Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.01.2020, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.01.2020, Blaðsíða 12
VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19.1. 2020 L eikkonan Unnur Ösp Stefánsdóttir tekur hlýlega á móti blaðamanni með faðmlagi og kossi. Við setj- umst niður í ró og næði í Borgar- leikhúsinu til að ræða lífið og listina. Það er af nógu af taka því Unnur hefur upplifað stórkostlegar tilfinningar, bæði á sviði og í lífinu sjálfu. Leiðin lá nánast alltaf í leik- listina og hefur hún átt velgengni að fagna í starfi en einnig í einkalífinu en hún er í hjóna- bandi með leikaranum Birni Thors og eiga þau fjögur börn, þar af tæplega þriggja ára tví- bura. Unnur segir lífið ekki alltaf eiga að vera auðvelt og hafa þau hjón fengið sinn skerf af áföllum en Unnur talar nú í fyrsta sinn opin- berlega um dóttur þeirra sem er með CP- hreyfihömlun. Að eignast fatlað barn hefur gefið Unni nýja sýn á lífið. Nokkuð sem hún hefur nýtt sér í leiklistinni. Skemmtilegt leikhúsuppeldi Unnur á ekki langt að sækja leikhúsáhugann enda alin upp af miklu leikhúsfólki, leikstjór- anum Stefáni Baldurssyni, sem var lengi þjóð- leikhússtjóri, og Þórunni Sigurðardóttur, leik- stjóra, leikskáldi og listrænum stjórnanda. „Ég er alin upp í Breiðholtinu eins og margt gott fólk en þegar ég var átta ára fórum við að fikra okkur í átt að Vesturbænum þar sem við enduðum. Þar fór ég í Vesturbæjarskóla, Melaskóla og Hagaskóla og þaðan í Mennta- skólann við Hamrahlíð. Ég hafði farið og séð Rocky Horror með Páli Óskari sem MH setti upp og hugsaði að þarna væri allt að gerast í leiklistarlífinu. Það var það sem dró mig þang- að,“ segir Unnur sem segist hafa haft áhuga á leiklist frá blautu barnsbeini. „Blessunarlega fékk ég þetta skemmtilega ævintýralega leikhúsuppeldi. Það var mikið drama borið á borð fyrir mig mjög unga, í formi leikhúsupplifana og kvikmynda. Það er þroskandi að treysta börnum fyrir öðru en ein- göngu barnaefni,“ segir hún. Óþægileg fullkomnunarárátta Leikhúsbakterían virðist hafa verið meðfædd því Unnur segir að í sér hafi alltaf verið drama- tísk taug. „Ég var farin að semja ljóð og einleiki fjög- urra, fimm ára, ótrúlega fyndið og dramatískt stöff!“ segir Unnur og brosir. „Ég áttaði mig á því nýlega þegar ég var að leika í verki eftir Birgi Sigurðsson að þetta var mikið stolið frá honum, enda hélt ég mikið upp á Dag vonar sem hann skrifaði,“ segir hún. „Ég er leikhúsbarn sem ólst upp við að horfa á leikrit og kvikmyndir. Eins var mikið lesið fyrir mig. Ég elti foreldra mína út um allt og fékk að vera í myrkinu úti í sal með þeim í stað þess að vera heima í pössun. Ég dróst þá inn í þennan ævintýraheim og það varð ekki aftur snúið. Ég byrjaði svo átta, níu ára að leika í sýningum. Fyrsta hlutverkið mitt var í Karde- mommubænum þar sem ég lék með Hilmi Snæ, Selmu Björns, Páli Óskari og fleirum. Við stig- um okkar fyrstu skref þarna saman, en síðan höfum við Hilmir og Selma unnið mikið saman og erum miklir vinir. Svo ellefu ára lék ég í hátt í 250 sýningum á Land míns föður eftir Kjartan Ragnarsson,“ segir Unnur. „Þar lékum við Ragnar Kjartansson saman öll kvöld. Þetta var rosalega gaman og mikil forréttindi að fá að leika með leikurum eins og Gísla Halldórssyni, Guðmundi Pálssyni, Sigríði Hagalín og fleirum sem kenndu mér svo margt. Það var mikil lífsreynsla að standa á sviðinu og leyfa einhverjum að fara í gegnum sig og finna orkuna frá áhorfendum. Þetta var auðvitað brjálæðislega spennandi!“ segir hún. „En út frá minni reynslu hef ég verið hugsi yfir því hvort það eigi að draga börn mikið ung inn í leikhús. Þetta er vinna og ég hef alls ekki lagt á þetta áherslu fyrir börnin mín. Þau verða frekar að ákveða það þegar þau hafa þroska til. Þetta er nefnilega gríðarlegt álag á börn.