Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.04.2020, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.04.2020, Blaðsíða 17
kynslóðirnar á undan þeim bera þó alla ábyrgð á. Það væri nær að senda okkur niður í fjöru að tína. En við höfum séð myndir nafna Attenborough og vitum að það mun ekki bjarga höfunum úr þessu að tína plast þar. Og við vitum líka flest að það er fæst satt sem sagt er um endurvinnslu í ríkustu þjóðfélögum heims. Það er engin endurvinnsla að senda risa pramma með plasti heim í fátæktina á Filippseyjum eða á annan svipaðan stað. Það eyðileggur hins vegar alla umræðu þegar hún er færð í búning heilagra sanninda sem aðeins megi ræða að fyrir fram gefinni forsendu og lokaniður- stöðu. Það er ekkert að því að ræða trú sína undir þannig formerkjum. Það felst í orðinu sjálfu og inn- taki þess. Og af því að þar er trú á ferðinni vitum við og virðum að það má ekki gera þá kröfu að náunginn fallist á þá trú. Það er algjörlega hans mál. Enn fjarlægra og framandi er það þá að ætla sér að fella fræðilegar eða pólitískar deilur í trúarlegan ramma. Og ekki bara trúarlegan, heldur það sem myndi vera nær að kalla ofsatrúarlegan ramma! Þorði að blása á ruglið Margrét II. Danadrottning kom sumum löndum sín- um á óvart í aðdraganda 80 ára afmælis síns þegar hún svaraði spurningum um loftslagsmálin. Hún svaraði einni spurningunni svona: „Mannfólkið hefur sín áhrif á loftslagsmálin, um það er ekki að efast. En hvort umræddar breytingarnar eru beinlínis af völd- um mannsins er ég ekki fyllilega sannfærð um. Lofts- lagið tekur sífelldum breytingum eins og sagan sýn- ir.“ Og drottningin bætti við: „Sem þjóðfélag ættum við ekki að vera í uppnámi vegna loftslagsbreytinga. Auðvitað eru þetta mikilvægir þættir sem ber að hafa vara á. En uppnám (panik) er óhæf leið til að leysa úr þeim vanda. Slík nálgun gengur aldrei.“ Ríkisútvarpið hér sagði frá því að nokkurt uppnám hefði orðið út af orðum drottningar. En það var aðeins hálfsannleikur, eins og vænta mátti frá þeim bæ. Talsmaður Sósíalistaflokksins, Signe Munk, sagði að yfirlýsing drottningar væri „sérlega ógeðfelld“ og „fáheyrð“. Og talsmaðurinn bætti við að „drottningin bæri mikla ábyrgð gagnvart dönsku þjóðinni sem hún hefði ekki risið undir þarna“. Og bætti svo við: „Þetta var mikið högg í kvið allra þeirra barna og ungs fólks sem hefur djúp- stæðar áhyggjur af loftslagsmálum.“ Mai Villadsen, talsmaður Rauðgræna bandalags- ins, sagði það valda vonbrigðum að drottningin skyldi nota afmæli sitt til að blása nýju lífi í gamlar glæður sem notaðar hefðu verið til að vekja vantrú á að lofts- lagsbreytingar væru beinlínis af manna völdum. En af hinni hlið stjórnmálanna sagðist talsmaður Danska þjóðarfloksins „stoltur og ánægður með að búa að drottningu sem hefði dirfsku og kjark til að tala af hreinskilni við þjóð sína“. Aðrir af þeim væng tóku í sama streng. Það var augljóst að íslenska Ríkisútvarpið var hlut- drægt þegar það fjallaði um þetta mál og dró þekktan taum. Á heimsvísu mætti ætla að páfinn í Róm hefði meiri áhrif en hin ágæta drottning Dana. En það fékk furðu litla umræðu og enga hneykslan þegar Frans páfi gaf til kynna fyrr í þessum mánuði að „líta mætti á kórónuveiruna og faraldur hennar sem eitt svar náttúrunnar vegna aðgerðarleysis mann- kyns í loftslagsmálum!“ Nýtt hálmstrá Í Bretlandi eru þeir til sem ekki hafa litið glaðan dag eftir að Boris Johnson fékk stuðning þjóð- arinnar í annað sinn við að koma Bretum úr Evr- ópusambandinu. Nú líta þeir á kórónuveiruna sem óvæntan bandamann. Fyrst reyndu þeir að gera sér mat úr smælki og blésu upp að Bretar hefðu misst af því að vera með í innkaupapakka á grímum og þess háttar með ESB af því að þeir væru á leiðinni út. Þetta mál lognaðist þó út af þegar í ljós kom að ESB hafði sjálft misst af þeim kaupum. En þá kom stóra málið: Krafa um að útgöngunni úr ESB yrði nú frestað í tvö ár vegna veirunnar og þeirra efnahagslegu afleiðinga sem faraldurinn myndi hafa á Breta! Það hafði farið framhjá þessum súru töpurum að efnahagurinn í bandalaginu er á ónýtari brauðfótum en menn standa á víðast hvar annars staðar. Allvíðtæk umræða er hins vegar um það hvort ESB sjálft lifi af aumingjadóm sinn í baráttunni við veiruna. Það verði því ekkert til að fara úr. Morgunblaðið/Árni Sæberg 26.4. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.