Sjómannadagsblaðið - 02.06.2019, Blaðsíða 24
24 s j ó m a n n a d a g s b l a ð i ð j ú n í 2 0 1 9
M ig langaði alltaf að komast á sjóinn,“ segir Lína Hild-ur Jóhannsdóttir veiði-
eftirlitsmaður, en hún hefur verið á
sjó í rúm 30 ár og ætlar að halda því
áfram. Sjómennskan hafi þó ekki
verið í fjölskyldunni. „Pabbi var
bifvélavirki, en ég ólst náttúrlega
upp við sjóinn í Hafnarfirði,“ segir
hún og bætir því við að fyrir ferm-
ingu hafi hún verið farin að vinna
í Bæjarútgerðinni. „Maður var því
alltaf að vinna í fiski í öllum fríum
og fylgdist með skipunum koma og
fara. Það gæti hafa haft sín áhrif.“
Þegar vinnsluskipin komu segist
Lína strax hafa fengið áhuga á þeirri
útgerð og vildi hún taka þátt.
Lína Hildur lauk námi frá Fisk-
vinnsluskólanum og öðlaðist í
kjölfarið réttindi sem löggiltur mats-
maður, en á þeim tíma var skylda að
vera með löggiltan matsmann um
borð til að fá vinnsluleyfi. „Og það
var mín leið á sjóinn. Ég byrjaði 1988
og þá á Vestmannaey VE 54, þar sem
ég var á annað ár.“ Segir hún það
til marks um framsýni þeirra sem
gerðu út skipið að ráða konu í starfið,
en á þeim tíma voru ekki margar
konur til sjós, þótt einhver dæmi
hafi verið um konur á frystitogur-
unum. Ekki hafi samt verið neinn
slagur um plássið. „Það var eigin-
lega á hinn veginn, því á þessum
tíma voru þeir í vandræðum með að
fá fólk með réttindi á sjóinn. Þaðan
lá svo leiðin á Harald Kristjánsson
HF 2, sem seinna var seldur og heitir
núna Helga María. Þar var ég í tæp
fimmtán ár.“
Mikið unnið og hratt
Viðtökurnar á sjónum segir Lína
Hildur hafa verið góðar og hún hafi
ekki yfir neinu að kvarta í þeim efn-
um. „Og þar kemur náttúrlega líka
til að þó að ég hafi ekki verið sjó-
maður kunni ég auðvitað til verka.“
Þá segir hún ekki sitja í sér atvik
þar sem samskipti hefðu mátt vera
betri, slíkt geti alls staðar komið upp.
Þá hafi hún ekki þurft að setja sig í
neinar sérstakar stellingar eða látast
„ein af strákunum“ þótt hún væri
eina konan um borð.
„Ég var bara ein af áhöfninni.
Þetta var mín áhöfn og mín vakt og
við unnum að sameiginlegu mark-
miði. Það kemst enginn í gegnum líf-
ið án þess að hitta einstaklinga sem
þeir eiga ekki skap saman með. Í
endurminningunni eru það ekki ör-
fáir einstaklingar sem standa upp úr
heldur er það að hafa verið hluti af
framúrskarandi áhöfn. En alls stað-
ar, sama hvar maður er, þarf maður
að sanna sig. Og það hefur kannski
hjálpað mér að ég gat unnið. Ég hef
alla tíð unnið mikið og unnið hratt.“
Um það snúist lífið á frystitogaran-
um, að geta hreyft á sér hendurnar.
„Þessi rúm 30 ár til sjós hef ég verið
fyrir sakir iðjusemi, dugnaðar og
seiglu, en þetta er ekki þannig að
það hafi útheimt blóð, svita og tár,“
segir Lína ákveðin.