“ Unnur segist hafa gengið í gegnum stutt mótþróaskeið á unglingsaldri þar sem hún ákvað að koma ekki nálægt leiklist. Hún hafi farið að efast um sína hæfileika á því sviði. „Ég hef alltaf haft í mér óþægilega full- komnunaráráttu sem er stórhættuleg lista- mönnum. Ég setti of mikla pressu á mig og ótt- aðist höfnun. Það var því örlagadagur þegar ég gekk inn á mína fyrstu leiklistaræfingu í leikfélagi Mennta- skólans við Hamrahlíð, en þangað þorði ég ekki fyrr en í upphafi þriðja árs. Þar kvikn- aði leikhúsneistinn aft- ur og ég kynntist manninum mínum, Birni Thors, og mörgum af mínum bestu vin- um í dag. Þetta var því mikið örlagaskref.“ Algjört áfall að fá höfnun Þegar Unnur lauk stúdentsprófi kom ekkert annað til greina en leiklistarskólinn. „Ég fór í prófið með mikla reynslu á bakinu og mikið sjálfsöryggi og er svo hafnað! Sem er um það bil það besta sem komið hefur fyrir mig. Ég var komin í sextán manna hópinn og var frekar sannfærð um að verða tekin inn,“ segir Unnur og skellihlær. „Það duttu út örfáar stelpur þarna í lokin og ég var bara ein af þeim! Algjört áfall! Svo flækti það líka málin að pabbi var á þessum tíma þjóðleikhússtjóri, þannig að ég upplifði mig enn frekar sem algjörlega misheppnaða.“ Var þetta fyrsta alvöruáfallið í lífinu? „Já, ég myndi segja það. Ég hafði fram að þessu aldrei upplifað alvöruhöfnun. Þetta var miklu meira áfall en ég nokkurn tímann bjóst við. Ég missti svefn heilt sumar og þetta er í eina skiptið á ævinni sem ég hef komist nálægt því að verða mjög döpur, því ég er léttlynd að eðlisfari og hef jákvætt viðhorf til lífsins. Þetta var alveg hræðilegt. Ég stóð þarna á tímamót- um, eins og krakkar um tvítugt gera gjarnan, og margir vita ekki hvert þeir vilja stefna. Ég vissi alveg hvað ég vildi, en það var ekki í boði. Ég varð dálítið reið og áttaði mig líka á því að tengslin við pabba voru þannig að ef ég hefði komist inn hefðu allir sagt það vera vegna klíkuskapar,“ segir Unnur, sem sagði það ekki hafa bætt úr skák. Hún segir að þær hugsanir hafi læðst að sér að hún hefði enga hæfileika og að ástæðan fyrir því að hún hefði kom- ist á svið væri einungis vegna tengsla við foreldra sína. Örlítið sjálfstraust fyrirfannst þó enn, því Unnur ákvað að hún myndi læra leiklist í Bret- landi. Þar gæti hún sannað sig langt frá litla Íslandi. „Ég hélt alein tvítug til London, með minn- isbók og landakort að vopni, brotið sjálfstraust en full tilhlökkunar. Ég fór í inntökupróf í sex skóla og komst inn í fjóra. Það var ótrúlega mikil viðurkenning fyrir mig því ég hafði brot- ið mig svo mikið niður. Í London var ég lítið peð í mannmergð og samt var fólk sem taldi að ég ætti erindi í leiklist,“ segir hún. „Þarna var ég komin inn á fjórum stöðum en ákvað svo að fara aftur í prófið hér heima. Ég var nýorðin skotin í þessum strák, Bjössa, og fannst leitt að fórna því sambandi. Svo var auðvitað miklu ódýrara að stunda námið hér en úti. Þannig að ég henti mér í prófið og var miklu auðmýkri og líklega slakari líka. Nú var þetta ekki upp á líf og dauða af því ég var hvort sem er að fara út í nám. En þá komst ég inn.“ Fangar til Hollywood Eftir útskrift fór Unnur út í ýmis sjálfstæð verkefni og setti upp söngleiki. „Ég vildi alls Morgunblaðið/Ásdís Lúxus að fá að gráta í vinnunni ’Ég hélt alein tvítug til Lond-on, með minnisbók og landa-kort að vopni, brotið sjálfstrausten full tilhlökkunar. Ég fór í inn- tökupróf í sex skóla og komst inn í fjóra. Það var ótrúlega mikil viðurkenning fyrir mig því ég hafði brotið mig svo mikið niður.  Unnur Ösp Stefánsdóttir hefur fundið sinn stað á sviðinu, bæði sem leikari og leikstjóri. Hún leikur um þessar mundir stórt hlutverk í Vanja frænda sem fengið hefur glimrandi dóma. Nýlega seldi hún, ásamt fleirum, réttinn að Föngum til Hollywood og er það fyrsta íslenska serían sem endurgerð verður þar í borg. Unnur hefur tekist á við stórar áskoranir og lent í persónulegum áföllum en segir að maður upplifi ríkari hamingju þegar maður hefur snert á harminum. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.