Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.01.2020, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.01.2020, Blaðsíða 22
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19.1. 2020 BÖRN landshlutum. Mér fannst mikilvægt að byrja á landsbyggðinni enda hafa börnin þar ekki eins greiðan aðgang að embættinu og börnin á höf- uðborgarsvæðinu þar sem skrifstofan er í Reykjavík.“ Í þessum heimsóknum brýndi Þórhildur réttindin fyrir börnunum og fræddi þau um Barnasáttmálann. Ekki voru allir sannfærðir og Þórhildur fékk meðal annars að heyra að óþarfi væri að „æsa blessuð börnin upp“. „Það var alls ekki meiningin en ég hafði djúpa sann- færingu fyrir því að börn hefðu sama rétt á því að þekkja sín réttindi og fullorðnir. Ég útskýrði líka fyrir þeim að öllum réttindum fylgja skyld- ur. Það er eins með réttindin og peninginn; á þeim eru tvær hliðar.“ Þórhildur talaði ekki bara yfir börnunum, heldur gaf þeim líka tækifæri til að tala við sig. Spyrja um hvaðeina sem þeim lægi á hjarta. Hún gekk út frá því að einhver börn yrðu feim- in að ávarpa hana frammi fyrir fullum sal, þannig að hún bauð þeim einnig að koma til sín að fundi loknum. Það brást ekki að þá komu börnin og spurðu. „Ég fékk allskonar spurn- ingar og ábendingar og börnin höfðu greinilega áhyggjur af ýmsu en eitt mál stóð þó alls staðar upp úr – einelti. Mitt svar var að ofbeldi yrði ekki liðið og einelti væri ein tegund ofbeldis.“ Þórhildur fann strax að úrbóta væri þörf; herða yrði aðgerðir til að stemma stigu við þeirri vá sem einelti er í skólum þessa lands. Hún skoraði því á menntamálaráðherra að gera rannsókn á umfangi og eðli eineltis í skólum á Íslandi en engin slík rannsókn hafði verið gerð á þeim tíma. Þórhildur fékk rannsóknamiðstöð- ina Rannsókn og greiningu til liðs við sig og fylgdi málinu eftir með markvissum hætti. „Við héldum þar til bærum aðilum vel við efnið; ef svör bárust ekki innan tilhlýðilegs tíma ítrek- uðum við erindið. Þetta mál þoldi enga bið.“ Árið 1998 var svo haldin ráðstefna um einelti – sú fyrsta sinnar gerðar á Íslandi þar sem börn voru í forgrunni. „Við völdum Hótel Sögu sem vettvang ráðstefnunnar og þótti sumum það heldur hátíðlegt, nær hefði verið að gera þetta í einhverjum skólanum, en við svöruðum því til að við vildum láta taka mark á því sem börn höfðu fram að færa og þess vegna gæfum við engan afslátt, hvorki á ráðstefnustaðnum né öðru. Ég fékk Vöndu Sigurgeirsdóttur, sem lengi hefur unnið gott starf gegn einelti, sem fundarstjóra og það rétt slapp en hún var kom- in á steypirinn á þessum tíma. Ég fékk líka tvö fórnarlömb eineltis til að segja frá lífsreynslu sinni og það var tilfinningaþrungin stund með- an þau voru í pontu. Miklar og sláandi upplýs- ingar komu fram og ófáum vöknaði um augu. Fjölmiðlar sýndu ráðstefnunni nokkurn áhuga en voru beðnir um að slökkva á upptökutækjum meðan fórnarlömbin töluðu, í virðingarskyni við sögur þeirra.“ Út á meðal almennings Að framsögu lokinni settust börn og fullorðnir að hringborðum og spjölluðu saman um erindin og einelti almennt. Þá var boðið upp á skemmti- atriði úr söngleiknum Ávaxtakörfunni, sem fjallar einmitt um einelti. Loks voru niður- stöður þingsins teknar saman og sendar menntamálaráðherra. „Á þessum tíma var aðeins til ein bók um ein- elti á Íslandi, eftir Guðjón Ólafsson, sem kom út 1996, og engin algild skilgreining til á því hvað einelti fæli í sér. Eftir ráðstefnuna komst hins vegar skriður á málið en niðurstöður hennar voru kynntar opinberlega og skýrsla unnin í kjölfarið sem send var á alla skóla og fé- lagsmiðstöðvar í landinu til að koma fróð- leiknum á framfæri. Markmiðið var að koma öllu sem skipti máli út á meðal almennings; sitja aldrei á neinu.