Lína segir að það sem matsmenn
geri um borð, umfram aðra, sé að
sinna gæðamálum, fylgja eftir
vinnslureglum fyrir hverja tegund
og taka nýtingarprufur. Störfin snúi
að gæðum og nýtingu afla, en á því
sviði hafa einmitt orðið stórstígar
framfarir síðustu ár. „Hér áður fyrr
var umgengnin bara ekki eins og
hún átti að vera. En nú seinni árin
hefur þetta breyst rosalega mikið
og allir eru meðvitaðir um að þetta
sé matvælaframleiðsla og áherslan
á að framleiða gæðavöru.“ Að baki
þessari hugarfarsbreytingu liggi
margvíslegar ástæður, en drifkraft-
urinn hafi verið metnaður þeirra
sem framleiði vöruna. „Sum árin
er kaupendamarkaður og önnur
sölumarkaður. Og með takmark-
aðri auðlind og minni kvóta eykst
metnaðurinn í þá átt að skila frá sér
góðri vöru.“
Takmarkaða auðlind
þarf að nýta vel
Reynsluna úr störfum hennar sem
matsmaður segir Lína að hafi svo
nýst henni þegar hún hóf störf
hjá Fiskistofu 2003, eftir 15 ár í
frystingunni. „Áhöfninni er skylt
að taka nýtingarprufur og frysti-
togararnir eru einu skipin sem
mega vinna afla um borð áður en
hann er vigtaður. Aðrir þurfa að
koma með aflann í land og vigta.
Nýtingarprufurnar sýna hversu
mikill fiskur hefur verið veiddur
og það var náttúrlega reynsla mín
og bakgrunnur sem matsmaður
sem hjálpaði mér þegar ég fékk
vinnu hjá Fiskistofu, því sem
eftirlitsmaður er ég alltaf að taka
nýtingarprufur og sannreyna að
áhöfnin sé að gera það sem hún
segist gera.“
Og tilfellið er, að sögn Línu, að
flestir séu að gera það sem þeir seg-
ist gera. „En svo skilar reynslan mér
náttúrlega því, hafandi farið á öll
skipin, að ég get leiðbeint um hvað
er hægt að gera betur til að bæta
nýtinguna og skila fleiri kílóum í
lestina. Vinnsluleyfið hjá þeim er
háð því að þeir skili hámarksnýt-
ingu.“ Góða nýtingu segir Lína
sérlega mikilvæga í ljósi þess að
auðlindin sé takmörkuð og með
því að hámarka nýtingu aflans fari
saman hagsmunir áhafnar, útgerðar
og þjóðarinnar.
Það var með nokkrum trega sem
Lína kvaddi samhenta áhöfn eftir
að hafa sótt um og fengið starf hjá
Fiskistofu. „Það er auðvitað með
mig eins og aðra að ekki yngist
maður,“ segir hún og kveðst hafa
viljað prófa eitthvað nýtt áður en
starfsævinni lyki. „Og það hefur ver-
ið bæði lærdómsríkt og áhugavert að
starfa sem eftirlitsmaður, til dæmis
að fara á milli skipa, kynnast nýju
fólki og vera þátttakandi í þeirri
vinnu, þar sem allir vinna að sama
markmiði en fara misjafnar leiðir.“
Eins hafi það haft í för með sér ný
tækifæri að vinna hjá ríkinu, því
með það í farteskinu hafi hún getað
sótt um skiptidvöl hjá Norrænu ráð-
herranefndinni.
Lærdómsrík vist í Noregi
„Ég sótti um að komast til Noregs
og 2009 varð úr að ég fór í nokkra
mánuði til Fiskeridirektoratet, Fiski-
stofu í Noregi, bæði í eftirliti í landi
og á frystitogara sem heitir Hermes.
