Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 23

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 23
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 23 Líkt og rakið hefur verið í fjölmiðlum þá hefur umboðsmaður Alþingis óskað upplýsinga frá dómsmálaráðherra um hvort ráðuneytið hefði í hyggju eða hefði þegar gripið til aðgerða til að bregðast við þeim vanda sem upp er kominn hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við meðferð fjölskyldumála hjá embættinu. Tilefni erindis umboðsmanns er kvörtun vegna máls sem embætti sýslumanns hefur haft til meðferðar í rúm tvö og hálft ár eða frá því í júní 2017, en sýslumaður, sem sjálfur telur bið á afgreiðslu mála hjá embættinu óviðunandi, hefur borið fyrir sig viðvarandi manneklu. Í bréfi umboðsmanns til dómsmálaráðherra er vísað til þess að þessi málaflokkur varði mannréttindi og verulega persónulega hagsmuni bæði barna og foreldra og því geti miklar tafir á afgreiðslu mála, t.d. varðandi umgengni falið í sér brot á rétti til fjölskyldulífs sbr. ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í erindi umboðsmanns til dómsmálaráðherra kemur jafnframt fram að hafi ráðuneytið ekki gripið til einhverra ráðstafana til að bregðast við þeim vanda sem uppi er, sé þess óskað að ráðuneytið lýsi afstöðu sinni til þess hvort það samrýmist yfirstjórnar- og eftirlitshlutverki ráðherra gagnvart sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til almennra málshraðareglna stjórnsýsluréttarins og þeirra réttinda og hagsmuna sem í húfi eru. Í niðurlagi bréfs umboðsmanns segir jafnframt að beiðni hans til ráðherra sé sett fram til þess að hann geti lagt mat á hvort tilefni sé til að taka framangreinda þætti stjórnsýslu ráðuneytisins til almennrar athugunar a grundvelli heimildar samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997. Lögmannafélag Íslands fagnar þessari frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis, enda hefur félagið og félagsmenn þess gert athugasemdir við það ástand sem ríkt hefur í þessum málum hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Þannig sendi Lögmannafélagið sýslumanni bréf í apríl 2019, þar sem alvarlegar athugasemdir voru gerðar vegna þess ófremdarástands sem ríkt hafi í afgreiðslu fjölskyldumála hjá embættinu. Í bréfi félagsins, sem þáverandi dómsmála- ráðherra fékk afrit af, segir m.a. að fyrir liggi að um afar viðkvæman málaflokk sé að ræða þar sem miklu skipti að mál séu afgreidd með skjótum hætti, sbr. ákvarðanir um umgengni, forsjá, lögheimili, meðlag o.fl. Jafnframt segir í bréfinu að margra mánaða bið á afgreiðslu svo brýnna mála sé að mati Lögmannafélagsins óásættanleg stjórnsýsla og þess krafist að embættið grípi til viðeigandi ráðstafana til úrbóta. Í ljósi erindis umboðsmanns Alþingis til dómsmálaráðherra gerir Lögmannafélag Íslands sér vonir um að gripið verði til nauðsynlegra ráðstafana til að koma afgreiðslu fjölskyldumála hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í viðunandi horf. Ingimar Ingason STAÐA FJÖLSKYLDUMÁLA HJÁ EMBÆTTI SÝSLUMANNSINS Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU - AFSKIPTI UMBOÐSMANNS ALÞINGIS LÖGMANNAFÉLAG ÍSLANDS GERIR SÉR VONIR UM AÐ GRIPIÐ VERÐI TIL NAUÐSYNLEGRA RÁÐSTAFANA TIL AÐ KOMA AFGREIÐSLU FJÖLSKYLDUMÁLA HJÁ EMBÆTTI SÝSLUMANNSINS Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU Í VIÐUNANDI HORF.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.