Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Page 22

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Page 22
Alþjóðleg ráðstefna í Washington DC sumarið 2012 Alheimsráðstefnan sem haldin var í höfuðborg Bandaríkjanna í sumar, var fyrsta alþjóðlega ráðstefnan um hiv og alnæmi þar í landi í áratugi vegna ferðahamlana sem hiv-jákvæðir hafa mátt búa við og Bush eldri kom á í byrjun níunda áratugarins. Þessar ferðahamlanir voru svo sannarlega umdeildar og var ekki aflétt fyrr en í tíð núverandi forseta, Obama. Fyrir marga, og ekki síst fólk sem er búsett í þessu mikla ríki, markaði þessi alheimsráðstefna því tímamót. Umfang ráðstefnunnar var viðamikið en skipulag hennar var gott og allt gekk upp. Það er líka hvetjandi að finna samkenndina sem jafnan ríkir meðal hiv-jákvæðra á fundum sem þessum. Gríðarlegt úrval var að finna á efnissskrá ráðstefnunnar og fyrirlestrar og málstofur sem undirritaður sótti fjölluðu um nýjustu meðferðarúrræði, forvarnir og mannréttindi hiv-jákvæðra. Það ríkti meiri bjartsýni á þessu heimsþingi en undirritaður hefur nokkurn tímann upplifað í 30 ára baráttusögu gegn hiv og alnæmi. Dregið hefur úr útbreiðslu hiv á heimsvísu og eru um 8 milljónir manna komnar á lyfjameðferð í heiminum. Lyf verða sífellt aðgengilegri og betri og það hjálpar til við að hefta útbreiðslu veirunnar. Alþjóðleg samþykkt hefur að markmiði að 15 milljónir manna verði komnar á lyfjameðferð árið 2014. Menn eru jafnframt mjög bjartsýnir á að fundið verði bóluefni sem hentar innan fárra ára. Mannréttindabrot eru framin gegn hiv-jákvæðum í miklum mæli um allan heim. Ofbeldi, fyrirlitning og virðingarleysi hafa viðgengist í garð hiv-jákvæðra frekar en gengur og gerist meðal annara hópa í samfélaginu. Ferðahömlur eru því miður algengar og 46 ríki og landsvæði í heiminum hafa einhverskonar hömlur á ferðalögum hiv-jákvæðra. Hiv-veiran breiðist enn nokkuð út í Austur-Evrópu og Mið-Asíu og er eiturlyfjaneysla, áhættusöm kynhegðun og neikvæður félagslegur stimpill sem fylgir því að sækja sér ráðgjöf og meðferð ekki til að laga ástandið. Aðgengi að þjónustu vegna hiv hefur almennt aukist í lág- og meðaltekjulöndum og meðferð og umönnin er almennt að verða skilvirkari um allan heim. Forvarnarstarf sem nær til þeirra sem eru í hvað mestri smithættu – fólks sem stundar vændi, eiturlyfjaneytenda og karla sem stunda kynlíf með körlum, er enn allt of takmarkað. Aldrei hefur verið eins brýnt að taka höndum saman og vinna gegn útbreiðslu hiv á heimsvísu og nú, þegar þekking, tækni og leiðir eru til staðar. Vinna þarf saman af samhug, mannúð og víðsýni, því ef vel er staðið að málum án fjárhagslegra hindrana er hægt að koma einhverkonar böndum á útbreiðslu sjúkdómsins á komandi árum líkt og gerðist með berklana. Alheimsráðstefnan var fræðandi og hvetjandi. Þeir sem hafa áhuga á að fræðast meira geta nálgast efni frá ráðstefnunni á Hverfisgötunni jafnframt er hægt að fara á vefslóðina: http://www.aids2012.org og þar er að finna allt sem í boði var á ráðstefnunni og niðurstöður hennar. Næsta alheimsráðstefna verður haldin í Melbourne í Ástarlíu 18.- 23. júlí árið 2014. Sjá http://www.aids2014.org Einar Þór Jónsson

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.