“ Þórhildur er ekki í nokkrum vafa um að ráð- stefnan hafi velt þungu hlassi. Umræðan hafi strax orðið mikil í kjölfarið og staðið síðan. „Meðal þess sem náðist fram var að skylda skóla til að setja sér reglur um viðbrögð við ein- elti og hafa á hreinu hvert bæri að snúa sér með mál af því tagi. Auðvitað er þetta eilífðarverk- efni en við verðum að halda því til streitu að þetta megi ekki og að einelti verði ekki liðið.“ Meðal þess sem komið var á fót var sjálfs- hjálparhópur vegna eineltis og var reynslan af honum strax góð. Í því sambandi dregur Þór- hildur upp úr pússi sínu bréf sem ókunnug kona rétti henni í lok samkomu á Laugardals- vellinum sem haldin var í aðdraganda Kristnitökuhátíðar 2000. Bréfið var svohljóð- andi: „Þórhildur! Fyrst ég sit hérna við hliðina á þér langaði mig til þess að þakka þér fyrir hjálpina varðandi sjálfshjálparhópinn v. einelt- is. Það tók mig aðeins 2 mánuði að ná mér 100% af eineltinu með því að mæta í hópinn á hverj- um laugardegi. Og það eftir að hafa lifað með afleiðingunum í 26 ár. Gjörbreytt líf!“ – Kom eitthvað þér á óvart í starfinu? „Já og nei. Það var af nógu að taka og ekki um annað að ræða en að forgangraða og velja úr mál til að fylgja eftir. Ég ætlaði mér aldrei að verða „kerlingin á kassanum“ sem hrópar hástöfum í hvert skipti sem eitthvað bjátar á og æðir beint í fjölmiðla. Hefði ég nálgast verk- efnið þannig var það mín skoðun að það gæti skaðað ímynd embættisins og hætt yrði að taka mark á því. Mín leið var að þrýsta með rök- studdum hætti en ekki upphrópunum á viðeig- andi ráðuneyti og stofnanir sem málin heyrðu undir.“ Annað sem Þórhildur sá að var í ólagi voru lagaákvæði um kynferðis- brot gegn börnum. Hún fékk því Svölu Ólafsdóttur lögfræðing til að vinna skýrslu um málið og bera löggjöfina hér á landi sam- an við löggjöfina á öðrum Norðurlöndum. „Skýrslan staðfesti að pottur var brotinn og á grundvelli hennar gerði ég tillögur um það að lágmarksrefsing yrði lögð við alvarleg- ustu brotunum og að þau myndu ekki fyrnast. Því þegar brotið er gegn börnum kynferðislega gera þau sér sjaldnast fyllilega grein fyrir því hversu grafalvarlegt slíkt athæfi er, en gjarnan þegar þau komast á fullorðinsaldur rennur upp fyrir þeim hvers eðlis brotið var og fara þá í framhaldinu að leita réttar síns. Í byrjun mætti þessi tillaga mín litlum skilningi og það var ekki fyrr en árið 2007 að lögum var breytt í þetta horf. Hér er um að ræða mikla réttarbót.“ Þórhildur segir það líka til mikilla bóta að sú lagabreyting hafi náðst fram á sínum tíma að dómari taki strax á rannsóknarstigi skýrslu af barni vegna kynferðisbrots gegn því, til að forð- ast endurtekna skýrslutöku af barninu og hlífa þannig við að þurfa rifja upp þessa erfiðu lífs- reynslu oftar en einu sinni. Á sama tíma kom það inn í lög að barn ætti alltaf rétt á löglærð- um réttargæslumanni til að gæta réttar þess á öllum stigum málsins. Kölluð puntudúkka Þórhildur segir viðbrögðin við hinu nýja emb- ætti almennt hafa verið góð; hún hafi þegar á leið fundið fyrir vaxandi stuðningi og þakklæti. Við það hafi traust á embættinu aukist. Þó hafi ekki allir verið sannfærðir um nauð- syn embættisins og ágæti framan af. „Bless- aður vertu, ég fékk allskonar glósur, bæði fag- legar og persónulegar. „Til hvers er þetta eiginlega?“ spurðu sumir og „hvað þykist þú vera?“ Einhverjir höfðu líka efasemdir um að ég væri rétta manneskjan í verkefnið og það gekk meira að segja svo langt að ég var kölluð puntudúkka.