Morgunblaðið - 25.03.2020, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 25.03.2020, Blaðsíða 16
FRÉTTASKÝRING Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Spænska veikin fyrir rúmumhundrað árum kemur ofttil tals þegar rætt er umkórónuveirufaraldurinn sem nú gengur yfir. Það er ekki nema eðlilegt því hún var heims- faraldur eins og kórónupestin. Við erum vön að kenna veikina við árið 1918 þegar hún tók stóran toll meðal landsmanna, ekki síst í Reykjavík. En sannleikurinn er sá að spænska veikin gekk í þremur bylgjum 1918 til 1919 og komu þær allar hingað. Vægust var sú sem stakk sér niður sumarið 1918, en skæðust pestin sem hér var frá því í október sama ár og fram í desember. Fæstir vita að þriðja bylgja spænsku veikinnar gekk svo yfir Ísland og víðast hvar um heiminn frá því í mars og fram í maí 1919 og eru skráðir sjúklingar sem pestina tóku þá rúmlega fjög- ur þúsund en voru líklega mun fleiri. Þetta er rifjað upp vegna þess að nú velta menn fyrir sér hvort kórónuveiran nýja, Covid-19 eins og hún heitir á fagmáli, muni hegða sér á svipaðan hátt og veir- an sem olli inflúensunni 1918 til 1919, þ.e. leggja undir sig löndin og hverfa síðan en birtast aftur nokkrum mánuðum síðar. Ýmsir faraldsfræðingar telja þetta líklegt en enginn getur þó svarað þessu með fullri vissu. Eitt er sérlega umhugsunarvert í þessu sambandi. Ástæðan fyrir því að spænska veikin náði sér á strik aftur á Íslandi á útmánuðum 1919 var sú að menn voru orðnir andvaralausir og hættir þeim ströngu sóttvörnum sem áður höfðu verið teknar upp. Þurfum við kannski að búa okkur undir allt öðruvísi veröld þegar kórónuveiran gerir hlé á árásum sínum? Það á eftir að koma í ljós. Aðeins fyrsta bylgjan? Í grein í læknisfræðiritinu Lan- cet veltir franski faraldursfræðing- urinn Antoine Flahault því fyrir sér hvort núverandi kórónuveiru- faraldur sé fyrirboði annars faraldurs sem verði mun skæðari, svona rétt eins og væg flóðbylgja af hafi sem litlum skaða veldur er gjarnan undanfari hamfarabylgju. Hann segir að þótt veirufarald- urinn virðist í rénun eða jafnvel genginn yfir í Kína, geti hann snú- ið aftur og þá jafnvel orðið mun skæðari, rétt eins og sumarpestin hér 1918 í samanburði við hörm- ungarnar um haustið. Það er þó huggun í þessu sam- bandi að þegar spænska veikin hafði gengið yfir í þremur bylgjum gufaði hún upp, ef svo má segja, og veiran sem olli henni hefur ekki snúið aftur. Enginn veit í rauninni hvers vegna, en sérfræðingar benda á að faraldri lýkur ekki endilega vegna þess að enginn sé eftir sem veiran eigi eftir að smita heldur vegna þess að fjöldi sýktra (og bólusettra, ef bóluefni er fyrir hendi) hefur náð ákveðnu hlutfalli þetta er kallað „hjarðónæmi“ sem dugar til að hún hætti að breiðast út. Þetta hlutfall er ekki fast held- ur breytilegt eftir eðli veirunnar hverju sinni; fer eftir því hve hratt hún ferðast frá smitaðri mann- eskju í heilbrigða. Þegar um bráð- smitandi veiru er að ræða verður hlutfallið til að ná „hjarðónæmi“ hátt. Talið er að í tilviki kór- ónuveirunnar sé þetta hlutfall á bilinu 50 til 66 prósent af íbúum á tilteknu svæði. Þegar svo margir hafa smitast er faraldurinn yfir- staðinn í bili að minnsta kosti. SARS kom og hvarf Francois Bricaire, sem er yfir smitsjúkdómadeild Pitié-Salpêt- rière-sjúkrahússins í París, tekur í sama streng og Flahault um hætt- una af því að kórónuveirufarald- urinn snúi aftur þegar hann hefur hjaðnað, hvort sem það verður í sumar eða í haust. Ástralskur smitsjúkdómafræðingur, Sharon Lewin, bendir hins vegar á að ann- ar kórónuveirufaraldur, SARS (á ensku; Severe Acute Respiratory Syndrome), sem geisaði 2002 til 2003 (en kom aldrei til Íslands), gufaði algjörlega upp eftir að grip- ið var til mjög strangra ráðstaf- ana; lágu þá 774 í valnum sem er langtum lægri tala en fjöldi fórn- arlamba nýju kórónuveirunnar, Góðu fréttirnar eru þær, að unn- ið er að því nótt sem nýtan dag víða um heim að þróa bóluefni gegn Covid-19. Mjög sterkar líkur eru á að það verði að veruleika á næstu mánuðum og jafnvel innan árs. Slíkt bóluefni gjörbreytir auð- vitað möguleikum veirunnar til að halda heimsbyggðinni í heljar- greipum eins og hún gerir nú. Kemur kórónuveiran oftar en einu sinni? AFP COVID-19 Verslað á veirutímum. Á ástandið sem faraldurinn leiðir af sér kannski eftir að verða viðvarandi næstu árin? Ekki uppörvandi ef svo reynist. 