Morgunblaðið - 02.01.2020, Page 15
FRÉTTIR 15Erlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. JANÚAR 2020
Byltingarkennd nýjung í
margskiptum glerjum
50–65% stærra lessvæði
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-
Kóreu, tilkynnti í gærmorgun að
Norður-Kóreumenn ætluðu sér ekki
lengur að virða bann við tilraunum
með langdrægar eldflaugar sem bor-
ið geta kjarnorkuvopn á milli heims-
álfa, svonefndar ICBM. Hótaði Kim
því jafnframt að bráðum yrði gerð
tilraun með nýtt langdrægt vopn,
sem myndi bætast við vopnabúr
ríkisins.
Höfðu stjórnvöld í Norður-Kóreu
áður gefið Bandaríkjamönnum frest
til áramóta til þess að leggja fram
nýjar ívilnanir á borðið, svo að við-
ræður um kjarnorkuafvopnun
Norður-Kóreu gætu haldið áfram,
en ekki fengið nein svör.
Kim ákvað fyrir um tveimur árum
að hætt yrði einhliða við allar til-
raunir Norður-Kóreu með lang-
drægar eldflaugar, með þeim orðum
að ríkið þyrfti ekki að gera frekari
tilraunir með slík vopn. Sú ákvörðun
var meðal annars hugsuð til þess að
liðka fyrir samskiptum Norður-
Kóreu við ríki alþjóðasamfélagsins,
sem hafa lagt hart að Norður-
Kóreumönnum um að láta kjarn-
orkuvopn sín af hendi.
Sleppti nýársávarpi sínu
Tilkynningin um ákvörðun Kims
var flutt í ríkismiðlum Norður-
Kóreu, og virðist hafa komið í stað
hefðbundins áramótaávarps leið-
togans. Greindi norðurkóreska ríkis-
sjónvarpið KCNA frá því að Kim
hefði greint frá ákvörðun sinni á
fundi miðstjórnar norðurkóreska
kommúnistaflokksins, en fundir
hennar eru oftar en ekki til marks
um stefnubreytingu hjá stjórnvöld-
um í Norður-Kóreu.
Hafði miðillinn eftir Kim að hann
sæi ekki lengur ástæðu til að binda
hendur Norður-Kóreumanna, sér í
lagi þar sem Bandaríkjamenn hefðu
sett frekari kröfur um afvopnun á
hendur þeim í stað þeirra ívilnana
sem stjórnvöld í Pjongjang sóttust
eftir. Þá hefðu Bandaríkjamenn ekki
hætt við heræfingar sínar, jafnvel þó
að Trump hefði lofað Kim því, og
jafnframt veitt her Suður-Kóreu há-
tæknibúnað.
Segir Kim mann orða sinna
Viðræður um afvopnun Norður-
Kóreu, sem meðal annars hafa leitt
til þriggja leiðtogafunda á milli Kims
og Donalds Trump Bandaríkjafor-
seta, hafa hins vegar ekki skilað
neinum haldföstum árangri og hefur
í raun lítið þokað áfram frá því að
þriðja fundi leiðtoganna í febrúar
síðastliðnum lauk án árangurs.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra
Bandaríkjanna, svaraði yfirlýsingu
Kims og sagði hótanir hans valda
Bandaríkjamönnum vonbrigðum og
hvatti Norður-Kóreumenn til þess
að snúa af þeirri braut sem þeir
væru á. Sagðist Pompeo vongóður
um að Kim myndi velja „frið og far-
sæld fram yfir átök og stríð“.
Trump Bandaríkjaforseti reyndi
einnig að bera klæði á vopnin og
benti á að hann og Kim hefðu undir-
ritað samkomulag um að stefna að
algjörri kjarnorkuafvopnun Kóreu-
skagans. Sagðist Trump treysta því
að Kim væri maður orða sinna.