“ Hún hlær. „En það hvatti mig bara til dáða og fólk vissi ekki hvað það var að gera mér gott með þessum glósum.“ Að sögn Þórhildar fór það í taugarnar á sum- um að embætti umboðsmanna barna tæki ekki á einstökum málum, leiðbeindi aðeins og veitti ráðgjöf. „Sumir hringdu, ekki síst fólk sem stóð í forsjárdeilum, og ætluðust til þess að embætti umboðsmanns barna leysti málin. Varð svo fyr- ir vonbrigðum þegar það áttaði sig á því að þannig væri embættið ekki hugsað. Það var al- veg rétt áhersla, að mínu áliti, og persónulega naut ég þess að veita ráðgjöf og greiða götu fólks eftir fremsta megni.“ Í 12. grein Barnasáttmálans er tryggt að barn eigi rétt á að tjá sig í öllum málum, bæði einkamálum og ekki síður í málum er varða samfélagið sem heild. „Þegar embætti umboðs- manns barna var sett á laggirnar þótti alls ekki sjálfsagt að börn fengju að tjá sig um sam- félagsmál. „Hafa þau einhverjar skoðanir?“ spurðu menn. Mér þótti það gamaldags afstaða og lét málið mig varða. Hélt meðal annars málþing í Ráðhúsi Reykjavíkur, und- ir yfirskriftinni Ungir hafa orðið..., þar sem börn fengu að tjá sig og tala um það sem þeim lá á hjarta. Þarna voru líka stjórnmálamenn, Ingibjörg Sólrún Gísladótt- ir, Friðrik Sophusson og fleiri í pallborði, og þessu var ágætlega sinnt í fjölmiðlum. Í salnum voru börn og kennarar og máttu gestir spyrja í lokin. Tilgangurinn var að sýna fram á að börn hefðu skoðanir og gætu tjáð sig og þarna komu fram ýmsir sem í dag eru þjóðþekktir ein- staklingar. Þingið heppnaðist ágætlega og við héldum í framhaldinu sambærileg þing á Akur- eyri og Egilsstöðum. Við hefðum svo sem viljað gera það víðar en eins og alltaf var það spurning um fjármagn og tíma.“ Einhverjir muna kannski eftir málþinginu í Ráðhúsinu fyrir þær sakir að það kviknaði í blómaskreytingu á pallborðinu en Friðrik Sophusson brást snöfurmannlega við og slökkti eldinn með því að bleyta vasklút sem hann dró upp úr jakkavasanum og leggja yfir eldinn við mikinn fögnuð viðstaddra. Meðal þess sem kom til umræðu á þinginu voru skipulagsmál en, að sögn Þórhildar, þótti einhverjum fjarlægt og jafnvel útilokað að börn gætu haft skoðun á þeim málaflokki. „Hvers vegna? spurðum við á móti. Eru þau ekki á ferð- inni, rétt eins og við fullorðna fólkið? Hvað með skipulag skólalóðarinnar? Auðvitað þurfa radd- ir barna að heyrast í skipulagsmálum.“ Börn hafa ekki í annan tíma verið virkari í samfélagsumræðunni, það gildir bæði hér heima og erlendis. Nægir að nefna loftslags- málin í því samhengi. Það fyllir Þórhildi að von- um stolti. „Heldur betur. Grunnurinn var lagð- ur á sínum tíma og á honum hefur verið byggt fram á þennan dag.“ Fleira eftirminnilegt var gert á þessum fyrstu árum, svo sem að efna til netþings barna um aldamótin, þegar tækninni hafði vaxið fisk- ur um hrygg. Horft var til Alþingis í því sam- bandi og 63 fulltrúar á aldrinum tólf til átján ára kallaðir til þingsins, hvaðanæva af landinu. Voru skólastjórar og nemendafélög innan handar við undirbúninginn. Eins og nafnið bendir til þá fór þingið fram á netinu, fyrir utan síðasta fundinn sem haldinn var í heyranda hljóði, í Salnum í Kópavogi. „Þetta framtak var mjög metnaðarfullt og vakti athygli út fyrir landsteinana. Niðurstöður voru þýddar yfir á ensku og kom það í hlut Geirs H. Haarde, þá- verandi fjármálaráðherra, að kynna þær er- lendis. Þarna stigu margir sín fyrstu skref í samfélagsumræðunni.“ Þess má geta að Valgeir Guðjónsson samdi lag, Biðjum um frið, í tilefni af þinginu og þykir Þórhildi ekki úr vegi að það komist nú aftur í spilun. „Það á ekkert síður við nú en þá.