16 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. MARS 2020 Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/ Vitað var aðallar líkurværu á að kórónuveiran mundi valda dauðs- föllum hér á landi. Það breytir því ekki að sorgin snertir alla þeg- ar af því fréttist og alvaran kemur í ljós. Fjöldi þeirra sem látist hafa um allan heim af þessari bráð- smitandi veiru nálgast nú tvo tugi þúsunda og fjölgar með vaxandi hraða. Þetta er ógn- vekjandi þróun sem engin leið er að fullyrða um hvenær hægir á eða hversu margir falla í val- inn áður en yfir lýkur. Engin leið er heldur að fullyrða um hvenær þessi ósköp ganga yfir, en vissara er að fólk búi sig undir allmargar vikur. Ekki þarf að undra þó að hugur fólks hér á landi leiti stundum rúm eitt hundrað ár aftur í tímann um þessar mund- ir, eða til ársins 1918. Það ár geisaði gríðarmikil og skæð pest, ranglega nefnd spænska veikin, og sama ár var líka frostaveturinn mikli, sem svo hefur verið réttilega nefndur. Í byrjun þess árs gekk yfir landið fimbulkuldi og með honum fylgdi landsins forni fjandi inn í firði og flóa. Sú pest sem nú gengur yfir landið kemur í kjölfar eins versta, ef ekki versta, vetrar í manna minnum og þess vegna þurfa hugrenningartengslin við árið 1918 ekki að koma á óvart. Mannskaðaveður og mannskæð pest gera sem betur fer sjaldan vart við sig sama árið. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að aðstæður eru afar ólíkar nú. Híbýli fólks fyrir rúmri öld voru allt önnur en nú og kuldinn helst alla jafnan utan dyra nú, en hér áður fyrr nísti hann gjarnan í gegnum merg og bein, jafnt innan dyra sem utan. Annað sem er afskaplega ólíkt nú og þá er að læknavís- indunum hefur fleygt mikið fram, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þau hafa að vísu ekki enn fundið lausn við kórónu- veirunni, en engu að síður er sú þekking sem nú er til staðar, auk tækjabúnaðar og ýmiskon- ar lyfja, allt önnur en áður var. Þetta þýðir að líkur sjúklinga á að vinna bug á pestinni eru allt aðrar og betri en þá. Því má ekki gleyma að í spænsku veikinni er talið að tveir þriðju Reykvíkinga hafi lagst í rúmið og hátt í fimm hundruð landsmenn hafi látið lífið. Þegar horft er til þess að hér bjuggu rúmlega níutíu þús- und manns fyrir rúmri öld er augljóst hve gríðarlegt áfall spænska veikin var. Full ástæða er til að lands- menn búi sig undir erfiðar vik- ur og jafnvel mánuði. Ekki er þó ástæða til að ætla að fram undan sé glíma sem líkist þeirri sem háð var fyrir rúmri öld. Full ástæða er til að ætla að með hertum aðgerðum og sam- hentu átaki komist þjóðin þann- ig í gegnum þetta að samlíking- in við spænsku veikina verði alls ekki viðeigandi. Þó að margt kunni nú að minna á árið 1918 eru aðstæður allar aðrar } Ólíkar aðstæður Japönsk stjórn-völd og alþjóða- ólympíunefndin ákváðu í samein- ingu í gær að rétt- ast væri að fresta Ólympíuleikunum, sem átti að halda í Tókýó í sumar, þar til í síðasta lagi næsta sumar. Þessi ákvörðun var nánast sjálftekin, eins og bent var á hér í blaðinu í gær. Undirbúningur margra þeirra íþróttamanna sem áttu að etja kappi þar var í molum og fresta hefur þurft sumum mót- um sem veittu keppnisrétt á leikunum. Þeir hefðu því ekki verið svipur hjá sjón, auk þess sem ekki er útséð með að heimsfaraldurinn verði á enda runninn í sumar, með tilheyr- andi smithættu fyrir þá sem að leikunum koma. Ákvörðunin er skiljanlega sár fyrir Japani, sem höfðu lagt mikið í að gera leikana í sumar sem veglegasta. Þeir hafa enda lagst gegn frestun leikanna al- veg til síðustu stundar þegar augljóst var að ekki væri um annað að ræða. Þá kann að hafa spilað inn í þjóðarstolt, sem og sú stað- reynd að síðast þegar fresta þurfti leikunum átti einnig að halda þá í Tókýó. Styrjaldartímar komu þá í veg fyrir þær fyrirætlanir. Þetta verður í fyrsta sinn frá árinu 1944 að fresta þarf Ól- ympíuleikum, og í fyrsta sinn sem slíkt er gert án þess að ófriði sé um að kenna. Það segir sitt um alvarleika málsins og þá baráttu sem nú er háð um allan heim gegn kórónuveirunni. Rétt er að taka þá baráttu alla leið. Ólympíuleikarnir og íþrótta- andi þeirra standa sem fyrr sem tákn um margt af því besta sem mannkynið hefur fram að færa. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japana, hét því að leikarnir í Tókýó yrðu vitnisburður um sigur mannkynsins á kórónu- veirufaraldrinum. Megi þau orð hans rætast, þannig að Ólympíuleikarnir 2021 verði sem glæsilegastir. Ólympíuleikunum varð að fresta, þótt sársaukafullt sé} Óumflýjanleg ákvörðun Í dag er fjarfundadagur á Alþingi. Líka á morgun. Umfjöllunarefnið er fjáraukalagafrumvarp ríkis- stjórnarinnar þar sem gert er ráð fyrir að tekið sé 95 milljarða króna lán fyrir beingreiðslu vegna barna, gjafa- bréfi til ferðalaga innanlands og tíma- bundnu fjárfestingarátaki til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu. Síðast þegar við tókum risastórt lán út af hruni efnahags- kerfisins fengum við þrotabú gömlu bank- anna á móti lánunum. Núna fáum við ekkert nema arðinn af þeim fjárfestingum sem stjórnvöld hyggjast ráðast í fyrir þetta lánsfé. Þau átaksverkefni sem ráðist verður í skila örugglega einhverjum ábata til lengri tíma og lánakjör eru vissulega góð einmitt núna. Tækifærið er tvímælalaust þarna til þess að grípa það. Þær framkvæmdir sem ætlunin er að ráð- ast í eru þær sem eru neðar á þeim verkefnalista sem verið er að vinna í samkvæmt gildandi fjármála- áætlun, samgönguáætlun og þess háttar. Semsagt, ekki eins mikilvæg verkefni og ekki eins arðbær verk- efni. Því annars hefðu stjórnvöld væntanlega raðað núverandi verkefnalista öðruvísi. Við erum að tala um lán frá framtíðinni, með von um að afborganirnar af því láni verði ekki eins sárs- aukafullar og sú dýfa sem við sjáum fyrir okkur núna. Með von um að framtíðin sem við fáum að láni verði betri ef við fáum þaðan lán, frekar en ekki. Trygg- ingin fyrir því er hins vegar engin. Ákvarðanirnar sem verða teknar um það hvernig þeim fjármunum verður ráðstafað munu skipta gríðarlega miklu máli um það hvernig næstu ár leggjast fyr- ir framan okkur. Það skiptir því máli að við spyrjum gagnrýninna spurninga um þessa miklu útdeilingu á sameiginlegum fjár- munum: Hver fær pening og af hverju? Hvað er arðbær fjárfesting og þýðir sú staðhæfing eitthvað miðað við að við fáum aldrei að vita hver væntur arður er af fjárfestingum? Miðað við mína reynslu þá hringir þetta öll- um aðvörunarbjöllum vegna þess að þó að þetta líti vel út á blaði þá er „arðbær fjár- festing“ innantóm orð. Síðasta kostnaðar- og ábatagreinda verkefnið sem ég sá á veg- um stjórnvalda var borgarlínan árið 2018. Samt er það lagaleg skylda stjórnvalda að leggja fram kostnaðaráætlun og ábata- greiningu varðandi alla notkun á opinberu fé. Segjast stjórnvöld ætla að gera það? Já. Gera þau það? Nei. Það er verið að taka 95 milljarða lán í ýmis verkefni sem giskað er á að muni skila ábata og redda okkur úr lægðinni. Það er fullyrt að um arðbærar fjárfest- ingar verði að ræða en á sama tíma er augljós og við- urkennd áhætta upp á 35 milljarða króna. Kaldhæðn- isleg upphæð í sögulegu samhengi en einhverjir muna kannski að tap skattgreiðenda vegna neyðarláns til Kaupþings var einmitt 35 milljarðar. Það ætti að gefa okkur hugmynd um hver ábyrgðarlega stærðargráðan er. Björn Leví Gunnarsson Pistill Ákvörðun í dag, ábyrgð á morgun Höfundur er þingmaður Pírata bjornlevi@althingi.is STOFNAÐ 1913 Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík. Ritstjóri: Davíð Oddsson Aðstoðarritstjóri: Karl Blöndal Ritstjóri og framkvæmdastjóri: Haraldur Johannessen

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.