Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.06.2020, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.06.2020, Blaðsíða 15
28.6. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 Hvað er versta veður sem þú hefur lent í? „Það er við Austur-Grænland, tvímælalaust. Ég var búinn að vera lengi skipstjóri á íslensk- um skipum þegar ég kom þangað og trúði ekki að það gæti verið slík ölduhæð eða þvílíkur ofsi í veðrinu eins og þar. Þar eru sjófjöll. Veðrið getur verið með ólíkindum og mikill straumur. Þá krossar maður fingur og vonar að það komi ekkert fyrir. Ég hef þrívegis lent í svoleiðis veðrum sem maður kærir sig ekki um að sjá aftur. Þetta er miklu meira en venjuleg íslensk bræla.“ Hefurðu orðið hræddur? „Nei. En mér er oft og tíðum ekki sama.“ Fæddist ekki fúll Billó hefur verið á öllum stærðum og gerðum af skipum á ferlinum og komið heim með ýmsa tegundir fiska. Aðspurður hvað honum finnist skemmtilegast við vinnuna svarar hann: „Það er erfitt að svara því. En skipstjórar verða fljótt fúlir. Ég hef oft sagt við son minn að ég hafi ekki fæðst svona fúll, heldur orðið það með árunum,“ segir hann og brosir út í annað. Ertu fúll? „Ég held það. Einu skiptin sem maður leyfði sér að brosa var í nokkrum rækjutúrum hér á Íslandi. Þeir verða aldrei toppaðir. Aflinn var svo mikill á stuttum tíma og þá leyfði maður sér að brosa landleiðina. En þetta er eitt af því sem fylgir starfinu, skipstjórar verða oft frekar fúlir, eða alla vega ég.“ Billó segist ekki vera strangur skipstjóri en segist þurfa að halda aga. „Ég hef alltaf átt auðvelt með að vera skip- stjóri en það þýðir ekkert að miklast yfir því. Enda þýðir ekkert að þykjast neitt. Þegar mað- ur er svona lengi með sama mannskapinn eru þeir löngu búnir að lesa þig í gegn og vita fyrir hvað þú stendur og hvað ekki. Maður þarf að vinna fyrir virðingunni. Ég þarf ekkert að flagga titlinum, það vita allir hver er skipstjór- inn. Og skipstjórinn hefur síðasta orðið, þótt sjaldan reyni á það.“ Fjörutíu og fimm daga stím Billó segist ekki hafa séð fyrir sér sem ungur maður hvert lífsstarfið myndi leiða hann. „Mig óraði ekki fyrir því að ég ætti eftir að ferðast svona mikið þegar ég kom út úr Stýri- mannaskólanum. En eitt leiddi af öðru. Svo bjó í mér ákveðin ævintýralöngun en sumir myndu sjá allt svart við þetta. Stundum hef ég hugsað að það hefði verið þægilegra að róa alltaf frá sömu höfn með sama mannskap og sama veið- arfærinu. Ég hef róið með Íslendingum, Bret- um, Þjóðverjum, Spánverjum og svo mörgum austantjaldsmönnum. Mér finnst best að vera með eintyngda áhöfn að mestu og blanda ekki saman áhöfnum. Spánverjar eru með betri áhöfnum sem ég hef róið með,“ segir hann. Að vera skipstjóri er sérstakt starf, að sögn Billós. „Við reynum okkar besta að fiska og stundum gengur það vel og stundum ekki. Það er erfiðast þegar ekkert gengur upp,“ segir hann og segist í dag hættur sem fastur skip- stjóri. „Ég vona ég sé ekki alveg hættur. Ég verð 65 ára á árinu en ég vona að ég taki einhverja túra. Ég er nýlega kominn úr 110 daga túr,“ segir hann en hann var við smokkfiskveiðar undan ströndum Argentínu og segist vonast til að fara jafnvel aftur í slíkan túr á næsta ári. „Ég stakk upp á að fara þetta því það var al- veg morgunljóst að kvótarnir okkar hér í Norð- ur-Atlantshafi dygðu ekki. Mig langaði að prufa þetta því skipið er öflugt og gott. Það var helst stímið sem tók á en við vorum alls 45 daga á stími, báðar leiðir,“ segir hann. Billó segir tímann í túrunum ekki lengi að líða, heldur hverfa á einhvern hátt. „Þetta snýst um að láta skipið ganga, að drepa fisk og klára túrinn á sem stystum tíma. Þetta snýst um tonnin í lestinni. Tíminn hverfur algjörlega.