“ Af öðrum hugmyndum sem hrint var í fram- kvæmd má nefna að Þórhildur fékk Iðunni Steinsdóttur barnabókahöfund til að umorða flókin lagaákvæði svo börn gætu lesið þau og skilið. Litla lagabókin var draumur en ekki fékkst fjárveiting til þess verkefnis. En efnið fór þó á netið. Góður vinnufriður Talandi um fjárveitingu til embættisins segir Þórhildur hana ekki hafa verið nægilega mikla í fyrstu. Stöðugt hafi þó verið ýtt á rýmri fjár- veitingu og með tímanum hafi því takmarki verið náð. Hún kveðst líka hafa fengið góðan vinnufrið. „Það er óskaplega mikilvægt að umboðsmaður barna sé óháður embættismaður; að hann komi að málum utan frá og meti þau á sjálfstæðum og faglegum forsendum. Og það mega þeir eiga, ráðamenn þjóðarinnar, að þeir hringdu aldrei til að reyna að hafa áhrif á mig.“ Árlega gaf Þórhildur forsætisráðherra skýrslu um störf umboðsmanns á liðnu ári. Henni þótti mikilvægt að gera nákvæma grein fyrir starfsemi embættisins, að hvaða málum væru unnið og hver staðan væri. „Ég hitti for- sætisráðherra alltaf einu sinni á ári; lengst af var það Davíð Oddsson en undir það síðasta Halldór Ásgrímsson. Þetta voru ágætis fundir og mikilvægt að hitta ráðherrann. Þá gafst tækifæri til ræða á opinskáinn hátt um þau mál sem til umfjöllunar voru og hver staðan væri.“ Ýmsir lýstu yfir áhuga á samstarfi við emb- ættið og Þórhildur leit á það sem mikla við- urkenningu þegar Páll heitinn Skúlason, þá há- skólarektor, annars vegar og Karl Sigur- björnsson þáverandi biskup Íslands hins vegar höfðu samband og óskuðu eftir samstarfi við embættið. Út úr því kom meðal annars mál- þingið Ungir Íslendingar í ljósi vísindanna. Markmið þess var að leiða saman almenning og fagfólk af ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands til að skiptast á skoðunum, staðreyndum og hugmyndum um börn og unglinga á breiðum grunni. Slíkt málþing hafði ekki áður verið haldið hér á landi. Í bók sem ber sama heiti og var yfirskrift málþingsins má finna þau 45 er- indi sem þarna voru flutt. Þórhildur segir starfið hafa falið í sér stöð- uga baráttu þessi tíu ár og vinna hafi þurft vel og skipulega alla daga. „Ég var vakin og sofin yfir þessu starfi; í orðsins fyllstu merkingu en var alltaf með blað og blýant á náttborðinu ef ske kynni að ég fengi góða hugmynd að næt- urlagi. Sumar voru góðar, aðrar síðri, eins og gengur,“ segir hún brosandi. Þetta er stöðug barátta En allt var þetta ómaksins virði. „Þegar ég lít um öxl get ég ekki annað en verið stolt af þess- um tíu árum. Það er óskaplega dýrmætt að sjá árangur erfiðisins. Að ekki hafi verið unnið til einskis. Réttarstaða barna batnaði umtalsvert á þessum árum og grunnur var lagður til fram- tíðar. Öll vinna fór fram á forsendum barnanna. Embætti umboðsmanns barna er löngu búið að sanna ágæti sitt. Nú er bara að hamra járn- ið. Þetta er eilíf barátta enda samfélagið í hraðri þróun og nýjar áskoranir stöðugt að mæta okkur. Sjálf er ég þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að sinna þessu starfi; ég hef komið víða við um dagana en ekkert annað starf stendur hug og hjarta mínu nær.“ Þórhildur afhendir nemanda í 5. bekk í Austurbæjarskóla upplýsingamöppu sem hefur að geyma ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2002. Morgunblaðið/Golli ’Ég var vakin og sofinyfir þessu starfi; íorðsins fyllstu merkinguen ég var alltaf með blað og blýant á náttborðinu ef ske kynni að ég fengi góða hugmynd að næturlagi.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.