Börn og menning - 01.04.2012, Blaðsíða 13

Börn og menning - 01.04.2012, Blaðsíða 13
Vaknað í Erilborg 13 laðast að hinu óhugnanlega og finna fyrir óttablandinni spennu gagnvart bókum. Þar komum við aftur að Sesselju Agnesi, því það sem vakti eintómar neikvæðar tilfinningar hjá vinkonu minni kallaði ( mínum huga fram dulúð, angurværð og einhverja óræða tilfinningu fyrir veröld inni í veröld inni í veröld. Þess vegna las ég bókina aftur og aftur, þess vegna situr hún í mér þótt það sé vissulega á annan hátt en iðjusemin í Erilborg. Á götum Erilborgar Aftur og aftur stend ég sjálfa mig að því að upplifa, eða reyna að upplifa veruleikann ( gegnum skáldskapinn sem ég nærðist á sem barn. Mérfannst ég ekki bara vera í Erilborg þar sem ég stóð og fylgdist með strætisvögnum borgarinnar sækja farþega og skila öðrum af sér; mér fannst ég líka vera í Næturbókinni eftir Mauri Kunnas - enda komst ég að því sem ég var eiginlega búin að gleyma, að klukkan átta á reykvískum vetrarmorgni er aldimmt og eiginlega stórundarlegt að fólk skuli yfirhöfuð vera á ferli. Fyrir þá sem ekki þekkja Næturbókina, þá stórkostlegu bók, þá er hún eins konar norræn frænka Erilborgar. í bókinni fjallar finnski höfundurinn Mauri Kunnas um allt það sem gerist á nóttunni; um þau sem vinna störf sín að nóttu til eða snemma á morgnana, um prentara, bakara, blaðbera, flugumferðarstjóra, og um alls kyns næturgöltrara eins og fiðrildasafnarann Lísu, draugafjölskyldu í hálfhrundu húsi og hinn ógleymanlega svefngengil herra Rút, en eitt af því skemmtilega við bókina er einmitt að reyna að finna herra Rút á hverri opnu. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þessi vitrun mín á vetrarmorgni er eflaust ekki algengt fyrirbæri enda flestir komnir á fætur talsvert löngu áður en ég er vön að opna augun, og lítil Erilborgar- eða Næturbókarstemning í þvi fólgin að skafa af bílnum á degi hverjum, koma börnum ( leikskóla, keyra öskubíl eða bíða eftir strætó. Hins vegar hef ég tekið eftir því að ég er greinilega ekki ein um þessa nostalgísku yfirfærslu á barnabókastemningu. Þegar Reykjavík breyttist í gullfallegt, nánast dulúðlegt vetrarríki eina nótt í janúar síðastliðnum vöknuðu strax hjá mér einhver Narníuhughrif; ekki síst þegar mér varð litið út um gluggann á Ijósastaurinn sem stendur á götuhorninu hjá mér. Undir honum hefði allt eins getað staðið fánninn vinur Lúsíu. Þegar ég síðan kveikti á tölvunni nokkru seinna og fór að renna í gegnum fésbókarstatusa dagsins sá ég að í það minnsta þrír vinir mínir höfðu hugsað slíkt hið sama - þeim fannst þeir líka vera staddir í Narníu. ( útskriftinni úr háskólanum mínum í Wales var ég komin inn í Harry Potter-heim, þar sem skikkjuklæddir nemendur og kennarar komu saman ( stórum sal og rektorinn sat í einhvers konar hásæti úr tré, með gríðarstóran valdasprota sem hefði allt eins getað verið töfrastafur. Húsin sem kunningjar mínir búa ( úti í Svíþjóð eru Astrid Lindgren-hús þar sem Madditt gæti allt eins stokkið fram af þakskegginu með regnhlífina sína. Þegar ég keypti mér doppótt pils með víðum faldi fannst mér ég loksins hafa eignast rokkpils eins og stelpurnar í Franskbrauði með sultu eftir Kristínu Steinsdóttur. Þá sjaldan mig dreymir um búsetu utan borgar er það undantekningalaust í vita á hjara veraldar, í stíl við eyjuna hans múmínpabba eða litlu ugluna hennar Maríu úr samnefndri bók eftir Norðmanninn Finn Havrevold. Það eru auðvitað algjör forréttindi að hafa aðgang að þessari nostalgíusíu á veruleikann. Hún getur sveipað hversdagslegustu viðburði dulúð og spennu, aukið við hughrifin þegar maður upplifir eitthvað stórmerkilegt, og getur jafnvel slegið á leiðindi eða vanlíðan. Ég minni á þá ábyrgð okkar sem höfum fengið að njóta þessa hliðarheims að miðla möguleikanum áfram og gefa börnum færi á að gera raunveruleikann örlítið súrrealískari, rómantískari, ævintýralegri og óvæntari. Raunveruleikaflótti er vanmetið fyrirbæri. Okkur veitir ekkert af flóttaleiðum út úr hversdeginum. Ef barnabók um kettling í týrólafötum, mýs sem búa (einbýlishúsum og jakkafataklædd svín, sem ég las fyrst fjögurra ára gömul, getur gert mér það bærilegt að rífa mig á fætur fyrir allar aldir þá eru barnabækur sannarlega mikils megnugar. Höfundur er þýðandi og leikskáld o

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.