Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Blaðsíða 40
39RÚNARISTURNAR Á MARMARALJÓNINU FRÁ PÍREUS, NÚ Í FENEYJUM
framfótunum og neðri hluta búksins. Veðrun aldanna hefur gert sitt til að
sverfa niður rúnaristurnar, sem þar að auki eru mjög illa farnar af sprungum
út frá skotum sem dunið hafa á þeim alls staðar á báðum síðunum. Mér
hefur verið bent á að kúlnaförin, sem öll eru um 5 cm í þvermál, séu líklega
eftir múskettur eða tinnubyssur og að ljónið gæti um tíma hafa verið notað
sem skotmark, annaðhvort af Tyrkjum, meðan þeir réðu ríkjum þarna,
eða af skotliðum úr f lota Morosinis sem gætu hafa stytt sér stundir við
skotæfingar þá mánuði sem þeir dvöldu í Píreus.
Þótt risturnar séu illa farnar eru þær samt vel sjáanlegar. Þó virðist
enginn hafa veitt þeim athygli fyrr enn Svíinn Johan David Åkerblad, sem
þá var sendiherra á Ítalíu og mikill tungumálamaður, kom auga á þær þegar
hann dvaldi í Feneyjum veturinn 1798 til 1799. Faðir hans var prestur við
Västeråkers kirkju um 20 km suðvestan við Uppsali, þar sem enn standa
tveir stórir rúnasteinar og Åkerblad hefur því að sjálfsögðu þekkt rúnir.10
Aldamótaárið 1800 birti hann grein um uppgötvun sína án þess þó að gera
tilraun til að túlka risturnar.11
Árið 1854 gafst hinum kunna danska fornfræðingi Carl Christian Rafn
tækifæri til að rannsaka risturnar í Feneyjum, en áður hafði hann látið
útvega sér teikningar og gifsafsteypur af ristunum. Hann birti niðurstöður
sínar árið 1856, bæði á frönsku og dönsku í bókinni Antiquités de L’Orient
(Oldtidsminder fra Östen). Rafn var ekki æfður rúnafræðingur og hafði ekki
marga daga til stefnu í Feneyjum. Teikningarnar sem hann hafði undir
höndum eru ekki til þess fallnar að gera túlkun hans trúverðugri, en
athuganir hans hafa margar komið mér að góðu gagni við mína vinnu. Í
bók hans er mjög fróðlegt yfirlit yfir tildrög þess að ljónið var f lutt frá Píreus
til Feneyja, saga þess frá upphafi rakin, lýsingar á höfninni í Píreus, athafnir
Morosinis og f lota hans í Aþenu raktar, viðgerð á ljónunum eftir komuna
til Feneyja lýst og hvenær þau voru sett á stallana. Er það bæði mikilvæg
og skemmtileg frásögn. Rafn byggir þekkingu sína á þeim mörgu skjölum
og skýrslum sem Morosini sendi heim til Feneyja – meðan hann var ennþá
í Aþenu – um f lutning ljónanna til Feneyja og á lýsingum á komu þeirra
til Feneyja. Meðal annars er reikningur myndhöggvarans Emerengo fyrir
viðgerð á ljónunum varðveittur. Þessi skjöl eru öll, að því er ég best veit,
ennþá í skjalasafni borgarinnar. Því miður hef ég ekki haft tækifæri til að
skoða þau ennþá.
10 Um þennan merkilega mann sjá Thomasson 2013.
11 Rafn birti grein Åkerblads í bók sinni, sjá Rafn 1856, bls. 81-87. Í framhaldi af því á bls. 87-107 gerir
Rafn grein fyrir öllum heimildum sem þá voru þekktar um Píreusljónið og risturnar, sjá einnig
Brate 1919 og Jansson 1984a.