Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 4
4 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 LÖGMANNABLAÐIÐ AÐ MESTU RAFRÆNT Á 25 ÁRA AFMÆLINU Á þessu ári verða þær breytingar gerðar að blaðið verður ekki sent til félagsmanna í blaðaformi nema óskir um slíkt hafi borist. Rafræn útgáfa verður meginreglan en blaðið verður þó áfram sent í blaðaformi á stofnanir stjórnsýslunnar, fjölmiðla, háskólana, bókasöfn og á stærri lögmannsstofur og á allar þær lögmannsstofur sem þess óska. Á síðustu árum hafa margir lögmenn afþakkað pappírseintak enda er áherslan á rafræna útgáfu liður í að svara kalli nútímans og samfélagslegum breytingum. Áfram er þó hægt að óska eftir að fá blaðið sent í pappírsformi enda margir sem vilja fá blaðið í hendur og er það gert með því að fylla út eyðublað neðst á heimasíðu félagsins, www.lmfi.is Ritstjórn blaðsins vonar að breytingin falli lögmönnum í geð. ATHUGASEMDIR VEGNA GREINAR UM SAMSKIPTI DÓMARA OG LÖGMANNA Í síðasta Lögmannablaði (4. tölubl., 25. árg. 2019) var grein um samskipti dómara og lögmanna. Í greininni var meðal annars reifað mál sem spratt af tölvupóstsamskiptum lögmanns og dómara í kjölfar þess að beiðni um flýtimeðferð var hafnað þar sem nauðsynleg gögn hefðu ekki fylgt með beiðninni. Blaðinu barst athugasemd um að mikilvægt atriði hefði vantað inn í reifun málsins, þ.e. sjálfa ástæðuna að baki því að lögmaðurinn taldi dómarann hafa hallað á hlut sinn: Áður en beiðnin var send Héraðsdómi Reykjavíkur hafði lögmaðurinn haft símasamband við dómarann þar sem hann greindi meðal annars frá því að stefnunni fylgdu viðamikil gögn. Lögmaðurinn kveðst hafa spurt dómarann hvort hann vildi fá gögnin með beiðninni um flýtimeðferðina. Lögmaðurinn staðhæfir að dómarinn hafi ekki talið þörf á því að svo stöddu og þannig hafi orðið að samkomulagi með þeim að lögmaðurinn sendi skjalaskrána og dómarinn myndi síðan láta lögmanninn vita ef hann teldi sig þurfa að sjá einhver skjöl, og myndi þá lögmaðurinn senda honum þau. Til samræmis við framangreint sendi lögmaðurinn bréf til dómara þar sem tekið var fram að gögn málsins væru mikil að vöxtum og ef dómari óskaði eftir að kynna sér einhver þeirra áður en hann tæki afstöðu til flýtimeðferðarbeiðninnar myndi lögmaðurinn senda þau skjöl. Þá hafi lögmaðurinn og dómarinn einnig átt samtal eftir að beiðnin var send og lögmaðurinn skilið dómara svo að beiðnin væri í fullnægjandi horfi. Þegar beiðninni var svo hafnað á þeim grundvelli að nauðsynleg gögn hefðu ekki fylgt taldi lögmaðurinn því brotið gegn fyrrnefndu samkomulagi. LIT ehf. Ingi Tryggvason hrl.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.