Með honum fór ég í mánaðartúr þar
sem við vorum að skoða lokuð hólf.“
Hún segir þann hátt hafðan á, vegna
þess hve mikið flæmi sé undir í eftir-
liti, að þegar rannsaka eigi lokuð
hólf sæki útgerðirnar um að fá að
taka þátt í því. „Og ef ég man rétt fá
skip sem veljast til verksins úthlutað
12 tonnum af þorski fyrir hvern dag
sem þau rannsaka. Hermes fékk
úthlutað bæði rannsóknum á þorski
og rækju. Túrinn var svo kláraður í
Smugunni á rækjuveiðum og algjört
mok það árið.“
Eins fékk Lína að kynnast störf-
um norsku landhelgisgæslunnar,
Kystvakten, í eftirliti á varðskipinu
Haarstadt. „Ég fór með þeim í eftir-
litsferðir í skipin og að loknu því út-
haldi fór ég kynningu í höfuðstöðv-
um þeirra í Sortland.“
Þarna úti fór Lína líka í tveggja
vikna úthald fiskistofunnar með
tveimur öðrum eftirlitsmönnum og
skipstjóra á hraðbátnum Royal Wik-
ing, þar sem búið var um borð. „Þá
sigldum við á milli fjarða og bæja til
að framkvæma eftirlit. Svo fórum
við líka í eftirlit í báta sem voru úti
á sjó. Og þarna er það þannig að
enginn veit hvenær eftirlitið kemur.“
Slíkt eftirlit segir Lína hafið hér
heima, en síðustu ár hafi fylgt Land-
helgisgæslunni á sumrin bátur sem
notaður hafi verið til eftirlits. „Mitt
mat er að Fiskistofa þyrfti að eiga
sína eigin báta og fara á miðin og
geta stýrt eftirlitinu að vild.“
Lína segir hafa verið afar fróð-
legt og mikla reynslu að kynnast
eftirlitsstörfum norsku fiskistofunn-
ar. Nokkur munur sé á aðbúnaði og
umsvifum miðað við það sem við
þekkjum hér heima. „Norðmenn
eiga náttúrlega rosalega mikið af
peningum og eftirlitið þeirra ber
þess vel merki,“ segir hún. Því verði
ekki neitað að á Ísland halli í saman-
burðinum, bæði hvað varðar útgerð
varðskipa og skort á því að halda
megi úti stöðugu eftirliti allt árið
um kring. „Þar var aðbúnaðurinn
góður og eftirlitsmenn vel útbúnir.
Um borð í stóru skipunum eru alltaf
tveir eftirlitsmenn sem standa sex
tíma vaktir, en hér heima er alltaf
bara einn.“
Langar tarnir eru ekki fyrir alla
Lína segir að þessi 15 ár sem hún
hafi verið í eftirlitinu hafi hún líka
orðið vör við viðhorfsbreytingu til
veiðieftirlitsmanna frá því á fyrstu
árunum þegar hún var að byrja.
„Núna finnst mér þegar ég kem um
borð að áhöfnin leggi metnað sinn
í að gera hlutina rétt og sýna fram á
að umgengni um aflann og nýting
hans sé góð, að allur afli sé hirtur og
þar fram eftir götum. Í lok hvers túrs
skrifa ég skýrslu sem Fiskistofa skil-
ar til útgerðarinnar og verð vör við
þessa viðhorfsbreytingu, að menn
brenna fyrir því að sjá að allt sé í lagi
og lagfæra fljótt það sem lýtur að
athugasemdum okkar.“
Verkefni veiðieftirlitsmanns eru
margvísleg, en Lína fer í öll skip sem
eru með vinnslu, frystitogara og
uppsjávarskip sem vinna afla. „Eitt
er til dæmis að lengdarmæla fisk og
fylgjast með því að aflinn standist
stærðarviðmið. Ef mikið mælist af
smáfiski er gripið til skyndilokunar,“
segir hún, en stærð svæðisins sem
skal loka sé ákvörðuð í samstarfi
við Hafrannsóknastofnun og skip-
stjóra. „Þar sem stærstur hluti aflans
er flakaður vinnum við með áhöfn
að því að hámarka nýtingu aflans
með hagsmuni áhafnar, útgerðar og
þjóðarinnar að leiðarljósi. Þetta er
sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að
auðlindin er takmörkuð.“
Þegar talið berst að því hvort við-
mót til kvenna í hópi sjómanna hafi
breyst þessi 30 ár sem Lína hefur
verið til sjós kveðst hún ekki viss um
að á því hafi orðið svo mikil breyting.
