Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Blaðsíða 29
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS28
19. Lítið ílangt járn, f latt í þversniði, ryðgað saman við bein sem er
mjög illa farið og lítið eftir af því. Lengd 19 mm, breidd 13 mm.
Þyngd 0,7 g.
20. Smátt, ílangt brot úr beini, f latt, báðir endar brotnir og jaðrar
skertir. Sennilega oki af kambi þótt götin séu óvenjulega stór og
stutt á milli þeirra. Á brotinu eru tvö heil göt, mismunandi stór
og svo leifar gats við annan enda. Annað heila gatið er um 3 mm í
þvermál, hitt tæplega 2 mm. Lengd 20 mm, breidd 9 mm, þykkt 3
mm. Þyngd 0,25 g.
Umræða
Með konunni sem lögð var í 7. kuml var sett ríkulegt og um margt sérstakt
haugfé. Járnbaugurinn er einstakur fundur hér á landi, svo sjaldgæfur
sem hann er í Evrópu vestanverðri. Telja má að bæði snældusnúðurinn
og steinperlan séu með elstu staðfestu dæmum um íslenska steinsmíði og
sýnir að þegar á fyrri hluta 10. aldar hafi fólk verið farið að nýta innlendar
steintegundir af talsverðri færni. Perlan með járnlykkjunni er athyglisverð
og væri fróðlegt að kanna hana nánar í samhengi við sambærilegar perlur
sem fundist hafa hér á landi og erlendis sem og samsetningu þess haugfjár
sem þær finnast með. Hlutfall innf luttra gripa í kumlinu er hátt, eins og oft
er reyndar um ríkuleg kuml; glerperlur, rafperla, koparblönduskraut, brýni
úr skífursteini og eldtinnan. Erfiðara er að fullyrða um uppruna járnsins en
nánast fullvíst má telja að bæði járnbaugurinn og kamburinn ( járnnaglar
og oki) séu erlend smíð. Þá eru og ýmsar vísbendingar í þá átt að í gröfinni
hafi verið járnsleginn og járnnegldur viðarhlutur með lokubúnaði, kannski
kistill. Ekki verður uppruni konunnar ráðinn af haugfénu einu saman en
óneitanlega er freistandi að kasta því fram að hún hafi verið aðf lutt einhvers
staðar frá löndunum í kringum Eystrasalt. Hugsanlega mun ísótópagreining
á tönnum hennar skera úr um það síðar meir.