Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.04.2020, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.04.2020, Blaðsíða 12
VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26.4. 2020 Að leiða fólk saman Edda segir að vinnan við Gettu betur hafi heldur betur kveikt áhuga hennar á fjölmiðlum og að koma fram þótt áhuginn hafi lengi blund- að í henni. „Þegar ég var í menntaskóla var ég líklega búin að sækja um í Kastljósi tvisvar, þannig að áhuginn var alltaf til staðar. En svo var ég auð- vitað komin með próf í hagfræði og vildi nýta það þannig að þegar ég fékk tilboð að koma á Viðskiptablaðið fannst mér ég geta sameinað þetta tvennt. En ég fékk eins og margar konur þekkja „imposter syndrome“. Spurði mig af hverju ég væri þarna, ég sem kynni svo lítið. Mér fannst ég að sumu leyti læra meira á Við- skiptablaðinu heldur en í náminu og þetta var gríðarlega skemmtilegur og áhugaverður tími. Ég var þarna í þrjú ár og síðasta árið var ég orðin aðstoðarritstjóri,“ segir Edda og hún segir að á þessum tíma hafi áhuginn á jafnrétti kynjanna aukist. „Við vorum fáar stelpur að vinna þarna á Viðskiptablaðinu og konur voru sjaldnar við- mælendur í blaðinu þar sem fáar konur skip- uðu æðstu stöður fyrirtækja og embætti á þessum tíma. Við vorum því markvisst að reyna að fjölga konum í blaðinu og auka fjöl- breytileika. Þarna kviknaði áhugi minn á að efla konur og hvetja þær til að koma fram.“ Edda nefnir að í aðstoðarritstjórastarfinu hafi falist að leiða hópinn og taka nýjar stefnur í starfinu. „Mér finnst gaman að leiða fólk saman í alls kyns verkefnum. Að ná fólki saman, breyta hlutum sem eru formfastir og koma með nýj- ungar,“ segir hún. „Svo hef ég alltaf verið fullorðin í mér. Það er gert grín að því að ég sé fædd miðaldra. Ég var yngst á blaðinu en velti því aldrei fyrir mér og ég held að samstarfsfélagarnir sem ég vann með hafi ekki gert það heldur,“ segir hún. „Ég er skipulögð og var alltaf með plan. Ég var farin að spyrja vinkonur mínar strax í menntaskóla hvað væri á fimm ára planinu. Það var ekki mjög vinsæl spurning,“ segir hún og brosir. „Ég er ennþá þannig að ég þarf að hafa plan og þarf að vita hvert ég er að stefna. En svo er ég óhrædd við að breyta planinu ef mig langar eitthvað annað og vera auðmjúk fyrir því að stundum gengur planið alls ekki eftir.“ Hefðum getað verið skýrari Í dag vinnur Edda sem markaðs- og sam- skiptastjóri Íslandsbanka og líkar vel. „Ég ætlaði aldrei að vinna í banka en fann fljótt að þessi menning og fólkið þarna fékk mig til að langa til að taka þátt í þessu verk- efni. Ég vinn líka með sterkum leiðtogum sem ég læri mikið af. Ég byrjaði sem samskipta- stjóri en tók svo seinna við greiningardeildinni og svo markaðs- og vefdeild. Það þarf að passa að upplýsingaflæði sé gott á stórum vinnustað svo allir séu að róa í sömu átt. Vinna í greining- ardeildinni tengist svo í raun enn meira nám- inu mínu. Við erum að búa til fjölbreytt grein- ingarefni og svo fræðsluefni um fjármál, og svo þarf að huga vel að innri samskiptum. Ef ég horfi til framtíðar þá er ég viss um að sam- skiptaþátturinn muni skipa enn stærri sess því það er svo mikið af tækninýjungum og störfin eru að breytast hjá svo mörgum að ég held að það muni reyna mikið meira á þessa hæfileika hjá stjórnendum, að vera góðir í sam- skiptatækni,“ segir hún. „Þetta er ofboðslega skemmtilegt starf. Mér finnst mitt helsta hlutverk vera að búa til framtíðarsýn fyrir teymið mitt og lyfta þeim upp í því sem þau kunna hvað best.