Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 27
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 27
að skrifast á var takmörkuð með nýjum réttarfarslögum
árið 1936, þar sem einkamálaréttarfar á Íslandi tók
talsverðum breytingum. Helsta réttarbót laganna var að
flýta málsmeðferð einkamála, en samkvæmt athugasemdum
við frumvarpið var mikið um að málflytjendum væru
veittir frestir, að þeir endurtóku mótmæli og lögðu fram
framhaldsvarnir og framhaldssóknir eftir hentisemi, án þess
að slíkt væri málinu til framdráttar. Þó svo að það væri á
valdi dómara að gæta þess að undirbúningur drægist ekki
meira en nauðsynlegt var erfitt fyrir dómara að fylgja því
eftir, og dómarar kynntu sér mál sjaldnast fyrr en eftir að
gagnaöflun var lokið.3
Eftir gildistöku laga nr. 85/1936 skyldi málflutningur að
meginreglu vera munnlegur og var aðilum að jafnaði aðeins
heimilt að skila inn einni greinagerð hvor. Málflytjendur og
dómarar höfðu margir hverjir verið hræddir við munnlegan
málflutning. Það var í athugasemdum við frumvarpið
jafnframt áréttað að erfitt væri að fá eldri málflytjendur
og dómara til þess að tileinka sér hinar nýju reglur, sökum
þess hversu stórfelldar breytingar lögin höfðu í för með sér.4
Einar Arnórsson, einn höfunda lagafrumvarpsins, áréttaði í
tímaritsgrein meira en 15 árum eftir gildistöku laganna að
erfitt hefði verið að fá suma málflytjendur og dómendur til
þess að fylgja lögunum. Þó svo að ekki allir hafi framfylgt
lögunum um miðbik síðustu aldar, er ljóst að íslenskir
dómstólar, með Hæstarétt í fararbroddi, tóku lögin föstum
tökum.5
Aðdragandinn að lögum um meðferð einkamála nr.
85/1936 var langur, en mikil þörf var á heildarlögum um
meðferð einkamála í héraði. Þágildandi ákvæði laga um
meðferð einkamála voru ýmist á íslensku eða dönsku, og
gildi nokkurra ákvæða var vafasamt eða óljóst. Þurfti því
að fara fram heildræn endurskoðun á lögum um réttarfar
á Íslandi.
Endurskoðun á Íslandi átti sér stað í kjölfar samskonar
endurskoðunar í Danmörku og í Noregi. Í báðum löndum
var eldra skipulagi á meðferð einkamála breytt með þeim
hætti að dómari skyldi fylgjast náið með rekstri málsins,
og málflutningur var gerður munnlegur. Endurskoðunin
leiddi af sér ný réttarfarslög í Noregi árið 1915 og í
Danmörku árið 1916. Ísland gerði svo slíkt hið sama 20
árum síðar. Ætla má að höfundar frumvarpsins hafi horft
til landanna þegar kom að ritun frumvarpsins.6
Í NOREGI GETUR ÓLÖGLÆRÐUR EINSTAKLINGUR
MÆTT TIL DÓMSTÓLS OG GEFIÐ SKÝRSLU UM
ÞAÐ MÁL SEM HANN ÆTLAR SÉR AÐ HÖFÐA,
DÓMSTÓLNUM BER Í KJÖLFARIÐ AÐ ÚTBÚA
STEFNU FYRIR VIÐKOMANDI. STEFNDI HEFUR
KOST Á AÐ NÝTA SÉR SÖMU ÞJÓNUSTU VIÐ
GERÐ GREINARGERÐAR.
3 Einar Arnórsson: Dómstólar og Réttarfar á Íslandi. Reykjavík 1911 bls. 377 - 400 og Lög um meðferð einkamála í héraði. bls. 77-78.
4 Einar Arnórsson: Dómstólar og Réttarfar á Íslandi. bls. 396-400 og Lög um meðferð einkamála í héraði. bls. 119-121 og 123-125.
5 Einar Arnórsson: „Framkvæmd laga nr. 85/1936 um meðferð laga í héraði.“ Tímarit Lögfræðinga, 2. tbl. 1953 bls. 114-115.
6 Lög um meðferð einkamála í héraði. bls. 80-81.