Kim leikur sér að eldinum
Sérfræðingar í málefnum Norður-
Kóreu sögðu við AFP-fréttastofuna
að Kim væri að leika sér að eldi með
yfirlýsingum sínum, þar sem Banda-
ríkjastjórn myndi líklega bregðast
við tilraunum með langdræg vopn
með því að beita ríkið enn frekari
viðskiptaþvingunum. Þá væri líklegt
að Bandaríkjaher myndi frekar bæta
í viðveru sína í nágrenni Kóreuskag-
ans en hitt, hæfust tilraunir með
langdrægar eldflaugar á ný.
Óvíst er hvaða áhrif tilraunirnar
myndu hafa á samskipti Norður-
Kóreumanna og Kínverja, sem hafa
lagt mikla áherslu á aukinn stöðug-
leika á Kóreuskaganum og meðal
annars samþykkt refsiaðgerðir gegn
Norður-Kóreu í öryggisráði Samein-
uðu þjóðanna, þrátt fyrir að þeir séu
helstu bakhjarlar norðurkóreskra
stjórnvalda.
Sú samstaða sem skapast hefur í
öryggisráðinu gagnvart kjarnorku-
vopnum Norður-Kóreu gæti hins
vegar verið senn á enda, en Rússar
og Kínverjar lögðu til í ráðinu fyrir
tveimur vikum að dregið yrði úr
nokkrum af þeim viðskiptaþvingun-
um sem nú hafa verið lagðar á
Norður-Kóreu, í þeirri von um að
það myndi liðka fyrir viðræðum.
Taka upp eldflaugatilraunir á ný
Kim Jong-un hótar sýnikennslu á nýju langdrægu vopni á næstunni Pompeo hvetur Norður-Kóreu
til að velja frið og farsæld fram yfir átök Líklegt að Bandaríkjamenn muni refsa fyrir tilraunaskot
AFP
Norður-Kórea Kim Jong-un ávarp-
ar fund miðstjórnarinnar í vikunni.
Bandaríkjaher hyggst senda 750
hermenn til Mið-Austurlanda þegar
í stað eftir að ráðist var á sendiráð
Bandaríkjanna í Bagdad, höfuð-
borg Íraks, á gamlársdag. Um var
að ræða mótmælaaðgerðir sem
stuðningsmenn vígasamtakanna
Hashed al-Shaabi stóðu að vegna
loftárása Bandaríkjamanna gegn
samtökunum í Írak tveimur dögum
áður, þar sem 25 létu lífið.
Á gamlársdag þusti fólk óhindr-
að inn á varnarsvæði Bandaríkja-
manna, kastaði grjóti og kveikti í
bandarískum fánum en öryggis-
verðir úr sendiráðinu vörðust m.a.
með táragasi og særðu minnst 20,
hafði fréttastofan AFP eftir Has-
hed al-Shaabi. Forsvarsmenn Has-
hed al-Shaabi fyrirskipuðu fólkinu í
gærmorgun að yfirgefa sendiráðið
en það var í fyrstu tregt til og neit-
aði að fara. Í gærkvöld höfðu þó all-
ir yfirgefið bygginguna.
AFP
Mótmæli Menn klifra utan á banda-
ríska sendiráðinu í Bagdad í gær.
Réðust á sendiráð
Bandaríkjanna
ÍRAK
Frans páfi baðst í
gær afsökunar á
að hafa slegið
hönd konu sem
greip og togaði í
hann þegar hann
heilsaði aðdáend-
um á gamlárs-
kvöld. Átti atvik-
ið sér stað stuttu
áður en páfi hélt
ræðu þar sem hann fordæmdi hvers
kyns ofbeldi gegn konum.
Myndband náðist af atvikinu, sem
fór eins og eldur í sinu um net-
heima.
„Við missum oft þolinmæðina.
Það hendir mig líka,“ sagði Frans.
„Ég biðst afsökunar á því slæma
fordæmi sem ég sýndi í gær,“ bætti
hann við.
PÁFAGARÐUR
Baðst afsökunar
á að slá konu
Frans páfi