Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 21

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 21
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 21 ýmsar undirritanir. Það þýddi víst ekkert fyrir mig að vera að synja lögum um staðfestingu því meirihlutinn ræður í þessum efnum og því var ekkert hægt að sprella. Helsta sem maður fann fyrir þessu voru Keflavíkurferðir til þess að kveðja og taka á móti forsetanum. Það var alltaf sami bílstjórinn á vegum forsætisráðuneytisins sem keyrði mig og hann var orðinn mikill vinur minn. Svo lenti maður í því þegar forsetinn var einn á ferð að þá bauð hann manni að sitja í bílnum með sér frá Keflavík. En af því að forsetinn fór út á Bessastaði en ekki inn í Reykjavík þá setti hann mig út úr bílnum við Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Forsetabíllinn stoppaði þá á bílastæðinu, um miðja nótt jafnvel, og svartur Benz kom í humátt á eftir sem var þá leigubíll forsætisráðuneytisins. Ég skaust úr fremri bílnum í þann aftari og svo blússuðu bílarnir hvor í sína átt. Þetta hefur eflaust verið einkennileg sjón.“ Um gagnrýni á Hæstarétt Markús segir að gagnrýni á dómstóla og umfjöllun um dóma sé alls ekki ný af nálinni. „Hæstiréttur hefur allt frá fæðingarári sínu fengið yfir sig allra handa umfjöllun, jákvæða og neikvæða. Það má nú reyndar sjá af blaðaumfjöllun um réttinn á fyrstu árunum að það var ekki beint fágað orðbragð sem menn notuðu. Hvað sem annað má segja um umfjöllunina í dag þá má örugglega segja að orðbragðið er vægara en það var fyrir 80 eða 90 árum. Það má segja að þetta sé öðruvísi umhverfi í dag en hér áður fyrr þegar dómasafn Hæstaréttar fyrir tiltekin ár kom ekki út fyrr en um einu og hálfu ári eftir uppkvaðningu dóma. Ekki voru hefðbundnar dómsuppsögur í heyranda hljóði, dómar voru kveðnir upp á skrifstofum dómara og svo bara hringt í lögmenn. Fjölmiðar á þessum tíma vissu fyrir vikið ekki af þeim dómum sem kveðnir voru upp nema í sárafáum tilvikum. Umfjöllun er allt önnur núorðið enda allt birt á netinu. Óneitanlega hefur þó standardinn á umfjölluninni dvínað eitthvað. Ef maður veltir fyrir sér hvað orðið gagnrýni þýðir þá er það að rýna eitthvað til gagns, það nær ekki yfir fúkyrði. Umfjöllunin getur tekið á sig mynd sem líkist einna helst fyrirfram skipulögðum aðgerðum til þess að bregða upp neikvæðri mynd af dómstólnum. Stundum hafa sumir fjölmiðlar á einhverjum tíma haft neikvætt viðhorf til Hæstaréttar, ekki út af einhverri einni ástæðu heldur miklu frekar eins og það séu gripin ýmis tækifæri til þess að fjalla með neikvæðum hætti um réttinn. Umfjöllun í fjölmiðlum líður kannski eitthvað fyrir að þetta er almennt ekki lögfræðimenntað fólk sem er að fjalla um dómsmál og því oft ekki með réttan fókus. Hve oft gerist það að dómur gengur í máli sem hefur vakið athygli og fjölmiðlar tala við þann aðila sem tapaði málinu eða lögmanninn hans. Það virðist alltaf talað við þann sem er í fýlu eða jafnvel reiður eftir niðurstöðu dómsins. Maður hefur heyrt alls konar viðbrögð aðila við nýuppkveðnum dómum og það er ekkert verið að vanda kveðjurnar.“ Markús segir áreiti eða hótanir almennt ekki hafa fylgt starfinu og aðeins einu sinni hafi hann lent í slíku. „Það hringdi í mig gagnmerkur samtíðarmaður að næturlagi, nokkuð við skál, og kynnti sig eins og mönnum ber að gera. Hann var ekkert feiminn við að bera upp sitt erindi og tjáði mér af mikilli siðfágun að hann gæti alveg hugsað sér að hjálpa mér yfir ætternisstapa. Ég þakkaði manninum bara mjög pent fyrir enda væri gott að vita af þessu ef ég þyrfti einhvern tíma slíka aðstoð. Ég hefði þó ekki hugsað mér að gera þetta alveg í bráð en ég myndi hafa hann í huga.“ Dómarar mæta kyrfilega lesnir í málflutning „Ég held það sé mikilvægast fyrir málflytjendur í Hæstarétti að hafa í huga að þeir eru ekki að tala yfir hausamótunum á ólesnum mönnum. Dómarar í Hæstarétti mæta kyrfilega lesnir og ekki teljandi munur á þeim sem er frummælandi og öðrum. Ég held að þetta sé hlutur sem lögmaður á að gefa sér og verja ekki tímanum í að segja eitthvað sem sérhver maður sem hefur kynnt sér málið veit. Það þarf ekki nema í örfáum tilvikum að rekja málsatvik í miklum mæli, það má leyfa sér þann munað að hella sér nánast beint út í röksemdir af fullum þunga. Leggja helst áherslu á það sem lögmaðurinn telur skipta máli og sleppa því að fjalla um annað því það þarf ekki að tæma hverja málsástæðu í málflutningi. Það þarf ekki einu sinni að nefna þær allar heldur afgreiða lögmenn þetta oft með því að ljúka málflutningi á sjálfsögðum orðum um að allt það standi sem fram hafi komið í greinargerð.“ Fyrir nokkrum árum vakti nokkra athygli þegar haft var eftir Markúsi að málflutningur skipti engu máli, en þau orð áttu að hafa komið fram í spjalli hans við hóp lögfræðinga sem heimsótti Hæstarétt. „Málflutningur skiptir gríðarlega miklu máli, ekki síst sem öryggisatriði, þá gefst dómurum tækifæri til þess að fá fullvissu um að þeir skilji hver afstaða aðila er og spyrja lögmenn ef nauðsynlegt er. Svar mitt fyrir nokkrum árum var slitið úr samhengi en þá hafði sú spurning verið borin upp í hvaða mæli málflutningur hafi breytt niðurstöðu í máli. Ég get alveg endurtekið þann kjarna að baki svari mínu að sá sem ætlast til þess að dómari hafi ekki minnstu hugmynd um það hvernig mál kunni að fara þegar hann stígur inn í dómsal, hann býr í Undralandi. Það hefur enginn svo abstrakt hug að

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.