum, og vera í þannig ástandi að ég treysti mér eng- an veginn til að fara á improv- æfingu. Svo hef ég drifið mig á æfingu, gleymt mér algjörlega og hlegið og hlegið. Jafnvel þó að ég hafi verið nýbúin að fá hræðilegar fréttir. Spuni er nefnilega svo mikil núvitund. Þú þarft að tæma hugann og vera á staðnum. Það er bannað að hugsa of mikið og dvelja í huganum. Einn kennarinn sem ég hafði úti var vanur að segja: Hugur- inn er hættulegt hverfi. Maður á aldrei að fara þangað einn.“ Nærgætni er mikilvæg Undanfarin misseri hefur Dóra líka haldið námskeið í sketsaskrifum. Rétt eins og spuni eru sketsaskrif eitthvað sem fólk lærir ekki á einum degi. Dóra segir að þeir sketsar sem flestir tengi við snúist að einhverju leyti um mannlega bresti, óvenjulega hegðun eða galla í fari fólks, á mjög ýktan hátt. Hún nefnir sem dæmi klass- ískan karakter úr Fóstbræðr- um: nöldurskjóðuna Indriða sem tuðar í sífellu um „eitt- hvað bank í ofnunum“. „Þó að þetta sé ýktur karakt- er, þá þekkja allir þessa týpu. Góður skets snýst um að benda á sannleikann, spegla sam- félagið og spegla áhorfendur.“ Dóra bendir á hvað grín sé mikilvægt listform. „Það getur haft svo mikil áhrif nefnilega. Það er hægt að nota grín til að breyta heiminum og varpa ljósi á það sem þarf að breyta.“ En er hægt að gera grín að hverju sem er? Má til dæmis gera grín að fötluðum, feitu fólki, barnaníði eða nauðg- unum? „Já, ég er á því að það megi nota hvaða umfjöllunarefni sem er, ef maður er nærgæt- inn. Þú þarft að vera mjög fær til að geta gert það. Ég myndi aldrei gera grín að minnihlutahópum eða fórnar- lömbum samt, mér finnst að grín eigi alltaf að kýla upp, ekki niður. Ef ég myndi skrifa skets þar sem er minnst á minnihlutahópa, þá myndi ég hugsa þetta þannig: Ef ég myndi sitja og horfa á þetta við hliðina á einhverjum sem er í þessum minnihlutahóp gæti ég þá hlegið og myndi sú manneskja líka hlæja? Ég vil ekki vera rætin með mínu gríni.“ Dóra tekur sem dæmi skets sem var tekinn upp fyrir seinasta Áramótaskaup en klipptur út á síðustu stundu. Í þeim skets var talað um sjálfs- víg. Sketsinn var á þá leið að nokkrar manneskjur voru að ræða saman og hver og einn gortaði sig af því sem hann eða hún var að gera í þágu umhverfisins, einn sagðist hafa kolefnisjafnað flug, ein borðaði ekki kjöt, einn sagð- ist ekki ætla að eignast börn og svo framvegis. Þá segir ein í hópnum: „Ég er búin að ákveða að kála mér, það er það minnsta sem ég get gert fyrir umhverfið.“ „Mér sjálfri fannst þetta mjög fyndið en við vorum samt hrædd um að þetta myndi stuða einhverja þarna úti og það vildum við alls ekki gera. Það var samt ekki verið að gera grín að sjálfsvígum, það var verið að gera grín að þessari keppni sem við erum í við hvert annað, keppni sem er ekki hægt að vinna.“ En það var hárrétt ákvörðun að taka þennan skets út úr Áramóta- skaupinu. Botninn varð dýpri og dýpri Á meðferðarheimilinu þar sem Dóra dvelur eru konur í miklum minnihluta. Og hún tekur undir með því að alkó- hólismi sé meira tabú á meðal kvenna heldur en karla. Meira falinn. „Mér finnst ekkert mál að tala um þetta, enda skamm- ast ég mín ekkert fyrir að vera með þennan sjúkdóm. Ég meina, ekki bað ég um að fá hann. Ég er bara að reyna að gera allt sem ég get til að taka ábyrgð á sjúkdómnum, enda það eina sem ég get gert.