Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Blaðsíða 111
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS110
Siglufjörð. Nafnið Finnuhólar kann því að hafa vísað upphaf lega til fjallsins
og sérkennandi lögunar þess.
Nú sýnist ekki ósenni legt að drangs heitin tvö í Akrafjalli, Goðfinna og
Guðfinna, hafi í öndverðu haft grunn merkinguna ‘(kletta) strýta/drangur
goðanna (eða goðsins)’. Í stað þess að bera ótengt kvennafn sem kunngerir
með engu móti að örnefnin eigi við steinstrýtur eða dranga virðist
viðliðurinn vera náttúrutáknandi í ofangreindri merkingu og hafa þann
tilgang að lýsa lögun í landslagi. Þessi skilningur má teljast álitlegur í ljósi
staðhátta í báðum tilvikum og er síður en svo undarlegt að klettastrýtur eða
steindrangar tengist fornum átrúnaði eða síðari tíma hjátrú líkt og fjölmörg
fjöll, fell, hólar, björg, drangar og steinar gera víða hér á landi sem og á öðrum
Norðurlöndum. Sannfærandi eða sennileg dæmi um sömu merkingu í
öðrum Guðfinnu-örnefnum eru þó tæpast næg til að drangs- eða strýtuheitið
Goðfinna/Guðfinna geti talist hefðbundið nafn á borð við Goðaborg(ir) eða
Landdísa(r)steinn (eða -steinar) í þeim örnefnaforða sem heiðnir menn virðast
hafa gripið til í nafngiftum hérlendis.30 Svonefndar Goðaborgir og Landdísa(r)
steinar koma aðeins fyrir á afmörkuðum landsvæðum (hér um bil tuttugu
Goðaborgir eru á Austurlandi og um tuttugu Landdísa(r)steinar á Vestfjörðum)
og mun það ekki eiga við um Guðfinnu-örnefni feli nafnliðurinn finna í
sér náttúrutáknandi merkingu í nöfnunum Guðfinnuhóll, Guðfinnusteinn,
Guðfinnufoss, Guðfinnugjá eða Guðfinnubotnar, en Guðfinnubotnar minna á
nafnið Goðabotnar sem finnst á nokkrum stöðum á Austurlandi þar sem það
vísar til goðtengdra staða ofan botnanna (Goðaborga). Fjölmargar sagnir frá
síðari tímum greina frá heiðnum fornmönnum sem lögðu mikla helgi á
hina eða þessa Goðaborg á Austurlandi enda er óhægt að skilja þessi örnefni
öðru vísi en svo að þar sé um heiðin átrúnaðarnöfn að ræða.31 Engar sagnir
af þessum toga eru kunnar um Goðfinnu og Guðfinnu í Akrafjalli eða
önnur Guðfinnu-örnefni að því er séð verður. Hafi hin náttúrutáknandi
merking nafnliðarins finna horfið úr málinu á fyrri öldum er ekki skrýtið
að engar sagnir hafi varðveist eða myndast á síðari tímum um heiðinn
átrúnað í sambandi við þessa staði. Hefur þá engin önnur merking komið
til greina en kvennafnið og er því skiljanlegt að við örnefnið Guðfinna hafi
stundum bæst lýsandi viðliður eins og -þúfa (sbr. Guðfinnuþúfa) eða -steinn
(sbr. Guðfinnusteinn), en óþarft er að fjölyrða hér um þá tilhneigingu manna
að lesa persónunöfn út úr örnefnum.
30 Um Goðaborgir sjá Sigfús Sigfússon 1932, bls. 83-89 og Stefán Einarsson 1997, bls. 19-26. Um
Landdísa(r)steina sjá Turville-Petre 1963, bls. 196-201.
31 Um þess konar sagnir tengdar Goðaborgum sjá Sigfús Sigfússon 1932 og Stefán Einarsson 1997.