Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 6

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 6
6 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 AF VETTVANGI FÉLAGSINS Um langa hríð hafa tafir á afgreiðslu fjölskyldumála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu verið hreint óviðunandi en biðtími eftir þjónustu er að jafnaði átta mánuðir frá því erindi berst þar til það er tekið til afgreiðslu innan embættisins. Ef aðkomu sáttamanna skv. 33. gr. a barnalaga er þörf tekur við önnur eins bið eða að jafnaði átta mánuðir til viðbótar. Á vefsíðu sýslumannsembættisins kemur meðal annars fram að nú í febrúar 2020 hafi erindi sem varða umgengni, forsjá, lögheimili, meðlag, sérstakt framlag og menntunarframlag, og bárust fyrir 20. júní 2019, verið tekin til umfjöllunar og mál sem vísað hafi verið í sáttameðferð fyrir 25. júní 2019 hafi sömuleiðis verið tekin til umfjöllunar hjá sáttamönnum. Í apríl 2019 sendi stjórn Lögmannafélagsins bréf til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir vegna þess ófremdarástands sem ríkt hefur í afgreiðslu fjölskyldumála hjá embættinu. Í bréfi félagsins sem þáverandi dómsmálaráðherra fékk afrit af, segir meðal annars að fyrir liggi um afar viðkvæman málaflokk sé að ræða þar sem miklu skipti að mál séu afgreidd með skjótum hætti. Jafnframt segir í umræddu bréfi að margra mánaða bið á afgreiðslu svo brýnna mála sé að mati félagsins óásættanleg stjórnsýsla og þess krafist að gripið verði til viðeigandi ráðstafana til úrbóta. Í janúar s.l. sendi umboðsmaður Alþingis bréf til dómsmálaráðherra þar sem óskað er upplýsinga um hvort ráðuneytið hafi í hyggju eða hafi þegar gripið til aðgerða til að bregðast við þeim vanda sem uppi er hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og varðar tafir á afgreiðslu fjölskyldumála. Stjórn Lögmannafélagsins mun fylgja þessu máli eftir og hefur þegar sent dómsmálaráðherra bréf og óskað eftir viðbrögðum hans í kjölfar bréfs umboðsmanns Alþingis. ____________ Innan Lögmannafélags Íslands hefur nú um nokkurt skeið verið unnið að endurskoðun á lögum um lögmenn og hafa nokkrar tillögur þess efnis verið sendar ráðuneyti dómsmála. Þær tillögur hafa ekki náð hljómgrunni til þessa. Nú hyggst dómsmálaráðherra leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um lögmenn en tilurð þeirra breytinga má rekja til krafna frá FATF (Financial Action Task Force) um skyldur lögmanna er lúta að peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Félagsmenn verða upplýstir um framvindu þess máls þegar frekari upplýsingar liggja fyrir. ______________ Töluverðar umræður hafa verið meðal félagsmanna hvort það samræmist góðum lögmannsháttum að lögmenn mæti á slysstaði, bráðamóttökur eða þvílíka staði í því skyni að bjóða fram þjónustu sína. Samkvæmt 42. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt að auglýsa og kynna sína þjónustu svo sem samrýmist góðum lögmannsháttum. Hingað til hefur ekki þótt ástæða til að útfæra nánar hvað teljist til góðra lögmannshátta í þessu tilliti en að gefnu tilefni hefur stjórn Lögmannafélagsins nú beint því til siðareglunefndar félagsins að taka til skoðunar hvort tilefni sé til breytinga á siðareglum lögmanna að þessu leyti og tilgreina nánar inntak góðra lögmannshátta. _________________ Hæstiréttur Íslands varð hundrað ára hinn 16. febrúar s.l. og hélt dómstóllinn veglega afmælishátíð af því tilefni. Vegna hinna merku tímamóta færði Lögmannafélag Íslands Hæstarétti að gjöf verkið „Hugur“, sem er bronssteypa af höfði gerð af listamanninum Helga Gíslasyni. Stofnun Hæstaréttar hinn 16. febrúar 1920 markaði tímamót í réttarsögu þjóðarinnar og á þeim eitt hundrað árum sem liðin eru hefur Hæstiréttur Íslands verið kjölfesta réttarskipunar og þróunar. Lögmannafélag Íslands færir Hæstarétti Íslands góðar kveðjur og árnaðaróskir í tilefni aldarafmælisins. BERGLIND SVAVARSDÓTTIR LÖGMAÐUR FORMAÐUR

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.