Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.04.2020, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.04.2020, Blaðsíða 4
HEIMURINN 4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26.4. 2020 Heilsan er bara mjög góð; éghef verið með lítil sem eng-in einkenni. Maður veit hins vegar að þessi veira er óút- reiknanleg þannig að ég gæti átt eft- ir að veikjast.“ Þetta segir Auður Helga Ólafs- dóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heil- brigðisstofnun Vestfjarða, en hún greindist með kórónuveiruna um síðustu helgi. Auður vinnur alla jafna á sjúkrahúsinu á Ísafirði en hafði verið við störf á hjúkrunar- heimilinu Bergi í Bolungarvík frá því í byrjun þessa mánaðar, þangað sem hún var lánuð vegna ástandsins þar. Vaknaði með raddleysi Auður vaknaði með raddleysi á laug- ardeginum en það kemur stundum fyrir, þannig að engar viðvörunar- bjöllur hringdu fyrir þær sakir. „Ég átti svo að vera í fríi á sunnudegin- um og ætlaði að hvíla mig. Þá var ég hins vegar orðin aðeins nefmælt, þannig að ég dreif mig í próf sem reyndist vera jákvætt. Það var auð- vitað sjokk en lítið við því að gera annað en að fara beint í einangrun,“ segir Auður. Að öllu jöfnu hefðu þessi vægu einkenni ekki stöðvað Auði. „Væri kórónuveiran ekki inni í myndinni væri ég örugglega bara í vinnunni. Það hefði ekki hvarflað að mér að vera heima út af svona smámunum. Ég varð mér úti um mæli í byrjun vikunnar og þá kom í ljós að ég var með nokkrar kommur, án þess að ég fyndi fyrir því. Vonandi verður þetta ekki verra en auðvitað er maður við öllu búinn; flestir veikjast ekki fyrr en svona viku eftir að þeir greinast með veiruna. Þetta gæti hæglega átt eftir að skjóta mig niður,“ segir Auð- ur, sem er 56 ára og heilsuhraust. Gott að vera vitur eftir á – Veistu hvernig þú smitaðist? „Ég get ekki verið alveg viss en mig grunar að það hafi gerst eftir vakt á Bergi í síðustu viku. Ég sofn- aði þá á verðinum eitt augnablik meðan ég var að fara úr og ganga frá búningnum mínum. Ég hugsaði strax með mér: Æ, þetta hefði ég ekki átt að gera! En það er gott að vera vitur eftir á. Þetta sýnir manni hvað það skiptir ofboðslega miklu máli fyrir okkur heilbrigðisstarfs- fólk að vera varkár og halda einbeit- ingu. Gildir þá einu hvort við erum að koma örþreytt af langri vakt. Sem betur fer er ég eini starfsmað- urinn sem hefur smitast og vonandi verður það þannig áfram.“ Auður getur ekki útilokað að smit- ið hafi borið að með öðrum hætti en telur það þó mjög ólíklegt enda hafi hún lítið annað gert undanfarnar vikur en að vinna og vera heima hjá sér þess á milli. – Hvernig er andrúmsloftið á Bergi við þessar erfiðu aðstæður? „Það er mjög gott miðað við að- stæður og ég er að vinna þarna með ótrúlegu fólki. Allir eru að gera sitt besta, hvort sem það eru vanir heil- brigðisstarfsmenn eða ungir krakk- ar úr bakvarðasveitinni sem aldrei áður hafa unnið við aðhlynningu. Það ganga allir í sömu áttina. Það hefur verið húmor og gleði á vökt- unum milli þess sem við sinnum veiku fólki og algjör forréttindi að hafa fengið að vinna með þessum glæsilega hópi. Fólk hefur gefið sál sína í umönnunina.“ Að sögn Auðar er aðbúnaður góð- ur á Bergi. „Á heildina litið er búið vel að okkur og ekki undan neinu að kvarta. En fólk hefur þurft að vinna mjög mikið; allt vana fólkið á hjúkr- unarheimilinu datt út.“ Tveir heimilismenn af ellefu á Bergi hafa látist af völdum kór- ónuveirunnar sem Auður segir að vonum þyngra en tárum taki. Hún segir vistmenn hafa tekið ástandinu af miklu æðruleysi en þeir hafa verið lokaðir af vikum saman. „Fólk tekur þessu ótrúlega vel og það er eins og fólk með heilabilunar- sjúkdóma skilji þetta líka. Heimilis- menn eiga orðu skilið.