Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Blaðsíða 107
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS106
að vísu ekki mörg, en drangsheitin Goðfinna, Guðfinna og Guðfinnusteinn
gefa ástæðu til að hyggja nánar að nafnliðnum finna og þá sérstaklega hvort
orðið geti þarna haft lýsandi og náttúrutáknandi merkingu sem skýri
samband þess við dranga eða steinstrýtur.
II. Finn-örnefni í Noregi og á Íslandi – margræðni og orðsifjar
Umfangsmiklar rannsóknir örnefnafræðingsins Ola Stemshaug í Noregi
benda til þess að fjöldi samsettra og ósamsettra örnefna þar í landi (bæði
búsetu- og náttúrunafna) feli í sér fornvesturnorrænt nafnorð, *finn-, sem
hefur verið notað sem samheiti fyrir oddlaga fjallatoppa eða strýtulögun
í landslagi og sem nafnliður (bæði forliður og viðliður) í örnefnum með
grunn merkinguna „kvass kant, spiss, topp“.16 Ljóst er að nafnliðurinn
(-)finn(-) getur haft margvíslegar merkingar í norskum örnefnum og eru
þessar þær helstu samkvæmt Stemshaug:
1) Staðarsamheitið („lokalitetsappellativet“) finn(e) kk. ‘hvass kantur,
spíss, toppur’; 2) Jurtaheitið finn, finna, finnskjegg, finngras ‘finnskegg (nardus
stricta)’; 3) Samheitið finne hvk. ‘óbyggðir, firn(indi)’; 4) Mannsnafnið
Finn (fornvesturnorræna Finnr (Fiðr) eða Finni) eða kvennafnið Finna; 5)
Þjóðf lokksheitið finn(e) ‘Finni, (í eldra máli) Lappi, Sami’ eða ‘finnlendar’,
þ.e. Finnar sem f luttu til Noregs (Austlandet) frá Finnlandi (um Svíþjóð) á
sautjándu öld.17
Stemshaug reiknast svo til að örnefni með nafnliðnum (-)finn(-) séu hér
um bil fimm til sex þúsund að tölu í Noregi,18 en fjöldi og dreifing þess konar
örnefna hér á landi, í Færeyjum og norrænum byggðum á Bretlandseyjum
er ókannað efni. Staðhættir geta stundum skorið úr um hvaða merking á
við í öndverðu og má geta þess að Þórhallur Vilmundarson leiddi að því rök
að *Firna- sé hinn upprunalegi forliður í örnefninu Finnafjörður í Norður-
Múlasýslu og hafi hann snemma breyst í Finna- „vegna tilhneigingar
til að lesa mannanöfn úr örnefnum“.19 Vegna staðhátta taldi Þórhallur
aftur á móti líklegt að íslenska bæjarnafnið Finnsstaðir hafi að minnsta
kosti í sumum tilvikum (þau eru alls fjögur á landinu) verið upphaf lega
16 Stemshaug 1997, bls. 75.
17 Sama rit, bls. 77; Sandnes og Stemshaug 1997, bls. 144. Malte Areskoug álítur að nafnliðurinn finn(r)
kunni ennfremur að hafa verið hafður um einhvers konar landamerki í Noregi og jafnvel víðar
á Norðurlöndum. Sjá Areskoug 1972, bls. 22. Þessi tilgáta virðist nokkuð vafasöm, enda hafnar
Stemshaug henni. Sjá Stemshaug 1983, bls.175. Stemshaug fjallar ennfremur um finn-örnefni í grein
frá 1985, bls. 43-51.
18 Stemshaug 1997, bls. 78.
19 Þórhallur Vilmundarson 1980, bls. 82.