„Það eru ekki svo margar konur til
sjós, hvort sem það er vegna skorts
á tækifærum eða áhuga kvenna.
Það get ég ekki sagt til um.“ Viðhorf
fólks sé vitanlega misjafnt. „Og það
geta ekki allir sætt sig við að vera
mánuð á sjó fjarri öllu, en að sama
skapi eru fríin góð. Sjálfsagt setur
líka strik í reikninginn að flotinn
er í eldra lagi og aðbúnaður fyrir
mannskapinn.“ Þá spili inn í að
vinnsluskipum hafi fækkað mikið
síðastliðin ár. „Núna er framboðið
gott af mjög hæfum og reynslumikl-
um sjómönnum og kannski ekki
mikið svigrúm til að veita óvönum
einstaklingum tækifæri.“
Ferðalög hafa alltaf heillað
Umhverfið og uppvöxturinn í
Hafnarfirði, þar sem Lína býr enn,
hafði sín áhrif því í fjögurra systkina
hópi eru þrjú til sjós. Fyrir utan sjó-
inn segir Lína tilveruna fjölbreytta.
Henni henti vel að taka tarnir í
vinnu og eiga svo góð og löng frí
inni á milli. „Gulrótin í starfinu er
náttúrlega fríin og þau vinnur mað-
ur sér inn,“ segir hún. „Ég er mjög
ánægð í starfi og tel það mikið gæfu-
spor að hafa ráðið mig til Fiskistofu.“
Áhugamál Línu hafa svo verið
misjöfn gegnum tíðina. „Þar ber
samt hæst að ég átti breyttan fjalla-
jeppa með bróður mínum. Hann sá
um allt sem sneri að bílnum og ég
fór á fjöll í fríunum með fjölskyldu
og vinum.“ Þetta hafi mest verið
vetrarferðir og svo hafi hún ferðast
víða innanlands. „Síðan tók mót-
orhjólið við og nokkrir rúntarnir
teknir á Harleyinum mínum. En ég
hef ekkert hjólað að ráði síðustu tvö
árin eða svo. Ég á samt Hallann enn-
þá ef mér dytti í hug að þeysa um á
mótorfák.“
Í seinni tíð segir Lína „rólegri og
kvenlegri“ áhugamál hafa tekið við.
„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á
handverki og nota sérstaklega frí-
tímann á sjónum til að prjóna, hekla
og sauma. Handverksáhuginn hefur
fylgt mér alla tíð.“
Þar fyrir utan segist Lína nota
frítíma sinn mikið til ferðalaga.
„Ferðalög hafa alltaf heillað mig og
ég hef ferðast til tæplega 40 landa.“
Stærstu ferðina til þessa segist
hún fara í í haust, en þá verði farið
umhverfis hnöttinn. „En svo er líka
bara gott að vera heima og taka þátt
í daglegum önnum og hversdagsleg-
um veruleika.“ -óká
Hugurinn leitaði út á sjó frá unga aldri
Lína Hildur Jóhannsdóttir vissi strax ung að árum að hún vildi á sjóinn, og þar
hefur hún starfað í rúm 30 ár, fyrst sem matsmaður og svo sem veiðieftirlits-
maður. Mynd/Hreinn Magnússon
lína Hildur Jóhannsdóttir veiðieftirlitsmaður hefur
stundað sjóinn í rúma þrjá áratugi. Hún segir margt hafa
breyst á þeim tíma. umgengni um afla sé betri nú en áður.
Hún er vinnuþjarkur og gengur í þau verk sem vinna þarf.
Í landi sinnir hún áhugamálunum og ferðast.