“ Síðasta haust gaf Íslandsbanki út þá yfirlýs- ingu að hann hygðist ekki auglýsa hjá fjöl- miðlum þar sem kynjahallinn væri mikill. Var þessi ákvörðun Íslandsbanka víða gagnrýnd og þurfti Edda að svara fyrir hana. Ef þú horfir til baka, var þetta rétt ákvörð- un? „Það sem við sáum eftir á var að við hefðum átt að útskýra betur heildarhugmyndina. Vissulega er þetta vegferðin, að horfa til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna við inn- kaup líkt og flest fyrirtæki eru að gera og það þarf hugrekki til að breyta hlutunum. En við hefðum getað verið skýrari, en maður lærir víst svo lengi sem maður lifir. Við hættum ekki að auglýsa hjá neinum; það var alveg skýrt að það var ekki tilgangurinn þarna en við vildum hefja samtal og höfum átt mjög góðar umræð- ur við flesta fjölmiðla varðandi þessi mál. Þetta er langtímaverkefni.“ Langar þig ekkert aftur í fjölmiðla? „Ekki í dag en enginn veit ævi sína fyrr en öll er. Ég myndi ekki útiloka það neitt en ég hef fengið mikla útrás fyrir að skrifa að undan- förnu sem er mikið áhugamál hjá mér þegar börnin eru sofnuð. Við Eva systir grínumst oft með það að við eigum eftir að vera með skemmtiþátt einhvern tímann í lífinu. En það kallar ekki á mig núna, ég brenn fyrir verk- efnin mín í vinnunni og nýt þess þar að takast á við nýjar áskoranir.“ Hvernig skemmtiþáttur yrði það? „Það er nokkuð ljóst að það er erfitt að endurgera Á tali,“ segir Edda og hlær. Að efla konur Bókin Framkoma kom í hillurnar í vikunni en í henni má finna ýmsan fróðleik um greinaskrif, ræðumennsku, fundarstjórn og framkomu, svo fátt eitt sé nefnt. Í bókinni eru einnig yfir tutt- ugu viðtöl við reynslumikið fólk sem gefur góð ráð, en Edda hefur lengi haft í huga að gefa út þessa bók. „Þetta var mikil vinna en ég var búin að safna efninu saman um nokkurra ára skeið. Ég var strax byrjuð að taka niður punkta þegar ég vann við fjölmiðla og síðan héldum við Eva Laufey námskeið um framkomu fyrir konur, þannig að ég átti mikið efni til,“ segir hún. „Einn tilgangurinn með þessari bók var að efla konur til dáða. Konur eru ragari við að láta í sér heyra þótt það hafi mikið breyst á síðustu árum. En ég held að það sé vettvangur fyrir konur að skrifa meira og vera meira áberandi með það sem þær kunna. Ég myndi vilja hvetja konur til að vera ófeimnari að láta heyra í sér og segja sínar skoðanir. Stundum erum við of varkárar. Við þurfum að setja markið hátt og stefna að því. Bókin getur von- andi hjálpað fólki til þess.“ Af hverju vildir þú skrifa þessa bók? „Mér fannst ekki vera til neitt efni þegar ég var að hjálpa starfsfólki og stjórnendum við að koma fram. Mér fannst vanta lista yfir það sem fólk þyrfti að hafa í huga,“ segir Edda og segir galdurinn vera þann að vera vel undir- búinn en um leið leyfa sér að spinna á staðn- um. „Það er smá mótsögn í þessu því maður seg- ir fólki að æfa sig en um leið að vera afslappað, en ef fólk gefur sér tíma til að æfa sig verður það afslappaðra. Því ef við kunnum og vitum mikið en getum ekki komið því frá okkur þá sannfærum við ekki marga. Hugmyndin með bókinni var að efla fólk, og ekki bara konur, til að þora að segja sína skoðun og láta heyra í sér,“ segir hún. „Svo er enginn fullkominn og alltaf hægt að laga eitthvað í framkomu. Ég fór einu sinni í þáttinn hans Gísla Marteins og vinir mínir ákváðu að fá sér skot í hvert sinn sem