“ Dóra telur að umræðan um alkóhólisma sé oft byggð á misskilningi. „Mér finnst eins og fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir að þetta er sjúk- dómur. Samkvæmt læknis- fræðinni er þetta áunninn heilasjúkdómur og það þarf einfaldlega að meðhöndla þetta eins og hvern annan sjúkdóm. Ég vissi þetta ekki sjálf þegar ég fór fyrst í með- ferð. Þetta var allt svo nýtt fyrir mér.“ Margir alkóhólistar koma úr fjölskyldum þar sem sjúk- dómurinn hefur lagst á heilu og hálfu kynslóðirnar. Þannig var það ekki í tilfelli Dóru. „Ég missti ekki stjórn á lífi mínu um leið og ég byrjaði að drekka. Það var ekki fyrr en undir lokin. Það var svo margt sem kom mér á óvart þegar ég byrjaði að takast á við þetta. Við getum orðað þetta þannig að ég var alltaf að ná nýjum og nýjum botni. Botninn varð alltaf dýpri og dýpri. Mig langaði svo mikið til að hætta. En ég gat það ekki.“ Dóra segir að það sé erfitt að útskýra þessa baráttu fyr- ir þeim sem ekki þekkja til, þeim sem hafa aldrei verið í þessari stöðu. „Ég hef reynt það, og mig langar svo mikið að aðrir skilji mig. En reynsl- an hefur sýnt mér að þeir einu sem virkilega skilja þetta eru aðrir alkóhólistar. Það er erfitt að vera í stans- lausu stríði við sjálfan sig. Það er eins og maður sé and- setinn,“ segir Dóra. „Aðrir í kringum mann skilja ekki af hverju maður getur ekki hætt og maður skilur það ekki sjálf- ur. Það er kannski það versta. Ég er ekki komin með langan edrútíma sjálf, rétt þrjá mán- uði og meira að segja ennþá í meðferð og get því kannski ekki gefið fólki mörg ráð, en ég vil taka þátt í að fræða fólk um þetta og ég vil auka skiln- ing á alkóhólisma. Ég vil líka bara vera opin og heiðarleg með þetta. Vonandi hjálpar það einhverjum.“ Dóra segist aldrei hafa séð ástæðu til að fara leynt með sjúkdóminn. „Kannski kann ég bara ekk- ert að skammast mín? Það hefur nú verið sagt við mig. En ég get reyndar ekki séð af hverju ég ætti að skammast mín. Það sem ég get gert er að bera ábyrgð á sjálfri mér og þiggja þessa leiðsögn, hlusta á þá sem hafa reynslu af bata.“ Langar að leikstýra Skaupinu Dóra verður áfram í Svíþjóð um óákveðinn tíma. Hún ætlar að fylgja því sem ráðgjafarnir segja. Hún einbeitir sér að bat- anum. Einn dag í einu. Nám- skeiðin eru alltaf í gangi hjá Improv Ísland þótt þeim hafi verið frestað fram á sumar út af Covid-19. Hún er með hugmynd í maganum að sjón- varpsþáttaröð sem hún stefnir á að byrja að skrifa eftir með- ferð. Svo er eitt ákveðið mark- mið á listanum. „Ég uppfyllti minn æðsta draum þegar ég fékk að skrifa Skaupið. Ég var búin að horfa á hvert Skaup aftur og aftur í mörg ár, sat og greindi Skaup- ið og pældi í atriðunum. Ég stefni á að leikstýra Skaupinu einn daginn. Það er sko ekk- ert leyndarmál. En mér liggur ekkert á. Ég krossa bara fing- ur og er þolinmóð.“ Hún kveðst líka vera stolt af sjálfri sér fyrir að hafa farið út í meðferð. „Það er full vinna, og erfitt að vinna í sjálfum sér á þennan hátt, og reyna að ná bata. Og ég er ofboðslega þakklát fyrir pró- grammið, ég hef ofurtrú á því. Ég er að berjast við þetta og ég ætla að gera allt sem ég get til að ná árangri. Og ég er bjartsýn á að mér takist þetta. Ég er spennt fyrir framtíðinni og ég er spennt fyrir edrúlíf- inu.“ n Kannski kann ég bara ekkert að skammast mín? Það hefur nú verið sagt við mig. Dóra kynnti langspuna fyrir Íslendingum, og hafa sýningar Improv Ísland notið gríðarlegra vinsælda. MYND/AÐSEND FRÉTTIR 15DV 1. MAÍ 2020

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.