“ Þar sem Billó er hættur sem fastráðinn skip- stjóri var hann kvaddur með virktum. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, lét þessi orð falla eftir áratuga starf Billós: „Hann hefur reynst einstaklega farsæll skip- stjóri allan sinn feril og fengsæll eftir því. Það er alveg sama hvaða verkefni við höfum falið honum, hann hefur leyst þau með sóma.“ Billó leggur áherslu á að áhafnir hans og sam- ferðarmenn eigi einnig skilið hrós. „Mig langar að þakka öllum samferða- mönnum sem unnið hafa með mér, fyrir þeirra dugnað, þrautseigju og æðruleysi. Án þeirra hefði ekkert skip sem ég hef stýrt komist úr höfn.“ Gæti ekki unnið níu til fimm Á hálfri öld á sjó hefur Billó upplifað ótrúlegar breytingar hvað varðar skip, aðbúnað og vinnu- lag. „Ég var að reyna að rifja það upp um daginn hvar sturtan hefði verið um borð í skipi sem ég sigldi eitt sinn á. En þá mundi ég að það var engin sturta um borð í því skipi. Ég hef verið í míglekum kojum þar sem maður fann vel fyrir rakanum. Ég hef séð og upplifað gríðarlegar breytingar. En þótt skipin í dag séu vel útbúin er þetta samt sem áður harður vinnustaður. Vinnan hefur ekkert minnkað um borð, þótt hún hafi breyst. Hún hefur aukist ef eitthvað er. Veiðihæfni skipanna er svo miklu meiri þannig að það koma færri pásur. Tæki og tól eru betri og ef það er ekki fiskað er viðhaldi og þrifum sinnt. Það er ekki slæpað frá því þú ferð út og þar til þú kemur heim. Þetta eru langir dagar, tólf tíma vinnutarnir, kannski í tvo, þrjá mán- uði,“ segir hann. „Menn eru stundum að vorkenna mér að vera í svona löngum túrum en það sem gleymist er að ég er líka í ofboðslega löngum fríum. Þá hef ég getað gert ýmislegt sem fólk í níu til fimm vinnu getur ekki gert. Við hjónin erum búin að ferðast gríðarlega mikið og höfum farið í löng ferðalög. Við höfum farið til Indlands, Burma, Nepal, Indókína og ýmis önnur smærri ferðalög. Í dag erum við á veturna mikið í Portúgal þar sem við eigum annað heimili. Ég vil líka meina að ég hafi verið meira heima með börnunum mínum en feður í venjulegri vinnu. Ég var þá kannski heima allan daginn í þrjá mánuði og upp í fjóra. Þetta hefur haft ákveðna kosti,“ segir hann. „Þetta er eins og að eiga tvö líf. Ég vorkenni bara mönnum sem eru í níu til fimm vinnu. Ég gæti það ekki.“ „Ég man ég hugsaði þá að það væru meiri líkur á því að ég yrði forseti á Íslandi en að ég yrði skipstjóri á svona skipi. En svo var ég skipstjóri á svona skipi í tólf ár,“ segir Brynj- ólfur Oddsson, kallaður Billó. Morgunblaðið/Ásdís ’ Þar eru sjófjöll.Veðrið getur veriðmeð ólíkindum og mik-ill straumur. Þá krossar maður fingur og vonar að það komi ekkert fyr- ir. Ég hef þrívegis lent í svoleiðis veðrum sem maður kærir sig ekki um að sjá aftur. Þetta er miklu meira en venju- leg íslensk bræla. Billó sést hér á Andvara árið 1977, þá yfirvélstjóri. Billó og Sandra sjást hér í skírn barnabarnsins Bjarneyjar Veru sem dóttir þeirra Jara Fatima á með manni sínum Sveini Bjarnari Faaberg, sem sjást hér lengst til hægri. Í miðju standa Andrea Diljá Ólafsdóttir og sonurinn Oddur Jóhann, sem heldur á frænku sinni. Börnin þeirra tvö eru Katrín Salka og Brynjolfur. Bæði pörin eiga von á börnum og stækkar því brátt fjölskyldan enn meir.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.