ég segði sko. Þau voru orðin nokkuð hífuð í lok þáttar,“ segir hún og hlær. Leynilegt stefnumót Núverandi sambýlismaður og unnusti Eddu er Ríkharður Daðason hagfræðingur, en Edda og barnsfaðir hennar skildu eftir tólf ára sam- band árið 2014. Börnin, Emilía og Sigurður Halldórsbörn, eru tólf og níu ára og fósturdótt- irin, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, er fjórtán. Edda og Ríkharður urðu par árið 2017. Var þetta ást við fyrstu sýn? „Nei, ætli það en það kom nú ansi fljótt. Hann hafði samband við mig og vildi bjóða mér í kaffi en það tók mig smátíma að sam- þykkja það. En hann var mjög þolinmóður og loksins fórum við á stefnumót og höfum verið föst saman síðan.“ Fóruð þið á kaffihús? „Nei, við fórum og náðum í KFC! Ég vildi fara á mjög leynilegt stefnumót og hann mátti fara að sækja KFC. Það var kannski ekki hefð- bundið rómantískt,“ segir hún og skellihlær. Edda segist hafa viljað fara varlega í sak- irnar í byrjun, og þá sérstaklega vegna barnanna. Þau héldu sambandinu leyndu í hálft ár en fóru svo að rugla saman reytum sín- um. „Börnin okkar þrjú ná vel saman sem er ekki sjálfgefið. Sambandið hefur verið merki- lega einfalt en við erum með svipuð gildi í líf- inu. Hann er aðeins eldri en ég, en það er fjór- tán ára aldursmunur á okkur. Það kemur aftur inn á það að ég fæddist miðaldra; hann gerir mikið grín að því að ég sé miklu eldri en hann í fari mínu. Ég er kannski gömul sál. Mér fannst aldursmunurinn aldrei óþægileg- ur, ég velti því lítið fyrir mér. Hann er pínu andstæðan við mig; rólegur, afslappaður og nákvæmur. Það er meiri hraði á mér og ég finn að hann hefur róandi áhrif á mig og svo tekst honum að láta mig hlæja nógu mikið sem er eitt það mikilvægasta. Það geta allir vottað það að ég hef orðið mun slakari síðustu árin og vil ég núna helst vera heima sem mest að spila við fjölskylduna. Við erum með börnin viku og viku og leggjum mikið upp úr því að eiga góð- ar stundir með börnunum þegar þau eru hér og deila áhugamálum með þeim. Það sést kannski líka á boltunum hér í stofunni að fót- boltinn á hug og hjarta allra heimilismeð- lima.“ Skellti sér á skeljarnar Edda og Ríkharður trúlofuðu sig nokkuð óvænt í brúðkaupi hjá Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur og Hauki Inga Guðnasyni sem haldið var á Ítalíu í fyrrasumar. „Hann var búinn að hugsa þetta; að fara að henda sér á skeljarnar, en það átti nú ekki að gerast þarna. Í lok veislunnar ætlaði Ragn- hildur að kasta brúðarvendinum og það byrj- aði einhver brandari með það að ég ætti að grípa hann. Mér fannst þetta mjög amerískt og bíómyndalegt en hugsaði, hver skrambinn, ég hendi mér í þetta! Tók tilhlaup og greip vöndinn og fólk fór að syngja nafnið hans Rikka. Það myndaðist rífandi stemning og hann skellti sér á skeljarnar þarna á staðnum. Og ég sagði að sjálfsögðu já. Sveppi klappaði Rikka á bakið og sagðist geta komið honum út úr þessu daginn eftir, en það hefur ekki orðið ennþá,“ segir hún og hlær. ’Mér fannst þetta mjögamerískt og bíómyndalegten hugsaði, hver skrambinn,ég hendi mér í þetta! Tók til- hlaup og greip vöndinn og fólk fór að syngja nafnið hans Rikka. Það myndaðist rífandi stemning og hann skellti sér á skeljarnar þarna á staðnum. Börnin þrjú, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Emilía og Sigurður Halldórsbörn eru hér með foreldrunum Ríkharði og Eddu á góðri stundu.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.