“ Erfitt að vera heima – Hvernig tilfinning er að vera allt í einu komin sjálf á hliðarlínuna? „Það er mjög erfitt að vera heima, sérstaklega af því að ég finn ekki fyrir neinu. Það er leiðinlegt að geta ekki lengur lagt sitt af mörkum,“ svarar Auður, sem er nú úr leik í alla vega fjórtán daga frá smitgreiningu og mögulega lengur, þar sem hún er heilbrigðisstarfsmaður. Henni leiðist þó alls ekki í ein- angruninni á heimili sínu. Vel sé um hana hugsað og vinir og vinnu- félagar séu duglegir að hafa sam- band og kanna hvernig hún hafi það. Þá hafi hún greiðan aðgang að frétt- um og afþreyingu gegnum hina ýmsu miðla. „Það er ekki svo mikið mál að vera í einangrun eða sóttkví árið 2020, þannig lagað. Maður get- ur gert nánast allt sem maður vill; fyrir utan auðvitað að fara úr húsi.“ Tveir aðrir búa á heimili Auðar, eiginmaður hennar og nítján ára dóttir, og eru þau bæði komin í sóttkví. Í kjallara hússins býr svo önnur dóttir hennar, ásamt manni sínum og barni, og þau þurftu einnig að fara í sóttkví sem þau taka að vísu út í Reykjavík. „Þau keyrðu beina leið suður. Það hentaði þeim betur að klára þetta þar. Þau eru nýflutt hingað vestur,“ segir Auður og bæt- ir við að báðar dæturnar hafi tekið próf og reyndust þau í báðum til- vikum neikvæð. „Vonandi hef ég ekki smitað neinn.“ Spurð um framhaldið í glímunni við kórónuveiruna almennt svarar Auður: „Meðan ekki er til bóluefni verður erfitt að berja þennan vágest alveg niður. Hættan verður alltaf sú að hann blossi upp aftur. Mannkynið mun örugglega læra af þessari erf- iðu reynslu og spyrja sig í framhald- inu hvort við þurfum endilega alltaf að vera að heilsast með handabandi og knúsast. Mér segir svo hugur að minna verði um slíkt í framtíðinni, alla vega á næstu mánuðum, sem yrði þá ekki bara góð vörn gegn kór- ónuveirunni heldur alls kyns öðrum veirusýkingum líka. Við sjáum að aðrar veirusýkingar eru nú minna á ferðinni en venjulega vegna aðgerð- anna sem gripið hefur verið til und- anfarnar vikur. Margt hefur verið sorglegt og erfitt í þessum heimsfar- aldri en trú mín er sú að margt gott eigi eftir að koma út úr þessu líka.“ Hrædd við bakslag – Hvenær heldurðu að lífið verði komið aftur í fastar skorður hér á landi? „Ég er svolítð hrædd við bakslag þegar losað verður um höft en treysti þríeykinu okkar til að grípa hratt og örugglega inn í, gerist þess þörf. Það eru því miður ekki allir ábyrgir en smám saman verður okk- ur kennt að hegða okkur vel. Von- andi finnst svo bóluefni sem fyrst. Sumarið fer í að slípa okkur til en ég spái því að haustið verði okkur gott.“ – En á heimsvísu? „Það er ekki gott að segja. Þar vegast á skynsemissjónarmið og peningasjónarmið. Ég óttast bæði hvað gerist þegar landamæri verða opnuð og ekki opnuð. Þetta eru mjög óræðir tímar.“ Auður segir samanburð við önnur lönd okkur hagfelldan. „Ég er rosa- lega stolt af því að vera Íslendingur. Hér hafa verið teknar erfiðar ákvarðanir en baráttan gengur vel og aðrar þjóðir farnar að horfa til okkar. Við erum í fremstu línu.“ Sjálf vonast Auður til að losna sem fyrst úr einangrun. „Vonandi slepp ég vel frá þessu og get farið aftur að vinna á Bergi – og tekið á móti sólinni.“ Sofnaði eitt augnablik á verðinum Auður Helga Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur smitaðist af kórónuveirunni, að því er hún telur vegna þess að hún gleymdi sér eitt augnablik þegar hún gekk frá búningi sínum eftir langa vakt á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Auður Helga Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur kom í gættina á heimili sínu á Ísafirði til að sitja fyrir á mynd. Hún þarf að vera í einangrun í tvær vikur eða í eina viku eftir að hún er einkennalaus eftir að hafa smitast af kórónuveirunni. Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.