Málfríður - 15.11.1993, Blaðsíða 6

Málfríður - 15.11.1993, Blaðsíða 6
Vert er að minna á að verk- efni á samræmdum prófum geta verið misjafnlega erfið í mati. Þannig er erfiðara að meta efni ritgerðar hlutlægt en til dæmis fjölvalsspurningu. Af þessari staðreynd ber þó ekki að draga þá ályktun að nauðsynlegt sé að útrýma öllum ritgerðarspurning- um eða opnum spurningum úr samræmdum prófum til þess að hægt sé að gera þau hlutlæg. Form spurningar eða verkefnis eitt og sér tryggir ekki hlutlægni. Þannig getur mat með fjöl- valsspurningu verið óhlutlægt ef ekki er rétt staðið að verki. Á sama hátt getur mat á ritgerð verið mjög hlutlægt þegar fyrir- gjafarreglur eru vel gerðar. Það er því misskilningur að forsenda fyrir hlutlægu kunnáttuprófi sé einhver ein tegund eða gerð prófspurninga. Einn af styrkleik- um samræmdra prófa hérlendis er einmitt fjölbreytni í tegundum verkefna eða prófspurninga. Það er æskilegt að halda því áfram. Hins vegar verður að gæta þess vandlega við samningu slíkra verkefna að fyrirgjafarreglur séu hlutlægar. Tegundir prófa sem hægt er að nota í samræmdu námsmati Samræmd próf geta í grófum dráttum verið af þremur gerðum: (a) staðalbundin próf, (b) mark- bundin próf og (c) hæfileikapróf. Hægt væri að byggja inntöku nemenda inn í framhaldsskóla á öllum þessum próftegundum. Víðast hvar í Evrópu og Norður- Ameríku hefur notkun staðal- bundinna prófa verið algengust í þessu tilliti. Á síðustu árum hefur áhugi manna erlendis aukist á notkun markbundinna prófa í samræmdu mati. Slík próf eru þó enn ekki útbreidd sem inntöku- próf í framhaldsskóla eða há- skóla. Aftur á móti hafa hæfileika- próf verið notuð við lok fram- haldsskóla í Svíþjóð og Norður- Ameríku til inntöku í háskóla. Eins og nafnið gefur til kynna eru hæfileikapróf ekki eiginleg kunn- áttupróf. I þessum prófum eru metnir vitsmunaþættir sem tengjast námsárangri sterkt. Slík próf eru ekki bundin við eina námsgrein heldur reynir á notk- un þekkingar úr mörgum náms- greinum við úrlausnir verkefna í þeim. I sumum tilvikum er ekki mikill munur á innihaldi þessara prófa og hefðbundinna greindar- prófa. Hérlendis hafa samræmd próf verið tengd ákveðnum náms- greinum og því hugsuð sem kunnáttupróf. Almennt hafa þau sömuleiðis verið að inntaki meira í ætt við staðalbundin próf en markbundin. Þó svo að niðurstöður rannsókna hafi bent til þess að samræmd próf hér- lendis meti fyrst og fremst almennan hæfnisþátt í stað af- markaðra kunnáttuþátta (Gerð- ur Óskarsdóttir, 1992; Jón Torfi Jónasson og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, 1992) er líklegt að flestum þyki eftirsóknarverðara að prófin meti kunnáttuþætti beint í tilteknum námsgreinum. Ég mun því ekki fjalla nánar um hæfileikapróf hér en fer nokkr- um orðum um hinar próftegund- irnar tvær. Markbundin próf Með markbundnum prófum er metið hversu vel nemendur hafa náð tilteknum námsmark- miðum. Slík próf henta vel við mat inni í bekkjardeild. Þegar vel er staðið að verki geta þau verið leiðbeinandi um kennslu einstakra nemenda eða við end- urskoðun á námsmarkmiðum sem sett eru. Mörg vandamál sem koma upp við markbundið samræmt mat eru ekki til staðar þegar kennari notar markbundið próf til þess að meta árangur nemenda sinna í einni bekkj- ardeild. Kennarinn veit best sjálfur á hvað hann hefur lagt áherslu og hvað hann vill að nemendur sínir kunni að lokinni yfirferð. Hann setur sér tiltekin markmið yfir lengra eða skemmra tímabil. Síðan getur hann prófað hversu vel nemend- ur hafa náð tökum á tilteknum námsmarkmiðum. Að fenginni niðurstöðu getur hann síðan metið hvort tímabært sé að hefja kennslu nýrra markmiða eða staldra lengur við eldri markmið. Af ýmsum ástæðum væri mjög eftirsóknarvert að semja mark- bundin samræmd lokapróf hér- lendis. Samning slíkra prófa myndi miðast við vel skilgreind sameiginleg námsmarkmið. Kenn- urum væri ljóst hver þessi náms- markmið væru og gætu miðað kennsluna við þau. Hægt væri að tryggja gott samband á milli inni- halds prófs og sameiginlegra ná- msmarkmiða. Innihaldsgreining námsbóka við samningu slíkra prófa væri ekki nauðsynleg þar sem hægt væri að miða samningu prófsins við þokkalega nákvæm námsmarkmið. Á ýmsan hátt væri skýrt hvað stæði að baki árangri nemenda á slíku prófi. Með markbundnum sam- ræmdum prófum væri horfið frá hefðbundinni framsetningu á frammistöðu nemenda á próf- um. Ein leið til þess að birta niðurstöður úr slíkum prófum væri hlutfall markmiða sem nemandi hefur tileinkað sér af heildarfjölda markmiða. Þegar nota á niðurstöðuna til að velja nemendur inn í framhaldsskóla þarf að ákveða hvað teljist lág- marksskilyrði fyrir inntöku. Það getur verið vandasamt og krefst ákveðinnar samræmingar á milli markmiða grunnskólans og námskrafna í framhaldsskólum. Þrátt fyrir ýmsa eftirsóknar- verða kosti þess að gera sam- ræmd lokapróf að markbundn- um prófum hérlendis eru nokkur vandamál óleyst sem tefja senni- lega fyrir því. Ekki eru til sam- eiginleg og nákvæm námsmark- mið í einstökum námsgreinum til að hægt sé að leggja til próf af þessu tagi nú. Hins vegar ætti tvímælalaust að vinna að því. Markmið í Aðalnámskrá grunn- skóla frá 1989 eru allt of almenn til að þau geti nýst í þessu tilliti. Best er ástandið sennilega í stærðfræði enda hafa samræmd próf í stærðfræði á síðustu árum 6

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.